miðvikudagur, febrúar 04, 2015

Auðugasta prósentið

Það er fáránlegt að 80 auðugustu manneskjurnar í heiminum eiga meiri auðæfi en fátækari helmingur jarðarbúa.

Ríkasta eitt prósent jarðarbúa á nú næstum helming alls auðs mannkyns og í nýrri skýrslu bresku samtakanna Oxfam, sem var kynnt í janúar, er því haldið fram að á næsta ári verði eignir þessa eins prósents orðnar meiri en samanlagðar eigur hinna 99 prósentanna.

Þetta er samt ekkert einskorðað við útlendinga í vondum útlöndum, hér á landi er samþjöppun auðs einnig vandamál.

Fjölmiðlar (t.d. Kjarninn og Vísir) skýrðu frá því að samkvæmt Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra hafi
„tekjuhæstu fimm prósent þjóðarinnar þénað 257,6 milljarða króna árið 2013. Það samsvarar 21,5 prósent af heildartekjum Íslendinga. Sama hlutfall var 17,6 prósent árið 2012. Hlutfallið náði hámarki árið 2007 þegar tekjuhæstu fimm prósentin þénuðu 33,2 prósent af heildartekjum en það fór lækkandi í kjölfar hrunsins. Árið 2012 og 2013 tóku tekjuhæstu 5 prósentin stærri sneið af tekjukökunni.

Sé hópurinn þrengdur enn meira má sjá að tekjuhæsta 0,1 prósentið þénaði sem nemur 2,3 prósentum af heildartekjum þjóðarinnar. Það er langt frá þeim toppi sem hópurinn náði árið 2007, þegar tekjuhæsta 0,1 prósentið þénaði 10,2 prósent allra tekna. Sama er uppi á teningnum hjá þessum hópi og fimm prósent tekjuhæstu þegar kemur að vexti á milli ára. Árin 2012 og 2013 tók hópurinn hærra hlutfall tekna til sín en fyrstu árin eftir hrun. 


Tekjuhæsti 0,1 prósent hópurinn samanstendur af 140 til 200 fjölskyldum, eftir árum.

Þetta segir hinsvegar aðeins hálfa söguna því að í gögnunum er hlutafjáreign metin á nafnvirði. Eignir ríkustu Íslendinganna eru því verulega vanmetnar. Þá má gera ráð fyrir enn hærri eignum vegna fasteigna en þær eru metnar á fasteignamatsverði, sem oft á tíðum er mun lægra en markaðsvirði eigna.“

Af þessu tilefni er líka ágætt að rifja upp afar athyglisverðan pistil sem Jóhann Hauksson birti í janúar. Í pistlinum ræðir hann m.a. um fjölskyldurnar fimmtán sem áttu og stjórnuðu landinu hér á árum áður, hvernig gæðum landsins var skipt milli Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna, og nefnir ýmsa fleiri til sögunnar. En svo segir hann:

„Nú, árið 2015, segja mér vel tengdir menn með mikla yfirsýn og reynslu, að píramíðalögun íslenska viðskiptalífsins – og stjórnmálanna – sé enn brattari en á tímum Kolkrabbans og síðar Baugsmanna og Björgólfa. Fjölskyldurnar séu enn færri en áður. Völdin yfir stærstu fyrirtækjunum séu á höndum enn færri einstaklinga (fjölskyldna) en áður. Auk þess lifi gamla helmingaskiptareglan góðu líkamlegu lífi í formönnum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.“
Jóhann rekur hvernig ríkisstjórnin hyglir sínum en segir svo frá athyglisverðu atriði (sem kom reyndar fram í grein sem hann vísar á), sem almúginn gerir sér ekki grein fyrir varðandi fjármál ríka fólksins og sem honum sjálfum fannst svo ótrúlegt að hann spurðist fyrir hjá ríkisskattstjóra til að fá það staðfest. En niðurstaðan er semsagt sú að „skattlagning félaga vegna tekna þeirra af eignarhlutum í öðrum félögum … er núll prósent!“ Það er von að menn hafi stofnað eignarhaldsfélög út og suður.

Ríka fólkið borgar semsagt ekki skatta af eignarhaldsfélögum sínum og hlutafjáreignin er vanmetin. Ríka fólkið er enn ríkara en við höldum og skattkerfið hyglir því.

