laugardagur, nóvember 08, 2014

Fyrsta vika nóvember

Fréttir vikunnar
Læknar fóru í verkfall sem hafði vond áhrif á sjúklinga og aðstandendur þeirra, tónlistarkennarar eru ennþá í verkfalli. Þúsundir manna komu saman á Austurvelli en voru ekki með nógu markviss skilaboð til ríkisstjórnarinnar sem ekki skildi neitt í neinu.

Skilningslausa ríkisstjórnin og ríkislögreglustjóri eru enn ekki búin að samræma sögur sínar við frásögn Norðmanna um vélbyssuvæðingu lögreglu og landhelgisgæslu. Flækjustigið jókst enn þegar tollayfirvöld sögðu vopnin ekki flutt inn með lögformlegum leiðum og neita að þau verði notuð nema borgaður verði af þeim tollur. Það er líklega einsgott að löggan fái ekki vélbyssur í hendurnar, því í ljós hefur komið að hún ræður ekki við að lesa af mengunarmælum, og þurftu Húsvíkingar að húka innandyra þar til einhver tók sig til og útskýrði fyrir löggunni að 3,0 er ekki sama og 0,3 (ætli hún hún hafi snúið mælinum á hvolf?).

Sigmundur Davíð fullyrti um skuldaniðurfellinguna eina ferðina enn í viðtali: „Við erum að fara inn í það skeið að efna að öllu leyti kosningaloforð okkar hvað þetta varðar.“ Og svo bætti hann í: „Allar væntingar sem byggja á því sem var raunverulega sagt um fyrirheitin sem voru gefin þær munu standast fullkomlega.“ Kosningaloforðið hljómaði reyndar þannig að fólk fengi endurgreitt strax eftir kosningar í fyrra og að það væru hrægammasjóðir sem borguðu en ekki ríkið. (Eins og sjá má í sjónvarpsviðtali við hann sem Illugi Jökulsson birti og skrifaði upp á síðu sinni. Ennfremur hér í samantekt Láru Hönnu um að kostnaðurinn falli ekki á ríkið.)

Skúringakonum sem þrifu ráðuneyti var sagt upp og starf þeirra einkavætt. Auðvitað mun betra að fá fyrirtæki sem borgar ræstingafólki lág laun til að bjóða í ræstingar ráðuneytanna í stað þess að vera með einhverjar kéllingar á ríkistaxta með starfsaldurshækkanir (áhugaverðir útreikningar um kostnaðinn við skúringakonurnar) og þurfa sífellt að vesenast með að finna fyrir þær afleysingar þegar þær fara í frí eða veikjast. Það er líka svo gott að minnka ríkisreksturinn en eins og allir vita þá er það versta við ríkisbáknið hvað það hefur margar konur í vinnu.

Þessvegna þarf líka að fækka konum í kennslustörfum og svo hamingjusamlega vill til að stytting náms í framhaldsskólum niður í þrjú ár verður til þess að færri kennara þarf í skólana. Þá verður niðurskurðurinn til framhaldskólanna sem boðaður er í fjárlagafrumvarpinu til þess að færri nemendur komast í skólana (sbr. 25 ára reglan) þannig að 100 stöðugildi kennara í framhaldsskólum verða felld niður. Þetta er því tóm hamingja fyrir ríkiskassann. Nú, ef ekki, þá hlýtur að mega reka fleiri kéllingar.

Það komst líka í fréttir að þrjúhundruð kindur voru drepnar því líklegt þótti að þær ættu ekki góða vetrarvist í vændum. Bóndinn slapp lifandi þó það hafi verið hann en ekki kindurnar sem braut lög. Ef það er einhver sauðfjárveikivarnaástæða fyrir því að féð var ekki flutt, gefið eða selt á aðra bæi kom það ekki fram í fréttum. Gott er þó að vita að bóndaófétið sem „vegna ítrekaðra brota á reglum um aðbúnað búfjár, síðasta vetur og fyrr“ fær ekki að halda fé í vetur — og vonandi aldrei framar.


Góðir pistlar vikunnar
María Helga Guðmundsdsóttir skrifaði andsvar við fíflalegri grein Guðmundar Edgarssonar sem hafði verið að mæla með vínsölu í matvörubúðum. Hún rekur ofan í hann þvæluna og segir meðal annars:
„Hvert mannsbarn, sem þekkir til þess mikla böls sem áfengissýki er, sér að röksemdafærsla sem þessi nær ekki bara engri átt, heldur er helber móðgun við þær miklu þjáningar sem margir hafa liðið vegna þessa sjúkdóms. Ég vona að þeir sem eru fylgjandi sölu víns í matvöruverslunum sjái sóma sinn í því, héðan í frá, að beita ekki rökum sem gera lítið úr þjáningum áfengissjúklinga og annarra sem eiga um sárt að binda.“
Það var svo eftir öðru að Arnar Sigurðsson svaraði Maríu Helgu á bloggsíðu sinni, en hans röksemdir verða ekki ræddar hér því þær eiga illa heima undir yfirskriftinni 'góðir pistlar'.

