mánudagur, janúar 19, 2015

Sovét-Reykjavík bannar tannburstun og hjálmanotkun barna

Fyrir tæpu ári skrifaði ég um leikskólabörn og endurskinsvesti. Þá furðaði ég mig á því að nánast engin umræða hefði farið fram um að börn væru notuð sem gangandi auglýsingar fyrir tryggingafélög og olíufélög. Í dag er annað uppi á tengingnum, það er mikil umræða um gjafir fyrirtækja til grunnskólabarna.

Vísir birti í dag frétt undir fyrirsögninni „Börn í Reykjavík mega ekki fá tannbursta“, sem mér finnst talsvert gildishlaðin fyrirsögn því hún gefur til kynna að verið sé að níðast á börnunum á einhvern hátt. En semsagt, öllum tíundubekkjum landsins býðst að fá tannbursta, tannkrem og tannþráð (frá ýmsum framleiðendum), en vegna reglna Reykjavíkurborgar um að ekki megi afhenda grunnskólabörnum gjafir á skólatíma, séu á gjöfunum merkingar, tregðast borgin við að leyfa reykvískum unglingum að þiggja þessa gjöf. En í fyrra mun það samt hafa verið gert með leyfi borgarinnar og það sama verður eflaust uppi á teningnum nú. Þarna er auðvitað um talsvert öðruvísi mál að ræða en að láta börnin ganga um merkt fyrirtækjum og þessvegna er sæst á að þetta með tannburstana sé í lagi (það er a.m.k. ekki verið að markaðssetja eina vöru umfram aðra) enda þótt þessi ágæta regla gildi yfirleitt. Hún hljómar semsagt svona:
„Gjafir frá fyrirtækjum, félagasamtökum og stofnunum til starfsstaða SFS (Skóla- og frístundasvið) má þiggja ef stjórnandi telur að þær samræmist stefnu SFS og með því skilyrði að ekki sé á þeim auglýsingamerkingar. [..] Starfsstaðir SFS veita ekki leyfi til að dreifa gjöfum sem ætlaðar eru börnum til einkaeignar innan starfsstaðanna á starfstíma þeirra (skólatíma) og er ekki heimilt að veita þriðja aðila leyfi til slíks.“

Nokkrum klukkustundum eftir að þessi frétt birtist (sem er eiginlega engin frétt; það eru reglur sem einhverjum finnst óheppilegar og svo eru reglurnar sveigðar þannig að allir fá tannbursta. Er þá nokkuð vandamál — nema í huga þeirra sem vilja óheftan aðgang að börnum?) og fjallar hún um sömu reglur Reykjavíkurborgar en nú snýst fréttin um reiðhjólahjálma sem Eimskip gefa af góðmennsku sinni: „Grunnskólabörn í Reykjavík mega ekki fá hjálma merkta Eimskipafélaginu“. Kiwanis hefur gefið hjálmana og fv. stjórnarmaður í hjálmanefnd skilur ekkert í þessu.
„Auk hjálmanna hefur börnunum verið gefið buff og bolti, sem einnig eru merktir Eimskipum. Ólafur segist ekki skilja bannið. „Maður skilur ekki sjónarmiðið á bakvið þetta,“ segir hann og bætir við að mikilvægt sé að geta gefið börnunum hjálmana áður en þau fara út í umferðina á vorin. „Við förum fram með þetta sem öryggismál.“
Hann virðist líta á það sem sérstakt öryggismál að hjálmarnir — og þarafleiðandi börnin — séu merkt Eimskipum.

Einnig skrifar Kiwanismaðurinn þetta í athugasemdakerfinu:
„Í vor hefur Kiwanishreifingin gefið 6 ára börnum á Íslandi reiðhjólahjálma í 25 ár.. Fyrir nokkrum árum varð þetta verkefni hreifingarinnar að landsverkefni og hefur líkað vel.
Síðan gerist það er núverandi meirihluti í Reykjavík tók við á sl. kjörtímabili að bannað var að afhenda þessa hjálma í grunnskólum Reykjavíkurborgar.
Eimskipafélag Íslands gefur á hverju ári rúmlega 4.000 hjálma í þetta verkefni og af því að merki þeirra er á kössunum og einnig er bæði bolti og buff í kassanum með hjálminum er þetta bannað.
Allir aðrir skólar á Íslandi leyfa Kiwanishreifingunni að afhenda hjálmana á skólatíma þar sem það er gert. Sumir klúbbar búa til hátíð með lögreglu og fleira og afhenda þannig hjálmana.
Þetta er eitt af ruglinu í borg óttans. Ekki má gefa öryggisatriði fyrir börn þar sem það er stutt af einu af stæðsta fyrirtæki á Íslandi.
Skyldi þetta sama fólk þyggja fé í kosningarsjóði sína frá sömu fyrirtækjum og þau meina að styðja við öryggismál barna ?????
Þetta er meirihluta borgarstjórnar til háborinnar skammar svo og þetta tannbursta mál einnig.“
Mér finnst hinsvegar til skammar að þetta hafi liðist svona lengi og fagna því mjög að „forsjárfasistarnir“ í Reykjavíkurborg hafi sett reglur sem banna markaðssetningu í skólum og að börn séu notuð sem auglýsingaskilti.

En í athugasemdum við tannburstafréttina og hjálmafréttina virðast flestir á þeirri skoðun að það sé bara sjálfsagt, og vanda borgaryfirvöldum ekki kveðjurnar, sbr. „forsjárfasistar“ og „Djöfulsins pappírspésar og ferhyrningar sem stoppa svona af!!!“ og spurt „Er þetta ekki einhver ofurviðkvæmni?“ Sumir setja á lengri ræður:
„Þessi fjandans forræðishyggja Samfylkingarinnar er farin að fara í taugarnar á mér. Samfó treystir ekki foreldrum til að meta hvað er rétt og rangt - það er bara til Samfó-Rétt og Samfó-Rangt. Þessi Sovétbúskapur Samfylkingarinnar og hinna flokkanna sem sleikja tærnar á Samfó ættu að hætta í pólitík.“
Best er auðvitað þessi klassíska yfirlýsing:
„Þetta er farið að fara aðeins út í öfgar og vitleysu. Það má ekkert orðið é. get svo svarið það. Hvað verður það næst?“
Sovét-Ísland?

Það er annars merkilegt að Vísir lætur alla gagnrýnina snúa að Reykjavíkurborg í stað þess að setja spurningarmerki við öll hin sveitarfélögin sem láta stórfyrirtæki nota sig og börnin. Nær væri að sveitarfélögin fylgdu góðu fordæmi höfuðborgarinnar. Börn eru ekki auglýsingaskilti — eða ættu ekki að vera það.

Efnisorð: , ,