þriðjudagur, mars 03, 2015

Hver fer, hversvegna og hver ber ábyrgðina?

Fyrir nokkru spurði ég hvað hefði farið úrskeiðis hjá þeim ungu karlmönnum (og í ljós hefur komið að það eru ekki bara karlmenn) sem hafa flykkst til miðausturlanda til þess að ganga til liðs við íslömsku vígamennina sem kalla sig Íslamska ríkið (ISIS). Það eru líklega til mörg svör við þeirri spurningu, en eitt þeirra sem birtist í ágætri fréttaskýringu Guðsteins Bjarnasonar vakti sérstaka athygli mína. Ég tel vert að birta þann hluta sem snýr að ástæðu þess að um tuttugu þúsund manns hafa gengið til liðs við ISIS, þar af um þrjú þúsund manns frá fyrrverandi lýðveldum Sovétríkjanna.
Trúarhiti virðist sjaldan vera raunhæf skýring á því hvers vegna fólk gengur til liðs við öfgahópa eða hryðjuverkasamtök. Liðsmenn þeirra virðast oft hafa afar takmarkaðan skilning á trúarlegum eða öðrum hugmyndafræðilegum forsendum þeirra samtaka sem þeir skipa sér í sveit með. Ýmsir fræðimenn hafa rannsakað raunverulegar ástæður þess að menn leiðast út í slíkt. Hér að neðan eru dæmi um niðurstöður slíkra rannsókna:

- Persónulegur gremjuvaki: Persónulegur harmleikur eða ranglæti sem menn hafa (eða telja sig hafa) orðið fyrir.

- Pólitískur gremjuvaki: Pólitískur harmleikur eða ranglæti sem menn þurfa (eða telja sig þurfa) að bregðast við.

- Tilfinningatengsl: Einstaklingur kemst í samband við öfgasamtök vegna tengsla sinna við einstakling eða einstaklinga innan samtakanna.

- Rótleysi: Einstaklingur missir félagslega staðfestu í lífi sínu, oft vegna áfalla, og verður þá móttækilegur fyrir áhrifum öfgahópa.

- Upphefðarþrá eða spennufíkn: Einstaklingur leitar í hóp þar sem hann nýtur viðurkenningar eða fær útrás fyrir spennufíkn.

- Eitt leiðir af öðru: Einstaklingur missir smám saman fótfestuna eftir að komið er út á hina hálu braut ofbeldis og öfga.

- Hefnd: Einstaklingur er fullur gremju gegn einstaklingi eða hópi sem hann telur bera ábyrgð á ranglæti eða óförum sínum eða annarra.

- Upphefð: Einstaklingur leitast eftir að komast í virðingarstöðu innan hóps og njóta viðurkenningar.

- Sjálfstenging: Einstaklingur reynir að finna sjálfsmynd sinni fótfestu innan hóps með eftirsóknarverðan málstað.

- Spenna: Einstaklingur leitar í öfgahóp vegna fyrirheita eða vona um spennu, ævintýri og frægð.
(sjá alla fréttaskýringuna hér auk vísunar í heimildir)

Það sem mér finnst athyglisverðast við þessar skýringar er að mér finnst einsog ég hafi séð þær notaðar til að útskýra gengjamenningu, nýnasistahópa og fleira í þeim dúr. Og ef maður spáir í það þá hljómar það ekkert ólíkt að finnast eftirsóknarvert að vera í gengi þar sem hópurinn verndar þig, og njóta þess að vera hluti af hóp sem öllum stendur ógn af, eins og nýnasistar eða vígasveitir ISIS.

Guðmundur Andri Thorsson sagði einmitt í pistli:
„Alls konar bulluflokkar eru hluti af mannlegri tilveru, gengi sem hafa aðdráttarafl fyrir unga karlmenn með veika sjálfsmynd. Þeir fá styrk af hópnum, nýja tilfinningu um vald og hlutverk í samfélaginu og jafnvel mannkynssögunni og þeir upplifa þá vímu sem illvirki geta veitt. Svona gengi var í Vogunum þegar ég var strákur þar að alast upp og maður óttaðist þá en ekki hvarflaði að fólki að þeir störfuðu í sérstöku umboði frá mér við innbrot sín og óknytti. Hópar á borð við ISIS eru í grunninn af þessu tagi. Hættulegir og andstyggilegir, en ekki fulltrúar hins almenna múslíma þótt þeir og andstæðingar þeirra sameinist um að reyna að láta líta svo út.“
Rétt einsog líklega verður aldrei hægt að koma í veg fyrir að ungu fólki líði þannig að því finnist skásti kosturinn að ganga til liðs við samtök sem hafa ofbeldi á stefnuskrá sinni, eða kýs að fremja hryðjuverk í landinu sem fóstrar það því það heillast af baráttu ISIS, verður sennilega aldrei hægt að uppræta stækt hatur sumra á múslimum. Öllum múslimum. Er þó reynir allmargt fólk að benda á að það eru ekki allir múslimar eins, að þótt sumir múslimar túlki trúartexta sína þannig að ofbeldi sé réttlætanlegt viðbragð við næstum öllu þá eru aðrir sem eru friðsemdarfólk sem vill engan kúga eða meiða nær eða fjær. Hér er auðvitað gott að nefna Malölu enn eina ferðina, sem sönnun fyrir friðsömum og góðviljuðum múslimum.

