fimmtudagur, desember 04, 2014

Áróður í miðri kjaradeilu

Nýlega bentu tveir fyrrverandi ráðherrar Sjálfstæðisflokksins og miklir heiðursmenn á tvö aðskilin mál þar sem þeim þykir augljóst að RÚV misbeiti valdi sínu og taki afstöðu í málum sem koma ríkisstjórninni illa.

Ekki skal mig undra gagnrýni þeirra eftir þá svívirðilegu uppákomu sem Ríkissjónvarpið bauð uppá í kvöld. Kastljósið var undirlagt af áróðri í hag öðrum samningsaðilanum í deilu lækna um laun. Trommað var upp með einhvern Tómas Guðbjartsson sem auk þess að fremja töfrabrögð í anda Baldurs Brjánssonar (sem líka óð með fingur inní fólk og ólmaðist í innyflum þess) hefur oft komið fram í Ríkissjónvarpinu og skrifað í blöð um óbilgjarnar kröfur sínar.

Tómas þessi virðist eiga ótrúlega greiðan aðgang að RÚV og sérstaklega Kastljósinu sem oft hefur tekið viðtal við hann. Alltaf er hann er gera eitthvað „ótrúlegt“ einsog að vera með í að græða nýjan barka í mann eða bjarga mönnum eftir hnífaárásir sem þeir hefðu ekki átt að lifa af. Það er mesta furða hvað hann hefur tíma til að kvarta — hann er bara alltaf að bjarga mannslífum!

Það er sannarlega tilefni til að endurskoða val á viðmælendum hjá Ríkissjónvarpinu. Það gengur ekki að tekin sé afstaða gegn ríkisvaldinu og með óbilgjörnum kröfum ríkisstarfsmanna sem augljóslega eru ekki verðir launa sinna.

Efnisorð: , , , ,