fimmtudagur, janúar 08, 2015

Morðárásin á Charlie Hebdo

Enn hefur ekki tekist að hafa hendur í hári árásarmannanna sem drápu tólf manns og særðu ellefu aðra í árás á ritstjórnarskrifstofur háðsádeilublaðsins Charlie Hebdo í París í gær.

Það er hræðilegt að slíkt eigi sér stað. En það skiptir máli að hafa í huga að þótt það hafi að öllum líkindum verið óðir múslímar sem frömdu þessi voðaverk, þá hafa eftirtaldir fordæmt árásina:

— Al-Azhar háskólinn í Kaíró, ein virtasta guðfræðistofnun múslima, hefur fordæmt árásina og sagt að íslam fordæmi hvers kyns ofbeldi.

— Arababandalagið hefur fordæmt árásina.

— Írönsk stjórnvöld fordæma árásina og segja öll hryðjuverk gegn saklausu fólki andstæð kenningum og gildum íslam. Þau árétta þó fyrri gagnrýni sína á birtingu blaðsins á teikningum af Múhameð spámanni árið 2006. Þær teikningar voru fyrst birtar í Jótlandspóstinum árið áður.

— Forystumenn múslima í Frakklandi fordæma árásina í höfuðstöðvum tímaritsins Charlie Hebdo. Í yfirlýsingu frá Franska múslimaráðinu, helstu samtökum múslima í Frakklandi, segir að þetta hafi verið villimannsleg árás á lýðræðið og frelsi fjölmiðla. Ráðið hvetur fólk til að halda ró sinni og múslima að vara sig á áróðri öfgamanna. Nokkur önnur samtök múslima í Frakklandi hafa fordæmt árásina, þar á meðal samtök sem tengjast Bræðralagi múslima.


— Hér heima hefur Ibrahim Sverrir Agnarsson, formaður Félags múslima á Íslandi, fordæmt árásina en segist óttast að hún verði notuð gegn múslimum öllum verði það staðfest að um múslima hafi verið að ræða.

Ég fordæmi líka árásina en bendi á það er samt engin ástæða til að fordæma alla múslima. Þeirri fordæmingu væri þá um leið beint að lögreglumanninum Ahmed Merabet sem var myrtur við að verja Charlie Hebdo.

Efnisorð: , ,