mánudagur, nóvember 17, 2014

Borgum læknum betur og flytjum þá í Fossvoginn

Læknar eru í verkfalli, í dag eru það barnaspítalinn, kvennadeildin og heilsugæslustöðvarnar sem eru í lamasessi. Auk þess heilbrigðisstofnanir Vesturlands, Vestfjarða, Norðurlands, Austurlands, Suðurlands og Suðurnesja. Þetta er tveggja sólarhringa verkfall sem bitnar á miklum fjölda fólks, hjá heilsugæslustöðvunum féllu niður um þúsund tímar í dag. Þetta þýðir auðvitað að fólk sem þarf af einhverjum ástæðum á læknisþjónustu að halda þarf að bíða þar til næst er laus tími. Þá getur fólk ekki fengið lyf endurnýjuð nema um lífsnauðsynleg lyf sé að ræða. Það er ekki erfitt að ímynda sér hvað þetta hefur margvísleg og vond áhrif.

Ég er almennt andsnúin miklum launahækkunum nema til þeirra sem eru lægst launaðir. Á þó erfitt með að lýsa frati á launabaráttu lækna, það er hreinlega of mikið í húfi að hafa þá hér og hafa þá ánægða.* Vonandi verður komið til móts við þá sem fyrst hvort sem þeir fá prósentutöluna sem þeir vilja eða bakka eitthvað með kröfur sínar þegar (og ef) stjórnvöld koma til móts við þá.

Eitt er það sem háir læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki á Landspítalanum er vinnuaðstaðan í gömlum maurétnum mygluðum byggingum. Um daginn var sýnt í sjónvarpinu þegar flytja átti sjúkling milli hæða ásamt hjúkrunarfólki og var alveg ljóst að ekki var pláss fyrir sjúkrarúm, tækjabúnað og fólk í lyftunni, en þó þarf daglega að nota þennan ferðamáta með alvarlega veikt fólk.

Ég er á móti því að byggja nýjan Landspítala á þeim stað sem spítalinn er nú. Allavega það steypuskrímsli** sem teikningar gera ráð fyrir að byggt sé á lóðinni. Burtséð frá hvort flugvöllurinn fer eða ekki þá finnst mér nálægð spítalans við flugbrautina ekki svo mikilvæg og vil mun frekar að hann sé fluttur burt ef ekki er hægt að byggja hæfilega á spítalalóðinni og í þeim byggingastíl sem fyrir er, þ.e. byggingar sem eru fáar hæðir. Gallin við lágar spítalabyggingar er samt augljós: þá fara langir sjúkrahússgangar að skipa veigamikinn þátt í lífi sjúklinga og starfsfólks en háar byggingar nýta lyftur til að flytja fólk á milli staða — og er þá átt við rúmgóðar lyftur sem ekki þarf að stafla í.

Undanfarið hefur Sigurður Oddsson verkfræðingur skrifað greinar um byggingamál spítalans. Hann vill í fyrsta lagi aðskilja háskólasjúkrahúsið frá Landspítalanum og í öðru lagi að Landspítalinn flytjist í Fossvog en háskólasjúkrahúsið, þ.e. læknadeildin, verði eftir á Hringbrautinni og byggingarnar þar verði notaðar fyrir kennslu í læknadeild og öðrum háskólagreinum. Hann sér fyrir sér að húmanísk fög verði kennd á spítalalóðinni en raungreinafög verði áfram kennd vestur á Melum. Ég er ekki alveg viss um þessa skiptingu hjá honum, mér finnst að raungreinafólk (í „alvöru vísindum“) gæti allt verið á einum stað á spítalalóðinni en hugvísindi, félagsvísindi og önnur vísindi hin minni gætu haldið áfram að sveima um háskólalóðina í tilgangsleysi eins og áður. En burtséð frá því þá finnst mér meira til koma hugmyndar hans um að flytja starfsemi Landspítalans í Fossvog, enda er Borgarspítalinn sem þar er mun betur staðsettur gagnvart aðkomu frá öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu — svo ekki sé nú talað um Keflavíkurflugvöll þangað sem innanlandsflugið hlýtur fyrr eða síðar að flytja.

