föstudagur, febrúar 06, 2015

Launalausa prósentið

Síðasti pistill fjallaði um misskiptingu auðæfa í heiminum og ríkasta prósentið. Nú er komið að því að skoða hvernig þeir hafa það sem eiga minnst en vinna þó baki brotnu.

Um allan heim vinnur fólk fyrir lúsarlaun fyrir erfiðisvinnu. Vinnan er óþrifaleg, hættuleg eða fer svo illa með líkamann að lífslíkur minnka til muna í bráð og lengd. Oft neyðist fólk til að vinna þessa vinnu vegna þess að enga aðra vinnu er að hafa þar sem það býr, eða vegna ólæsis og annars menntunarskorts og því verður fólk að sætta sig að taka þeirri vinnu sem býðst, jafnvel þótt nærri ómögulegt sé að lifa af laununum. Það er skammarlegt að vinnuveitendur skuli ekki greiða fólki mannsæmandi laun fyrir vinnu sína, hvað þá þegar um erfiðisvinnufólk er að ræða.

Þetta á til dæmis við um fólkið sem vinnur við að sækja brennistein í gíg eldfjallsins Kawah-Ijen á eynni Jövu í Indónesíu. Vinnuaðstæður eru (eins og sjá má á myndum) ryk og brennisteinsgufur, bratt fjall, 70-90 kíló á bakinu, löng ganga, alls um 12 kílómetrar á dag. Þrátt fyrir hættulegar aðstæður og erfiðisvinnu fá námuverkamennirnir aðeins 13 bandaríkjadali (u.þ.b. 1.700 krónur) á dag í laun.

Enn verri kjör og enn verri meðferð mega þrælar þola. Það sem átt er við með nútíma þrælum á bæði við um fólk sem er beinlínis rænt, hlekkjað og selt til að vinna launalaust, og einnig fólk sem ræður sig í vinnu fjarri heimahögum en þegar þangað er komið er það lokað inni eða ekki frjálst ferða sinna og vinnur langan vinnudag við vondar aðstæður, stundum fyrir örlítil laun en fær iðulega ekki annað en lélegt húsaskjól og mat sem oft er þó skorinn við nögl.

Dæmi um þetta eru of mörg til að telja þau upp og spanna margar atvinnugreinar (fataiðnaður kemur þó skjótt upp í hugann) og allar byggðar heimsálfur. En ég nefni þó þessi til glöggvunar.

Þrælar eru notaðir á tælenskum rækjuveiðiskipum sem selja afurðirnar til helstu verslanakeðja heims. Þrælarnir eru pískaðir áfram, þeir pyntaðir og myrtir. Þeir eru látnir vinna allt að tuttugu tíma á sólarhring, barðir reglulega, pyntaðir og myrtir. Margir þrælanna eru frá Búrma og Taílandi. Nokkrir sögðust hafa greitt milligöngum fyrir að útvega sér vinnu í verksmiðjum í Taílandi. Þess í stað voru þeir seldir í þrældóm.

Fyrir ellefu árum drukknuðu tuttugu og þrír Kínverjar við skeljatínslu í Bretlandi. Í ljós kom að fólkið var ekki staðkunnugt og talaði ekki ensku, en allar aðstæður þeirra bentu til að þau hafi verið flutt ólöglega til Bretlands og hneppt í þrældóm. Í ársgamalli grein á vef BBC (á ensku) er fjallað um þennan atburð og sagt að nú séu líklega um 10.000 manns í Bretlandi sem séu þrælar á nútíma mælikvarða.

Síðla árs 2013 réðst breska lögreglan inn í kannabisverksmiðju og kom þá í ljós að víetnamskir karlmenn höfðu verið þar í þrælkunarvinnu. Þeir voru fluttir til Bretlands af glæpagengi gagngert til að hugsa um plönturnar allan sólarhringinn. 40 slíkum kannabisverkssmiðjum er lokað árlega í Bristol. Víetnamar sem neyddir hafa verið til að vinna í þeim eru iðulega ungir að aldri, allt niður í 14 ára.

Þetta var bara sýnishorn. Um allan heim er fólki haldið nauðugu og neytt til vinnu.
„36 milljónir manna búa við þrældóm samkvæmt nýrri skýrslu samtaka sem berjast gegn þrælkun og ánauð. Flestir þrælar eru á Indlandi. 1/2% mannkyns býr við nútímaþrælahald samkvæmt skýrslu Walk Free-samtakanna.

Þá er átt við fólk sem neytt er í þrælkunarvinnu, fórnarlömb mansals, er í skuldaánauð, neytt í hjónaband eða vændi. Þetta er mikil fjölgun frá 2012 þegar 21 milljón var talin búa við þrælahald en skýrsluhöfundar telja að það sé vegna betri aðferðafræði við söfnun gagna frekar en að þrælum hafi fjölgað svo mikið.

