miðvikudagur, nóvember 26, 2014

Villandi fyrirsögn

Grein sem Þorbjörn Þórðarsson lögfræðingur og blaðamaður skrifaði á Vísi og birti undir fyrirsögninni „Að kalla saklausan mann nauðgara og komast upp með það“ vekur furðu mína. Mér er eiginlega alveg óskiljanlegt að Þorbjörn vilji sjálfviljugur stilla sér upp við hlið Egils Gillzeneggers Einarssonar og honum til varnar. Tilefnið er að meiðyrðamál, eitt af fjölmörgum sem Egill Gillz fór í við fólk sem vogaði sér að taka afstöðu gegn honum á einn eða annan hátt, endaði með því að Hæstaréttur sýknaði þann sem Egill Gillz kærði það skiptið. Þorbjörn vill meina að niðurstaða Hæstaréttar sé röng og ræðir það í löngu máli.

Nú þykist ég ekkert vita um meiðyrðalöggjöf eða hvernig munurinn á gildisdómum og staðhæfingum um staðreyndir er túlkaður af dómurum ýmissa dómsstiga eða í útlöndum, en ljóst er að Þorbjörn Þórðarsson er ósammála þeim.* Hann segir t.a.m. að „Mannréttindadómstóll Evrópu hefur í sumum tilvikum gengið býsna langt í að flokka ummæli sem gildisdóma jafnvel þótt staðreyndabragur sé á þeim.“

Þorbjörn hefur auðvitað betur vit á því en dómarar við Mannréttindadómstól Evrópu.

Burtséð frá því þá vakti fyrirsögn greinarinnar mér ekki minni furðu en hvað hvatti Þorbjörn til að skrifa hana (varla hefur það átt að vera innlegg í 16 daga átak gegn kynferðisofbeldi). Mér þykir nokkuð langt seilst að skrifa grein þar sem Egill Gilzenegger Einarsson er í fyrirsögn kallaður saklaus maður. Enda þótt hann hafi „aldrei hlotið dóm fyrir nauðgun“ er hann ekki endilega saklaus.

Rifjum aðeins upp.

Ríkissaksóknari ákvað í júní 2012 að sækja ekki Egil Gillzenegger Einarsson til saka fyrir nauðgun þá sem hann var kærður fyrir í desember 2011.

Egill Gilz kærði svo konurnar, sem sökuðu hann um nauðgun, fyrir rangar sakargiftir. Í júlí 2013 felldi ríkissaksóknari málið formlega niður.

Það var semsagt ekki sannað fyrir dómi að Egill Gillz Einarsson væri nauðgari, en það var heldur ekki sannað fyrir dómi að logið hefði verið uppá hann.

Fyrirsögnin hefði heldur átt að vera: Er í lagi að kalla mann nauðgara sem ekki hefur verið dæmdur sekur?

Svarið er að ég hef sjaldan verið jafn ánægð með Hæstarétt.

__
* Sama sinnis er Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi hæstaréttardómari sem sagði í útvarpsviðtali að sá sem Egill Gillz kærði fyrir meiðyrði væri tengdur inní lögmannastéttina, og það gæti hafa haft áhrif á dómarana, og átti greinilega við að þeir hefðu þá dæmt honum í hag því þeir þekktu pabba hans.
Tveir þeirra sem skrifuðu athugasemd við þetta vörpuðu afturámóti kastljósinu aftur á Jón Steinar sjálfan:
„Miðað við ráðningar í dómarasæti á þessu landi myndi ég steinþegja um hvaða áhrif tengslamyndun viðkomandi hefur á niðurstöður úr dómskerfinu. Sérstaklega ef ég væri partur af þeim pakka.. hmm.“
og
„Jón Steinar er greinilega gjörkunnugur því hvernig vinatengsl geta haft áhrif á niðurstöður Hæstaréttar.“

Efnisorð: ,