föstudagur, mars 27, 2015

Hlustað í þykjustunni á eitthvað skylduræknispíp

Um daginn las ég frétt um hvalveiðar sem var ekkert um hvali. Þess í stað var rætt um samskipti Bandaríkjanna og Íslands vegna hvalveiða, en Bandaríkin hafa beitt pólitískum þrýstingi til að reyna að stöðva veiðarnar. Í fréttinni er rætt við Geir H Haarde núverandi sendiherra Íslands í Bandaríkjunum (það er óþægilegt), Guðmund Árna Stefánsson fyrrverandi sendiherra, og Birgi Ármannsson formann utanríkismálanefndar (það má ekki minna vera en tala við þrjá karlmenn) um samskipti ríkjanna og þetta deilumál sem hvalveiðarnar eru.

Geir segir aðspurður um afstöðu Bandaríkjamanna til hvalveiða Íslendinga að bandarískum embættismönnum beri skylda til að taka hvalveiðimálið reglulega til umræðu á fundum en „Íslensk stjórnvöld standa hins vegar föst á okkar rétti varðandi hvalveiðar“. (Nú á okkur að finnast hann vera að standa sig fyrir hönd þjóðarinnar.) Í sama streng taka Birgir Ármannsson og Guðmundur Árni. Sá síðastnefndi segir:
„Sá skoðanamunur kom ekki í veg fyrir eðlileg samskipti fulltrúa íslensku utanríkisþjónustunnar við embættis- og ráðamenn í Bandaríkjunum, né við aðra bandaríska aðila sem samskipti voru höfð við vegna íslenskra hagsmuna.“

Þetta er athyglisvert og má kannski skoða þetta betur með því að leika sér svolítið með textann.

Prófið að skipta út eftirtöldum orðum:
„Bandaríkin“ fyrir „vestræn lýðræðisríki“
„Ísland“ fyrir „Kína“
„hvalveiðar“ fyrir „mannréttindabrot“

Það er frekar augljóst hvaða leik íslensk stjórnvöld eru að leika. Og jafn augljóst hvernig Kína kemst upp með mannréttindabrot sín þrátt fyrir fordæmingu umheimsins. Það virkar semsagt þannig að vestrænar þjóðir koma mótmælum og gagnrýni á framfæri á öllum fundum með Kína, þeir segja eitthvað bla bla á móti — og svo er hægt að snúa sér að viðskiptunum.

Þetta virkar svo vel að Ísland leikur Kína í hvalveiðimálinu.

Ég fyllist stolti.

Efnisorð: , , ,