Fylgjum peningunum
Nú þegar við erum öll orðin svona forrík, þökk sé Framsóknarflokknum sem uppfyllti allar okkar villtustu væntingar, þá er auðvitað næst á dagskrá að fjalla um ríkt fólk. Líkur sækir líkan heim, og allt það.
Rockefeller fjölskyldan er ein ríkasta fjölskylda í heimi og hefur verið það um langa hríð. Ég nenni ekki að telja upp öll þau viðskipti sem hún tengist heldur aðeins að fjalla lítillega um það sem gerði hana ríka í upphafi: olíu.
Bræðurnir John D. Rockefeller og William Rockefeller stofnuðu Standard Oil árið 1870 og lögðu grunninn að ættarauðnum. Afkomendur þeirra hafa haldið vel á spöðunum en jafnframt því að græða linnulaust hefur fjölskyldan ausið út fé á báðar hendur gegnum allskyns góðgerðarstarfsemi og styrktarsjóði. Samt er enn nóg til af peningum. Nú í september tilkynnti svo Sjóður Rockefeller bræðranna (e. Rockefeller Brothers Fund) að hann ætli að „draga allt sitt fé úr fjárfestingum sem tengjast jarðefnaeldsneyti og fjárfesta í þess stað í umhverfisvænni orku“. Um er að ræða umtalsvert fé, eins og við er að búast, því sjóðurinn „hefur að geyma fjárfestingar upp á 860 milljónir bandaríkjadollara, sem nemur rúmlega 100 milljörðum íslenskra króna“.
Þessi yfirlýsing vakti að vonum mikla athygli enda þótt ég sjái ekki að íslenskir fjölmiðlar hafi gert mikið úr henni. Ég heyrði fyrst af þessari breyttu fjárfestingastefnu Rockefellerfjölskyldunnar þegar Stefán Gíslason ræddi hana í Samfélaginu, fyrst 6. október og svo aftur 30. sama mánaðar.
Það er auðvitað stórmerkilegt að Rockefellerarnir ætli alveg að hætta að tengjast jarðefnaeldsneyti bara útfrá hvernig fjölskylduauðurinn varð til. En hitt skiptir meira máli í samtímanum hvað það segir um framtíðarsýn þessara glúrnu fjárfesta. Hún er greinilega sú að umhverfisvænir orkugjafar komi til með að leysa jarðefnaeldsneyti af, og að það beri að veðja á framtíðina. Í ljósi tilhneigingar fjölskyldunnar til að láta gott af sér leiða (kannski af samviskubiti*) þá er auðvitað augljóst að umverfisstefna á uppá pallborðið hjá núlifandi kynslóðum hennar. Þessi ákvörðun var tilkynnt daginn áður en loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna hófst, og var augljóslega ætlað að hafa áhrif á ráðstefnuna. Stefán Gíslason velti einmitt upp þeirri spurningu í seinni útvarpsþættinum hvort stefnubreyting í loftslagsmálum verði þegar til kemur drifin áfram af fjárfestum en ekki ríkisstjórnum.
En það væri auðvitað hægt bæði að sleppa og halda (einsog hefur líklega verið gert hingað til) og það er kannski ekki bara af góðsemi sem þessi ákvörðun er tekin. Rockefeller sjóðurinn ætlar að losa sig mjög hratt við hlutabréf í olíuiðnaðinum og það bendir sterklega til hann telji að olía sé ekki vænlegur fjárfestingakostur. Hver ætti þá að vera svo vitlaus að veðja á olíu ef sjálfir olíubarónarnir vilja veðja á allt annað en hana? Enda fylgja fjölmargir aðrir fjárfestar í kjölfarið, nú vilja allir selja hlutabréfin sín.
Hvað segir það okkur um bandarískra repúblikana sem leggja áherslu á kol og olíu? Og hversu gæfuleg eru þá áform um að fjárfesta í borunum eftir olíu á Drekasvæðinu? Það er hætt við að það endi með því að einhver sitji uppi með Svarta Pétur, í fleiri en einum skilningi.
___
* Eitt sinn var spurt í spurningaþættinum QI hver hefði valdið mestum skaða á umhverfinu. Í ljós kom að það var Thomas Midgley því hann fann uppá því að setja blý í bensín. En ekki nóg með það heldur fylltist hann samviskubiti yfir menguninni sem hann hafði valdið, og fann því upp freón sem síðan var lengi notað í ísskápa. Vonandi verður hin nýja fjárfestingastefna Rockefellerfjölskyldunnar ekki svo mislukkuð, hvort sem hún stýrist af samviskubiti eða ekki.
