Fjölbreytileiki íslam
Nicholas Kristof, margverðlaunaður blaðamaður og rithöfundur (hann skrifar öll sín meiriháttar verk í félagi við eiginkonu sína Sheryl WuDunn) skrifaði fyrir nokkru grein (sjálfur) í New York Times eftir að hafa tekið þátt í sjónvarpsumræðum í þætti hjá Bill Maher á HBO. Nicholas Kristof segir þetta um þáttinn.
Eftir að þættinum lauk héldu þátttakendurnir áfram að hnakkrífast um þetta málefni í klukkutíma eftir slökkt hafði verið á upptökuvélum. Nicholas Kristof vildi þó koma ákveðnu sjónarmiði á framfæri við almenning og í greininni setur hann fram þrjú atriði sem skýra það nánar.
„Fyrir nokkrum dögum síðan var ég í umræðuþætti hjá Bill Maher á HBO sem snerist upp í trúarbragðastríð.
Hvort sem íslam sem trú er uppspretta átaka eða ekki þá snúast umræður um íslam gjarnan upp í átök. Samtal okkar leystist nánast upp í öskurkeppni og breiddist eins og eldur í sinu um netið. Maher og Sam Harris, sem var gestur hans, héldu því fram að íslam sé hættulegt en fái heilbrigðisvottorð frá frjálslyndu og pólitískt rétthugsandi fólki en Ben Affleck leikari fordæmdi þessar athugasemdir og sagði þær ruddalegar og rasískar. Ég var á sama máli og Affleck.“
Eftir að þættinum lauk héldu þátttakendurnir áfram að hnakkrífast um þetta málefni í klukkutíma eftir slökkt hafði verið á upptökuvélum. Nicholas Kristof vildi þó koma ákveðnu sjónarmiði á framfæri við almenning og í greininni setur hann fram þrjú atriði sem skýra það nánar.
„Í fyrsta lagi skorti upprunalega ekki umburðarlyndi í íslam og það gerði konum einnig hátt undir höfði. Sé litið á mannkynssöguna, hvað þá sögu 20. aldarinnar, myndi enginn benda á íslam sem blóðþyrstustu trúarbrögðin; það voru kristna/nasista/kommúníska Evrópa og búddista/taóista/hindúa/trúlausa Asía sem slógu fjöldamet í slátrun.(Þýtt án þess að biðja leyfis)
Eins er það satt að í Kóraninum megi finna hyllingu á ofbeldi, en það sama má segja um Biblíuna, þar sem segir að Guð hafi fyrirskipað þjóðarmorð, eins og til dæmis gegn amalekítum.
Í öðru lagi þá er hluti íslamska heimsins sannarlega uppfullur af kúgun og skorti á umburðarlyndi. Villimenn Íslamska ríkisins vísa í trú sína sem ástæðu viðbjóðslegrar hegðunar sinnar — nú síðast afhöfðuðu þeir breskan hjálparstarfsmann sem hafði helgað sig því að bjarga lífi múslima — og koma óorði á íslamstrú í heild. Ennfremur eru níu af tíu löndum sem eru í neðstu sætum skýrslu World Economic Forum um stöðu kvenna byggð múslimum að meirihluta,
Í Afganistan, Jórdaníu og Egyptalandi, eru þrír af hverjum fjórum múslimum hlynntir dauðarefsingu yfir þeim múslimum sem ganga af trúnni, samkvæmt könnun Pew.
Ofsóknir á hendur kristnum mönnum, ahmadíum, yazidíum, bahá'íum — og sjítum — eru allt of algengar í íslamska heiminum. Við eigum að láta í okkur heyra varðandi þessar ofsóknir.
Í þriðja lagi, íslamski heimurinn inniheldur aragrúa fólks: hann er víðfeðmur og margvíslegur. Jú, næstum fjórir af hverjum fimm Afgönum eru hlynntir því að þeir sem ganga af trúnni séu dæmdir til dauða, en flestir múslimar segja að það sé klikkun. Í Indónesíu, fjölmennasta múslimaríki heims, eru aðeins 16% hlynnt slíkri refsingu. Í Albaníu, Azerbadjan og Kazakstan, eru aðeins 2% eða færri hlynnt henni, samkvæmt Pew könnuninni.