Ólafur Jóhann Ólafsson segir í pistli um hækkun virðisaukaskatts á bækur að hún sé misráðin og nær væri að lækka enn álögur á bækur og þar með bókaverð. Hann segir að framlög hins opinbera til bókaútgáfu séu til skammar. Sjónarmið Ólafs Jóhanns er mikilvægt því hann er einn þeirra rithöfunda sem ekki þurfa á starfslaunum að halda og því er ekki hægt að væna hann um að vera eingöngu að hugsa um eigin hag, heldur ber hann hag bókarinnar fyrst og fremst fyrir brjósti, eins og aðrir rithöfundar.

Finnbogi Hermannsson skrifaði um skýrslu lögreglunnar um búsáhaldabyltinguna eða öllu heldur skýrslu Geirs Jóns sem hann segir að sé ekki lengur „bara góðgjarn lögregluþjónn og mannasættir“, sem varð reyndar flestum ljóst þegar Geir Jón notaði skýrsluna „sem kennslugagn í svokölluðum Stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins“. (Ég er nokkuð viss um að það er ekki af tilviljun sem höfundur notar hástafi í síðustu orðunum.)

Gunnar Hrafn Jónasson var með áhugaverðan pistil á vef Ríkisútvarpsins. Hann fjallar þar um „hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki“ (sem ég mun héreftir kalla ISIS) og segir frá vafasamri guðfræði þeirra sem „enginn viðurkenndur klerkur tekur undir; þvert á móti hafa margir helstu lögspekingar Íslam hakkað túlkanir þeirra í sig“.

„T.d. er á einum stað í fornum texta minnst á að þrælastúlka muni fæða meistara sinn áður en heimurinn líði undir lok. Það [er túlkað þannig að það réttlæti] óhugnanlega þrælamarkaði þar sem konur og stúlkur ganga kaupum og sölum.“
Liðsmenn ISIS aðhyllast semagt heimsendahyggju og eiga það sameiginlegt með milljónum Bandaríkjamanna sem bíða „óþreyjufullir eftir lokauppgjörinu sem lýst er í Opinberunarbók Jóhannesarguðspjallsins“, eins og Gunnar Hrafn bendir á. Vottar Jehóva eru meðal þeira sem eru spenntir fyrir heimsendi og játa fúslega að
„Vottar Jehóva hafa gert sér falskar vonir um komu endalokanna. Við höfum stundum hlakkað svo mikið til að sjá spádómana uppfyllast að við höfum gert okkur væntingar sem samræmdust ekki tímaáætlun Guðs“.
Rétt eins og ISIS vill flýta fyrir heimendi með framferði sínu vilja aðrir heimsendahyggjumenn (þó ekki Vottar Jehóva það best ég veit) upplifa hina hinstu daga. Og eins og Gunnar Hrafn segir þá hefur heimsendatrúin haft veruleg áhrif á utanríkisstefnu Bandaríkjanna gagnvart Ísrael og málefnum miðausturlanda almennt.


Nöturlegi pistillinn
Af mörgum slæmum pistlum sem ég hef lesið undanfarið stendur þessi uppúr (hann var reyndar skrifaður fyrir rúmri viku). Pistilinn skrifar Guðjón Sigurbjartsson sem tekur fram að hann er bóndasonur auk þess að vera viðskiptafræðingur. Umfjöllunarefni hans er styrkjarkerfi landbúnaðarins. Hann vill lækka styrki og auka hagræðingu. Og hvernig finnst honum hagræðingin eigi að vera? Svarið er að finna í því sem honum þykir greinilega fyrirmyndarbúskapur:
„Í Sádi-Arabíu er stórbúið Almarai. Lárus Ásgeirsson, áður hjá Marel og víðar, rekur kjúklingadeild fyrirtækisins sem framleiðir 550.000 kjúklinga á dag. Það tæki kjúklingabúið aðeins um 2 vikur að anna ársneyslunni á Íslandi. Fyrirtækið rekur líka 15 stórfjós með 7.500 kýr hvert.“
Guðjón minnist ekkert á hvort Lárus þessi þekki hverja kú með nafni eða hvort það er Huppa eða Ljómalind sem hann klórar helst og gaukar að auka tuggu þegar hann bregður sér í fjósið. En svona í alvöru: þessi massaframleiðsla er auðvitað eins andstyggileg og hugsast getur.

Lokaorð Guðjóns eru þessi:
„Breytingarnar munu valda raski en lífsgæði margra munu batna verulega. Kærleikurinn hefur tvær hliðar, eina mjúka og aðra harða. Er til staðar nægur kærleikur til að gera það sem gera þarf til að bæta líf fjölda fólks?“
Guðjóni stendur greinilega slétt á sama um líf kúa og kjúklinga og finnst því betra sem þeim er jaskað út eða drepin í stórum stíl í verksmiðjum þar sem enginn ber velferð þeirra fyrir brjósti. Það er ekki mikill kærleikur í þessu hjá bóndasyninum. En eins og áður hefur komið fram þá eru til bændur sem eru óféti.

Efnisorð: , , , , , , , ,