sunnudagur, mars 08, 2015

8. mars

Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna er full ástæða til að skoða stöðu kvenna annarstaðar í heiminum. Það er ekki síður ástæða til að skoða stöðu kvenna hér á landi. Annað útilokar ekki hitt. Andfeministum finnst að íslenskar konur hafi ekki yfir neinu að kvarta miðað við hvernig farið er með konur í fjarlægum útlöndum, og það má alveg taka undir það. En rétt eins og við gagnrýnum íslenskt lögreglu- og dómsvald (ekki bara í málum sem snúa að konum heldur almennt), pólitíkina og efumst jafnvel um að lýðræðið virki, enda þótt í öðrum ríkjum sé stríðsástand, ógnarstjórn, lögregluofbeldi og léleg lífskjör, þá getum við og eigum að vilja bæta stöðu kvenna á Íslandi. Til þess þarf viðhorfsbreytingu, því lög og reglur duga ekki alltaf til, við sjáum það best á því að konur fá upp til hópa enn ekki sömu laun og karlar* í sambærilegum störfum.

Við getum ekki hætt okkar jafnréttisbaráttu þó konur annarstaðar í heiminum hafi af ýmsum ástæðum setið eftir, vonandi náum við með fordæmi okkar að ryðja brautina fyrir þær líka. En það er ekki þar með sagt að við þurfum að láta allt yfir okkur ganga þangað til öll þjóðríki veita konum full réttindi, ekki frekar en lýðræði er lagt af þar til allar þjóðir taka upp lýðræði. Og við hættum ekki að gagnrýna lýðræðið á Íslandi þótt önnur lönd búi ekki við lýðræði, við hættum ekki að líta á lýðræði sem besta kostinn þótt okkar lýðræði sé enn gagnrýnisvert.

Íslenskar konur eiga skilið — og auðvitað allar konur í heiminum — að vera metnar sem manneskjur og njóta virðingar sem slíkar. Við eigum ekki að þurfa að sæta mismunun í starfsráðningum eða í launum. Við eigum skilið að vera lausar undan þeirri ógn sem kynferðislegt ofbeldi er. Við eigum að geta verið óhultar fyrir hverskyns ofbeldi heima hjá okkur. Við eigum skilið að geta verið óhræddar við að slíta sambandi án þess að vera refsað fyrir með myndbirtingum, ofbeldi eða dauða.

Það er hægt að telja upp langan lista yfir það sem konur hér á landi og annarstaðar eiga við að stríða, en þarf eitthvað að tíunda það frekar? Geta íslenskir karlar ekki bara hætt að bíða eftir að indverskir karlar hætti að nauðga konum og drepa þær eða sádi-arabar hleypi konum í ökumannssætið, og farið að koma fram við okkur eins og við séum fullgildar manneskjur?

___
* Alþingi samþykkti árið 1961 lög um launajöfnuð kvenna og karla. Samkvæmt nýjustu útreikningum eru 54 ár síðan.

Efnisorð: , , , , ,