þriðjudagur, nóvember 04, 2014

Barátta bandarískra kvenna fyrir jafnrétti á ýmsum sviðum

Undanfarna þrjá mánudaga hefur Ríkissjónvarpið sýnt prýðilegan heimildaþátt í þremur hlutum um „þá breytingu sem orðið hefur á stöðu bandarískra kvenna á síðustu áratugum og baráttu þeirra fyrir jafnrétti á ýmsum sviðum“ (á ensku heitir þáttaröðin „Makers: The Women Who Make America“). Meryl Streep er rödd þáttarins og rætt er við fjölda kvenna (engin þeirra mærði Valerie Solanas). Mér fannst þátturinn í miðið fróðlegastur því hann sagði frá uppgangi andfeminískrar bylgju sem reis gegn kvenréttindahreyfingunni og stöðvaði að miklu leyti framgang hennar í Bandaríkjunum.

Með hæstaréttardómi árið 1973 höfðu konur öðlast rétt til fóstureyðinga. Í kjölfarið héldu feministar að réttindi kvenna yrðu aukin með lagabreytingum og fyrir dómstólum. Fjölmörg lög voru í gildi sem leyfðu ýmiskonar mismunun og feministar vissu að það tæki óratíma að breyta þeim öllum eða fella úr gildi. Þær reyndu því að koma í gegn stjórnarskrárbreytingu sem bannaði mismunun svokallaða jafnréttisbreytingu (e. Equal Rights Amendment). Þetta hafði svosem verið reynt áður því allt frá árinu 1923 hafði málið verið lagt fyrir þingið en málið sjaldnast verið tekið til atkvæðagreiðslu. Jafnréttisviðaukinn við stjórnarskrána komst gegnum þingið 1972 en þá átti hvert ríki fyrir sig eftir að samþykkja hann (og urðu að hafa gert það fyrir 22. mars 1979). Á einu ári samþykktu 30 ríki breytinguna og sigur var í sjónmáli.

En þá sté fram á sviðið öflugur andstæðingur, heimavinnandi húsmóðirin Phyllis Schlafly (sem í þættinum er hrósað fyrir gáfur og klókindi). Hún hafði boðið sig fram til þings fyrir repúblikana árangurslaust tvisvar sinnum, en hélt þó ótrauð áfram að berjast fyrir íhaldssömum gildum innan flokksins. Þegar kvenréttindabaráttunni óx fiskur um hrygg fann Phyllis Schlafly verðugan andstæðing. Hún er titluð sem íhaldssamur aðgerðarsinni (e. conservative activist) og talar enn gegn hugmyndinni um feðraveldið og segir feminista hafa kennt konum að vera fórnarlömb. Að hennar mati eru bandarískar konur lánsamasti þjóðfélagshópur sem uppi hefur verið í mannkynssögunni. Og á áttunda áratugnum sá hún ekkert vit í kvenréttindabaráttunni og sagði að „jafnréttisákvæðið á ekki eftir að gera neitt fyrir konur“.

Þegar stefndi í stjórnarskrárbreytingu í þágu jafnréttis sáu Phyllis Schlafly og aðrar konur innan repúblikanaflokksins að baráttuna gegn því yrðu konur að leiða. Til varð hreyfing undir forystu Phyllis Schlafly sem kallaðist STOP ERA (Wikipedia segir að STOP hafi staðið fyrir Hættið að taka af okkur forréttindin, e. Stop Taking Our Privileges). Af viðtölum í þættinum að dæma var eitt meginmarkmið hreyfingarinnar að tryggja að húsmæðrahlutverkið væri öllu æðra. Hlutverk karla væri að annast konur og vernda. (Wikipedia segir Phyllis Schlafly einnig hafa varað við því að konur gætu misst réttinn til framfærslu eftir skilnað og forræði yfir börnunum ef jafnrétti kæmist á.) En ein kvenréttindakvennanna sagði að STOP hreyfingin hefði höfðað til margra kvenna sem fannst þjóðfélagsbreytingarnar gerast of hratt.

Þegar Phyllis Schlafly fór að hamra á því að yrði jafnréttisákvæðið samþykkt yrðu konur látnar gegna herskyldu, og að feministar ætluðust beinlínis til þess að konur yrðu herskyldar, fór að draga úr fylgi við jafnréttisákvæðið. Feministar héldu stærðar ráðstefnu í Texas þar sem þrjár fyrrverandi forsetafrúr stigu á svið (Lady Bird Johnson, Betty Ford, Rosalynn Carter). Þar var fyrir réttindum samkynhneigðra og lesbíur sem lengi höfðu setið hjá í umræðunni glöddust mjög.

En STOP ERA með Phyllis Schlafly í broddi fylkingar hélt líka ráðstefnu í sömu borg. Þar var fjölmenni og mikill fögnuður. Þar var talað gegn réttindum samkynhneigðra og gegn fóstureyðingum. Það að forsetafrúrnar hefðu komið fram á ráðstefnu kvenréttindakvennanna var kallað hneisa.

Og þetta var vendipunkturinn, segir í þættinum.

Það fór svo að ekki samþykktu nægilega mörg ríki jafnréttisbreytinguna á stjórnarskránni.* Pendúll almenningsálitsins hefði sveiflast aftur á móti kvennahreyfingunni. Nú voru það íhaldssömu öflin sem fengu meira vægi. Phyllis Schlafly segir að þessi sigur hafi kennt íhaldsöflum að það var hægt að sigra. Næsta ár var Ronald Reagan kosinn forseti og kjör hans markaði þáttaskil fyrir kvennahreyfinguna sem mátti þola 25 ára niðursveiflu í kjölfarið. Íhaldsöflin gengu hart fram gegn fóstureyðingum og um þær hefur barátta verið háð æ síðan.

Ég þekkti ekki þessa sögu þó ég kannaðist við nafn Phyllis Schlafly. En það sem mér fannst áhugavert var að hún minnti mig á helsta boðbera andfeminisma á Íslandi, sem er einnig kona sem talar um „fórnarlambsvæðingu“ og segir að feðraveldið sé ekki til. Og sú kona — og stuðningsmönnum hennar þykir einmitt mjög merkilegt og mikilvægt að það sé kona sem talar svona eindregið gegn feminisma — hefur einnig talað gegn fóstureyðingum. Hún kallar sig líka aðgerðarsinna, mér finnst vel við hæfi að nota sama titil og var notaður fyrir Phyllis Schlafly í þættinum: íhaldssamur aðgerðarsinni.

Þar með lýkur samanburði þessara tveggja andfeminista. Íslensk jafnréttislög verða ekki afturkölluð, ekki einu sinni af hægri stjórninni, fóstureyðingar verða varla bannaðar heldur. Og þó það yrði reynt þá eru feministar óhræddir að takast á við íhaldsöflin hvar í landi sem þau finnast.

___

* Enn hefur jafnréttisbreytingin ekki verið gerð á bandarísku stjórnarskránni, þrátt fyrir að málið hafi ítrekað verið tekið upp á þinginu en
nokkur ríki
hafa jafnréttisákvæði í eigin stjórnarskrám.


Efnisorð: , , , ,