Reyndar hefur mér lengi fundist að frekar hefði átt að flytja alla starfsemi Landspítalans í Fossvoginn og er þeirrar skoðunar að það hafi verið gerð hrikaleg skipulagsmistök þegar ákveðið var að byggja blokkir milli Borgarspítalans og Kringlumýrarbrautar. Þar hefði spítalinn getað breitt úr sér. Kannski má rífa þær, enda þótt mér þyki það óskapleg sóun á peningum að rífa nýlegar byggingar. Sigurður nefnir þessar byggingar ekki og virðist koma fyrir tveimur álmum og turni á milli þeirra á lóð Borgarspítalans (turninn á skv. honum reyndar að vera 20-26 hæða hár, mér finnst það hrikalega hátt og varla bjóðandi fyrir fólk sem býr í Gerðunum að þola skuggavarp af slíku skrímsli, en sannarlega nýtast lyftur, sem okkur Sigurði eru hugleiknar, mjög vel í háum turni). Sigurður segir að það sé auðveldara og ódýrara að byggja í Fossvogi (við Hringbrautina þarf að sprengja og fyrirhugað flatarmál þar er meira). Í seinni greininni sem Sigurður skrifar fer hann nánar út í útfærsluatriðið og þar er hann með einhverjar hugmyndir um að geyma moldina, sem grafin er upp fyrir húsgrunninum, neðst í Fossvoginum. Ég vona að hann ætlist ekki til að skógræktinni verði stútað, hvorki með moldarlager né spítalabyggingum. Þar fyrir utan finnst mér margt gott við hugmyndir Sigurðar*** og ráðlegg fólki að lesa greinarnar hans.

Verði tekið mark á þeim sem vilja flytja alla starfsemi Landspítalans á Fossvoginn er allt eins líklegt að fólk á landsbyggðinni og þingmenn í atkvæðaleit heimti að fá að skipta sér af staðarvalinu því spítalinn muni ekki hafa flugbraut á hlaðinu. Svarið við því er að kalla spítalann Borgarspítala og gefa upp netfang Einars Kárasonar fyrir kvartanir.

___
* Mikill fjöldi lækna er kvenkyns og það er óþolandi að orðið læknir sé karlkyns og að talað sé um 'þá' læknana. Ég biðst forláts á þessu 'þeir' tali.

** Fleiri greinar gegn steypuskrímslinu við Hringbraut.
Vilhjálmur Ari Arason læknir er einnig hlynntur því að öll sjúkrahússtarfsemin verði flutt í Fossvoginn og segir:
„Eitt það vitlausasta í byggingartillögunum sem nú liggja fyrir að mínu mati er samt að þar er gert ráð fyrir þyrlupalli á 3 eða 4 hæð rétt hjá gjörgæslunni og skurðstofunum sem er kjarni svæðisins og viðkvæmastur þannig fyrir stórum skakkaföllum. Það vita allir Reykvíkingar að ímyndin um þyrlupalla á húsþökum í Þingholtunum á ekki við, þar sem allra veðra er von á veturna. Slysahættan er allt of mikil og getur jafnvel stefnt allri starfsemi spítalans og byggðinni þar í kring í stórhættu. Þyrlur þurfa langa aðbraut fyrir lendingu og flugtak sem eru hættulegustu tímabilin í fluginu og því nauðsyn á opnu svæði fyrir nauðlendingar í kringum lendingarstaðinn. Góð aðstaða er hins vegar þegar fyrir þyrlur að athafna sig yfir Fossvoginum og síðan Fossvogsdalnum.“

Guðrún Bryndís Karlsdóttir sjúkraliði og verkfræðingur skrifaði grein sem var birt að hluta á blogginu „Arkitektúr, skipulag og staðarprýði“ sem Hilmar Þór Björnsson arkitekt heldur úti. Hann hefur skrifað afar mikið um Landspítalann og virðist lítt hrifinn af byggingarmagninu eins og sést á yfirskriftinni „Þarf spítalinn að vera svona stór?“

*** Sigurður Oddsson veltir fyrir sér í seinni greininni „hversu margar plágur þurfi til að vísa stjórnvöldum frá Hringbrautarvillunni í Fossvoginn“. Hann telur upp sex plágur sem hann segir þegar hafa dunið yfir, sú fyrsta var bankahrunið, hinar síðari eru m.a. myglusveppur, mósabaktería og maurar. Ég er augljóslega ekki sammála Sigurði um plágu númer tvö, sem hann segir vera Jóhönnu og Steingrím!

[Viðbót]: Friðbjörn Sigurðsson yfirlæknir á Landspítalanum virtist í Samfélagsviðtali (27. nóv, frá 33:50 mín) ekki hafa neitt á móti því að stækka spítalann við Hringbrautina eins og áætlað er, en benti hinsvegar á að nýja hátæknisjúkrahúsið yrði ekki tilbúið fyrr en eftir mörg ár. Í millitíðinni þarf úrbætur. Hann stakk uppá því að göngudeildir spítalans sem nú eru um allar trissur yrðu fluttar á einn stað meðan verið væri að byggja spítalann. Í ljósi þess að til stendur að selja eða leigja hluta Útvarpshússins í Efstaleiti stakk Friðbjörn uppá því að fá aðstöðu fyrir göngudeildirnar þar. Það er frumleg og sennilega nokkuð góð hugmynd.

Efnisorð: , , ,