Vörumst alhæfingar um trúarbrögð, hver sem þau kunna að vera, því þær jafnast stundum á við það að flokka fólk eftir kynþætti. Hindúismi inniheldur bæði Gandhi og ofsatrúarmanninn sem myrti hann. Sá Dalai Lama sem við þekkjum í dag er mikill mannvinur, en sá Dalai Lama sem var númer fimm í röðinni fyrirskipaði árið 1660 fjöldamorð á börnum „eins og eggjum væri slegið við stein“.
Kristni inniheldur séra Martin Luther King jr. og líka 13. aldar sendimann páfa í Frakklandi sem fyrirskipaði fjöldamorð á 20.000 cathar-körlum, konum og börnum fyrir trúvillu. Að því er hermt er sagði hann: Drepið þau öll; Guð þekkir sína.
Eitt af mínum skelfilegustu augnablikum var þegar ég rakst á æstan múg múslima á Jövu sem hálshjuggu fólk sem þeir ásökuðu um galdra, og báru spjót með höfðum þeirra. En álíka ógeðfellt var þegar stríðsherra í Kongó, sem titlaði sig hvítasunnuprest en átti yfir höfði sér ákæru fyrir stríðsglæpi, bauð mér til málsverðar og bað afar guðrækilega borðbæn.
Skrípamyndin af íslam sem ofbeldissinnaða og óumburðarlynda trú er hryllilega ófullkomin. Munum það að flestir þeirra sem standa uppi í hárinu á ofstækisfullum múslimum eru múslimar sjálfir. Í Pakistan nauðgaði hópur múslima ungri múslima konu sem heitir Mukhtar Mai til að refsa henni fyrir mál sem tengdist bróður hennar. Eftir að hafa vitnað gegn árásarmönnunum og unnið málið fyrir dómstólum, notaði hún bæturnar sem hún fékk frá ríkinu til að koma á fót skóla fyrir stúlkurnar í þorpinu þar sem hún býr. Talibanarnir, sem skutu Malölu Yousafzai fyrir að hvetja til menntunar stúlkna, voru múslimar; Malala er einnig múslimi.
Íran hefur ofsótt kristna og bahá'ía, en lögfræðingurinn og músliminn Mohammad Ali Dadkhah, sýndi gríðarlegt hugrekki þegar hann skoraði kúgarann á hólm og náði að fá prest leystan úr haldi. Dadkhah fékk níu ára fangelsisdóm og situr nú inni.
Rashid Rehman lögfræðingur og vinur minn í Pakistan, barðist mjög fyrir mannréttindum og umburðarlyndi í trúmálum — og á þessu ári var hann myrtur af bókstafstrúarmönnum sem réðust inn á skrifstofu hans.
Auðvitað eigum við að fordæma ódæðisverkin, kynjamisréttið og skortinn á umburðarlyndi sem knýja Íslamska ríkið áfram og mynda veigamikinn hluta íslam. En ekki rugla því við allt íslam: Hetjur eins og Mukhtar, Malala, Dadkhah og Rehman standa einnig fyrir mikilvægan hluta.
Bætum ekki á fordóma gagnvart íslam með því að leggja bara áherslu á hryllinginn en vanrækja fjölbreytni trúarbragða með 1,6 milljarð fylgismanna — þar á meðal marga sem hvetja til umburðarlyndis, nútímahugsunarháttar og mannréttinda. Munurinn mikli er ekki milli trúarbragða — heldur er hann milli óbilgjarnra ofstækismanna allra trúarbragða og svo hins mikla fjölda sem er friðsamt og gott trúfólk sem einnig er að finna innan allra trúarbragða.
Kannski er það of flókið til að komast til skila í rifrildi í sjónvarpsútsendingu. En það er raunveruleikinn.“
Efnisorð: alþjóðamál, Fjölmiðlar, trú
<< Home