Nicholas Kristof nefndi Malölu einmitt í grein (sem ég þýddi og birti ) og sagði einnig þetta :
„Skrípamyndin af íslam sem ofbeldissinnaða og óumburðarlynda trú er hryllilega ófullkomin. Munum það að flestir þeirra sem standa uppi í hárinu á ofstækisfullum múslimum eru múslimar sjálfir.“

Ég minni einnig á pistil Gunnars Hrafns Jónassonar þar sem hann segir frá vafasamri guðfræði ISIS sem „enginn viðurkenndur klerkur tekur undir; þvert á móti hafa margir helstu lögspekingar Íslam hakkað túlkanir þeirra í sig“.

II

Hin aðferðin til að reyna að telja múslimahöturum hughvarf er að benda á fjölmörg dæmi þess að yfirlýstir kristnir menn hafa framið sinn skerf af hryðjuverkum, svona til að benda á að íslam er ekki að því leytinu neitt verri en kristni, en þeir sem hatast sem mest útí múslimana virðast flestir halda að kristni gangi og hafi alltaf gengið útá Jesú bróðir besti stemninguna.

Illugi Jökulsson hefur fyrir sitt leyti reynt að benda múslimahöturum uppi á Íslandi á að ofbeldissaga kristinna gegnum tíðina er síst skárri en þeirra íslömsku nú um stundir. Hann hefur tildæmis skrifað um herskáa hryðjuverkamenn sem unnu sín illvirki í nafni kristindóms. Svona til að benda á að „hin kristna heimsmynd“ felist ekki ævinlega í „umburðarlyndi og víðsýni og kærleika“. En í athugasemdakerfunum (greinar Illuga birtast í Vísi jafnframt Fréttablaðinu þótt óneitanlega sé skemmtilegra að lesa þær á prenti) þvælast múslimahatararnir og saka Illuga um að „mæra vini sína múslíma“.

Ég veit ekki með Illuga eða aðra sem reyna að stemma stigu við múslimahatri, en ég fyrir mitt leyti er ekki hrifin af trúarbrögðum yfirleitt eða íslam sérstaklega en mér óar við því að spyrða alla múslima saman og álíta þá óvini mannkyns. Jafnframt finnst mér fáránleg sú krafa að allir múslimar á Íslandi eigi að sverja af sér stuðning við hryðjuverk í hvert sinn sem einhver vitleysingur skýtur á fólk eða Boko Haram eða ISIS fremja hroðaverk sín.

Um áratuga skeið ríkti borgarastyrjöld á Írlandi vegna deilna kaþólikka og mótmælenda um hvort aðskilja ætti Norður-Írland frá Bretlandi. Írski lýðveldisherinn, IRA, sem var kaþólskur vildi aðskilnað, en mótmælendatrúarmenn vildu vera áfram undir bresku krúnunni og nutu því stuðnings bresku stjórnarinnar (og hersins). „Barátta þeirra fyrir aðskilnaði kostaði um 1.800 manns lífið á árunum frá 1969 þangað til friðarsamkomulag tókst árið 1997.“ Og ekki má gleyma Breivik, ljóshærða og bláeyga kristna múslimahataranum, hann drap einn og sjálfur 77 manns. (Um IRA, Breivik og alla hina má lesa í fréttaskýringu Guðsteins Bjarnasonar.)

Meira segja hér uppi á litla Íslandi hefur verið framið hryðjuverk. Það dó enginn eða slasaðist og almennt var litið á það sem smámál, jafnvel svo að lögregla ákærði ekki manninn, sem var alíslenskur í húð og hár. Guðmundur Andri Thorsson rakti það mál (í sömu grein og ég vitnaði í áðan) og sagði:
„Í janúarmánuði árið 2012 kom sem sé maður einn fyrir sprengju við stjórnarráðið snemma morguns en fórst verkið óhönduglega svo að ekki skapaðist teljandi hætta önnur en sú að honum tókst næstum því að kveikja í sjálfum sér. Upphaflega hugðist maðurinn koma sprengjunni fyrir við heimili þáverandi forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur. Með þessu sprengjubrölti vildi hann leggja áherslu á kröfur sínar um slit á aðildarviðræðum við ESB, endurskoðun á EES-samningnum, að Ísland hætti í Schengen-samstarfinu og breytingar á kvótakerfinu.“
Nú eru íslensk yfirvöld ekki lengur lin í garð hryðjuverkamanna og telja hryðjuverkaógn stafa af ókennilegum mönnum. Því fagna eflaust andstæðingar íslam.

En vilji múslimahatararnir endilega hunsa upptalningar á hryðjuverkum kristinna hvítra karla einna sér eða í hópum, og listann hér í upphafi pistilsins sem rekur ástæðu þess að alltof mörg ungmenni ganga til liðs við íslömsk hryðjuverkasamtök, og halda því fram að allir múslimar á Íslandi eigi sverja að þeir styðji ekki hryðjuverk, þá er kannski ástæða til að benda þeim á nýlega nafngreindan liðsmann ISIS. Hann heitir Mohammed Emwazi og ólst upp í Bretlandi.
„Á æskuárum sínum hafði Mohammed Emwazi gaman af bandarísku sjónvarpsþáttunum Simpsons og dreymdi um að spila knattspyrnu með Manchester United.

Emwazi kom fyrst fyrir í myndbandi ISIS í ágúst síðastliðinn þar sem bandaríski blaðamaðurinn James Foley var tekinn af lífi. Hann á einnig að hafa birst í myndböndum þar sem bandaríski blaðamaðurinn Steven Sotloff, breski hjálparstarfsmaðurinn David Haines, breski leigubílstjórinn Alan Henning og bandaríski hjálparstarfsmaðurinn Abdul-Rahman Kassig voru teknir af lífi.“
Nú hlýtur að standa uppá alla aðdáendur Simpsons og Manchester United að sverja af sér að þeir styðji aftökur ISIS.



Efnisorð: , , , , , , , ,