Rockefeller fjölskyldan er ein ríkasta fjölskylda í heimi og hefur verið það um langa hríð. Ég nenni ekki að telja upp öll þau viðskipti sem hún tengist heldur aðeins að fjalla lítillega um það sem gerði hana ríka í upphafi: olíu.
Bræðurnir John D. Rockefeller og William Rockefeller stofnuðu Standard Oil árið 1870 og lögðu grunninn að ættarauðnum. Afkomendur þeirra hafa haldið vel á spöðunum en jafnframt því að græða linnulaust hefur fjölskyldan ausið út fé á báðar hendur gegnum allskyns góðgerðarstarfsemi og styrktarsjóði. Samt er enn nóg til af peningum. Nú í september tilkynnti svo Sjóður Rockefeller bræðranna (e. Rockefeller Brothers Fund) að hann ætli að „draga allt sitt fé úr fjárfestingum sem tengjast jarðefnaeldsneyti og fjárfesta í þess stað í umhverfisvænni orku“. Um er að ræða umtalsvert fé, eins og við er að búast, því sjóðurinn „hefur að geyma fjárfestingar upp á 860 milljónir bandaríkjadollara, sem nemur rúmlega 100 milljörðum íslenskra króna“.
Þessi yfirlýsing vakti að vonum mikla athygli enda þótt ég sjái ekki að íslenskir fjölmiðlar hafi gert mikið úr henni. Ég heyrði fyrst af þessari breyttu fjárfestingastefnu Rockefellerfjölskyldunnar þegar Stefán Gíslason ræddi hana í Samfélaginu, fyrst 6. október og svo aftur 30. sama mánaðar.
Það er auðvitað stórmerkilegt að Rockefellerarnir ætli alveg að hætta að tengjast jarðefnaeldsneyti bara útfrá hvernig fjölskylduauðurinn varð til. En hitt skiptir meira máli í samtímanum hvað það segir um framtíðarsýn þessara glúrnu fjárfesta. Hún er greinilega sú að umhverfisvænir orkugjafar komi til með að leysa jarðefnaeldsneyti af, og að það beri að veðja á framtíðina. Í ljósi tilhneigingar fjölskyldunnar til að láta gott af sér leiða (kannski af samviskubiti*) þá er auðvitað augljóst að umverfisstefna á uppá pallborðið hjá núlifandi kynslóðum hennar. Þessi ákvörðun var tilkynnt daginn áður en loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna hófst, og var augljóslega ætlað að hafa áhrif á ráðstefnuna. Stefán Gíslason velti einmitt upp þeirri spurningu í seinni útvarpsþættinum hvort stefnubreyting í loftslagsmálum verði þegar til kemur drifin áfram af fjárfestum en ekki ríkisstjórnum.
En það væri auðvitað hægt bæði að sleppa og halda (einsog hefur líklega verið gert hingað til) og það er kannski ekki bara af góðsemi sem þessi ákvörðun er tekin. Rockefeller sjóðurinn ætlar að losa sig mjög hratt við hlutabréf í olíuiðnaðinum og það bendir sterklega til hann telji að olía sé ekki vænlegur fjárfestingakostur. Hver ætti þá að vera svo vitlaus að veðja á olíu ef sjálfir olíubarónarnir vilja veðja á allt annað en hana? Enda fylgja fjölmargir aðrir fjárfestar í kjölfarið, nú vilja allir selja hlutabréfin sín.
Hvað segir það okkur um bandarískra repúblikana sem leggja áherslu á kol og olíu? Og hversu gæfuleg eru þá áform um að fjárfesta í borunum eftir olíu á Drekasvæðinu? Það er hætt við að það endi með því að einhver sitji uppi með Svarta Pétur, í fleiri en einum skilningi.
___
* Eitt sinn var spurt í spurningaþættinum QI hver hefði valdið mestum skaða á umhverfinu. Í ljós kom að það var Thomas Midgley því hann fann uppá því að setja blý í bensín. En ekki nóg með það heldur fylltist hann samviskubiti yfir menguninni sem hann hafði valdið, og fann því upp freón sem síðan var lengi notað í ísskápa. Vonandi verður hin nýja fjárfestingastefna Rockefellerfjölskyldunnar ekki svo mislukkuð, hvort sem hún stýrist af samviskubiti eða ekki.
Efnisorð: pólitík, umhverfismál
<< Home