Fæstir þrælar eru í Evrópu en Afríka og Asía eiga lengst í land í að útrýma þrælahaldi. Flestir hafa verið hnepptir í ánauð á Indlandi eða 14 milljónir manna. Þar á eftir er Kína með 3 milljónir. Þar á eftir er Pakistan, Uzbekistan og Rússland. Hæsta hlutfallið er í Máritaníu þar sem 4% þjóðarinnar búa við þrældóm.“ (Af vef Ríkisútvarpsins.)
Ekki má gleyma hinum mikla fjölda „farandverkamanna“ sem komu til Íslands í góðærinu, en þar var áberandi hvað illa var farið með þá á Kárahnjúkum. Eða einsog segir í fréttaskýringaröð (grein 1,2,3,4,5,6,7) Fréttablaðsins um mansal:
„Þegar við horfum til dæmis til starfsmannaleiganna sem voru mikið hér í góðærinu þá hefðum við eflaust skoðað það á allt annan hátt ef við hefðum á þeim tíma haft þá vitneskju sem við höfum núna um mansal.“
Virkjanir og íþróttamót virðast soga að sér viðbjóðslega gróðapunga sem einskis svífast til að koma upp steypumannvirkjum sínum. Aðstæður verkamanna sem byggðu hallir og velli í Katar (Qatar) þar sem heimsmeistarmótið í handbolta var haldið – og heimsmeistaramótið í fótbolta verður senn — eru vel kunnar. Hér er þeim lýst á vef Ríkisútvarpsins.
„Aðstæður verkamanna í Katar hafa verið harkalega gagnrýndar og lýst sem nútímaþrælahaldi. Margir hafi ekki fengið laun sín greidd mánuðum saman. Mörg hundruð verkamenn hafa látið lífið í vinnuslysum við byggingu íþróttamannvirkja.
Yfir ein og hálf milljón erlendra verkamanna starfar í Katar. Hlutfall innfluttra verkamanna er hvergi hærra, en þeir eru 94% vinnuaflsins. Flestir koma frá fátækum löndum Asíu, þar af 40% frá Nepal. Margir starfa við byggingu íþróttamannvirkja en auk heimsmeistaramótsins í handbolta sem nú stendur yfir er fjöldi stórmóta framundan í landinu. Þar ber hæst heimsmeistaramótið í fótbolta á 2022.
Breska blaðið Guardian, sem rannsakað hefur aðstæður verkamannana, fullyrðir að þeim sé þrælað út, ein ríkasta þjóð heims misnoti eina þá fátækustu til að búa sig undir vinsælasta íþróttamót í heimi.

Amnesty International segir að komið sé fram við verkamennina eins og dýr. Atvinnurekandinn ráði yfir þeim að nær öllu leyti og vegabréfin séu tekin af þeim. Gistiaðstaðan sé vægast sagt hörmuleg og vinnuslys tíð.

James Lynch hjá Amnesty International veit um dæmi þess að menn hafi ekki fengið greitt mánuðum saman. Einn verkamaður segist hafa unnið stanslaust frá klukkan fjögur að nóttu til klukkan ellefu að kvöldi, án þess að matast.

Alþjóðasamband verkalýðsfélaga segir að 1400 verkamenn hafi þegar látið lífið í Katar vegna slæmra vinnuaðstæðna og að 4000 verkamenn gætu látið lífið áður en flautað verður til leiks á heimsmeistarmótinu 2022.“
Um þetta er handboltahreyfingunni og fótboltaáhugamönnum allra landa skítsama. Tuttugu stuðningsmenn íslenska karlalandsliðsins í handbolta var boðið, eins og frá öðrum þátttökuþjóðum, og það er eins og enginn þeirra – eða íslenskir fjölmiðlar hafi áttað sig á að þeir eru fengnir þangað til að bera út hróður Katar fyrir fótboltamótið sem verður mun stærra mót. Það er verið að kaupa þá til að auglýsa það sem þeim finnst jákvætt, í því skyni að minnka vægi fréttanna af þrælahaldinu. Og áhugi milljarðamæringanna í Katar sem endilega vilja halda þessi íþróttamót (það er fyrirfram vitað að það er ekki hægt að spila þar fótbolta úti um hásumar vegna hita) er sannarlega furðulegur og hrollvekjandi. Líklega hafa þeir bara svona gaman af því að eyða peningum, enda nóg til frammi.

Láglaunaverkafólkið og þrælarnir eru neðst í virðingarstiga hagkerfisins. Efst trónir auðugasta prósentið og restin af mannkyninu — sjö milljarðar manna — má skipta afganginum milli sín.

Væri nú kjörunum skipt á réttlátari máta, ríkasta prósentið yrði skattað duglega, stjórnmálamenn einbeittu sér að því að efla félagsleg kerfi, bjóða öllum ókeypis menntun og heilbrigðisþjónustu, og það væri skylda að borga þokkaleg lágmarkslaun fyrir erfiðu og óhreinlegu störfin, þyrfti varla að pína neinn til að vinna þau. Eða eru allir bara sáttir með þetta svona?

Efnisorð: , , , , , ,