Á meðan, á öðrum stað í þjóðfélagsstiganum, búa tvö prósent Íslendinga eða tæplega sex þúsund og tvö hundruð manns, við sára fátækt. Rúm níu prósent landsmanna eru undir lágtekjumörkum og er með minna en hundrað og sjötíu þúsund krónur á mánuði í ráðstöfunartekjur. Þetta er haft eftir Velferðarvaktinni en síðastliðið vor gaf Rauði kross Íslands út skýrslu sem sagði sömu sögu og benti á að þar að auki eigi 13% til viðbótar á hættu að verða fátækir beri eitthvað út af eða aðstæður breytast.

Þetta eru dapurlegar staðreyndir. En hvernig verður þessari þróun snúið við? Hvernig er hægt að minnka bilið svo þeir ríku gíni ekki yfir öllu og verði sífellt ríkari?

Warren Buffett, einn af þessum allra ríkustu mönnum heims, hefur lýst sig fúsan til að borga hærri skatta. Hann borgar aðeins 19% tekjuskatt en starfsfólk hans borgi 33% tekjuskatt. Eftir honum er haft að í gangi sé stéttastríð, en það sé hans stétt, efnastéttin sem standi fyrir stríðinu og það sé rífandi gangur hjá hans liði.

Auðmenn í Frakklandi sendu fyrir nokkrum árum svipaða yfirlýsingu til (þáverandi) ríkisstjórnar sinnar. Hér á landi hefur Kári Stefánsson talað fyrir þessari leið.

Árið 2012 lögðu Sameinuðu þjóðirnar til að að sérstakur skattur yrði settur á milljarðamæringa til að afla fjár handa fátækum ríkjum. Í frétt um málið kemur fram að 1.226 menn í heiminum eigi eignir sem séu metnar á meira en einn milljarð Bandaríkjadala. Þar af séu 425 í Bandaríkjunum, 315 í austanverðri Asíu og Eyjaálfu, 310 í Evrópu, 90 í ríkjum Norður- og Suður-Ameríku, öðrum en Bandaríkjunum, og 86 í Afríku og Mið-Austurlöndum. Samanlagt á þetta fólk jafnvirði 590 þúsund milljarða íslenskra króna.

Það munar um minna.

Hin aðferðin við að að breyta ástandinu er að kjósa öðruvísi.

Það er ekkert vafamál að það skiptir máli hvernig kosið er, hægri stjórnir vilja skattleggja efnafólk minna en vinstri stjórnir. Hér á landi bera kjósendur alla ábyrgð á því að frjálshyggjunni hefur aftur verið hleypt á skeið. Hálaunastefna fyrirtækjanna er grímulaus (en þótti hjákátleg meðan Jóhanna Sigurðardóttir var forsætisráðherra og hélt launum ríkisforstjóra í skefjum með því að leyfa þeim ekki að fá hærri laun en hún), útgerðinni er endalaust hyglað og skattar eru bara hækkaðir á nauðsynjar á borð við mat.

Sjálfstæðisflokkurinn á alltaf sitt fastafylgi sama hvað á gengur, eins geggjað og það nú er, og þar á meðal eru gamalgrónir íhaldsmenn sem eru ekki sérlega hrifnir af frjálshyggju. Það kjósa þó ekki allir bara flokkinn af gömlum vana heldur vegna þess að þeir styðja hálaunastefnu og lága fasteignaskatta. Aukin skattheimta á efnafólk er jafn mikið eitur í þeirra beinum og frjálshyggjumanna. Íhaldsmennirnir í kjósendahópi Sjálfstæðisflokksins eru því samsekir.

Samþjöppun auðs allstaðar í heiminum verður seint skrifuð á Sjálfstæðisflokkinn, en kjósendur hans eiga sér skoðanabræður um allan heim. Það er fólkið sem þarf að líta í eigin barm og íhuga hvort það sé í rauninni eðlilegt að svo fáir eigi öll auðæfi hvers lands og alls heimsins að það sé nánast hægt að nafngreina hvern og einn. Meðan sitji 99% jarðarbúa eftir gapandi af undrun yfir því hvernig þetta fær staðist — eða viðgengist.

Ef þessari þróun — auðsöfnun á fárra hendur — verður ekki snúið við er hætt við að ríkasta prósentið verði fyrr eða síðar að horfast í augu við að enginn má við margnum.

Efnisorð: , , , ,