mánudagur, nóvember 10, 2014

Víkur þá sögunni annað

Í kvöld fara allir Framsóknarmenn sælir að sofa enda stærsta skuldaleiðrétting í heimi loksins í höfn og enginn getur gagnrýnt þá fyrir neitt framar. Á morgun fá svo kjósendur Framsóknarflokksins og aðrir skuldugir fasteignaeigendur (en ekki leigjendur sama hvar í flokki þeir standa) að kíkja í pakkann (öfugt við þá sem vilja fá að kjósa um ESB) og þá kemur í ljós hvort þeir verða eins glaðir. Meðan við bíðum eftir fagnaðarlátunum skulum við skoða mann. Þetta er enginn framsóknarmaður (og þó) því hann komst nýverið í oddastöðu í bandaríska þinginu.

Um daginn þegar ég var að tala um að Obama myndi fáu áorka nú þegar repúblikanar hafa náð þingmeirihluta í bandaríska þinginu, þá minntist ég á Mitchell McConnell þingmann repúblikana sem nú er orðinn nýkjörinn forseti öldungadeildar Bandaríkjaþings. Hann hefur lengi verið þingmaður og meðal annars barist gegn hækkun lágmarkslauna jafnframt því að skæla á leynifundi Koch bræðra yfir vonbrigðum sínum með að fjárframlög til stjórnmálaflokkanna hafi verið takmarkað.

Mitch McConnell er þingmaður fyrir Kentucky en þar er gríðarmikil kolaframleiðsla. Í kosningabaráttunni fyrir þingkosningarnar núna fengu kjósendur límmiða til að prýða bíla sína með helstu áherslumálum McConnells sem niðursoðin voru í þrjú orð: kol, byssur, frelsi.














Þetta með byssurnar og frelsið er samofið hjá honum því hann vill frelsi til byssukaupa og kaus gegn því að kannaður væri bakgrunnur byssukaupenda í auknum mæli.

McConnell er greinilega jafnhrifinn af umhverfisverndarstefnu og minni losun gróðurhúsalofttegunda og flokkssystir hans sem fræg varð um árið fyrir slagorðið: borum borum! (e. drill, baby, drill) og átti þar við að það ætti að bora eftir meiri olíu til að græða meira, skítt með gróðurhúsaáhrifin. McConnell sagði einmitt á leynifundi Koch bræðra að hann ætlaði að ráðast gegn umhverfisstofnun, enda gengur hann erinda kolavinnslunnar ekki umhverfissins.

En Mitch McConnell hefur ekki alltaf verið þessarar skoðunar í umhverfismálum. Þegar hann hóf feril sinn í stjórnmálum var hann umhverfissinnaður miðjumaður sem var hlynntur fóstureyðingum. En með hverju árinu hefur hann samræmt stefnu sína við stefnu repúblikanaflokksins og þannig risið til æðstu metorða. Þegar hann var eitt sinn spurður um hugmyndafræðilega stefnubreytingu sína svaraði hann einfaldlega: „Ég vildi sigra.“

Það er þarna sem framsóknarmennska Mitch McConnells kemur best í ljós. Það eru engar hugsjónir heldur framapotið eitt, það er skipt um skoðun einsog ekkert sé ef það er líklegt til vinsælda. Kosningaloforðin ganga útá að gera hluti sem hafa skaðlegar afleiðingar til langs tíma. En það mættu kjósendur hafa í huga að það eru auðmennirnir sem eiga hug þeirra allan.

Efnisorð: , , , ,