sunnudagur, nóvember 16, 2014

Bankaskatturinn

Því er oft slegið fram að núverandi ríkisstjórn hafi staðið sig betur en ríkisstjórn Jóhönnu gagnvart fjármálafyrirtækjum og er bankaskatturinn helst talinn sem sönnun þess. Bjarni Ben og Sigmundur settu skatt á fjármálafyrirtæki til þess að fjármagna stærstu skuldaleiðréttingu í heimi og kemur bankaskatturinn í stað hrægammasjóðanna sem forðuðu sér greinilega þegar sást til mannsins með haglabyssuna.

En semsagt, Jóhanna og Steingrímur eru sögð hafa verið bestu vinir bankanna og ekkert viljað skattleggja þá þegar til kom. Það vill samt gleymast í hvaða stöðu þau voru. Þá er ég ekki bara að tala um hrun fjármálakerfisins og skelfilega stöðu ríkissjóðs, heldur að þau erfðu samning (tvo samninga reyndar, hinn var Icesave samningurinn hinn fyrsti sem hrunstjórnin gerði á síðustu metrunum áður en henni var búsáhaldabylt*) og sá samningur var við hinn illræmda Alþjóðagjaldeyrissjóð. Þau gengust undir það ok en öllum til mikillar undrunar og feginleika þá var krumla AGS ekki eins harðhent hér og tildæmis í Argentínu um árið. Engu að síður var margt sem varð að gera að þeirra tilskipan og annað sem ekki mátti gera. Smáatriði þessa samnings hafa ekki verið gerð opinber, en það blasir við að eitt af því sem Steingrímur mátti ekki gera var að íþyngja fjármálafyrirtækjum með of mikilli skattheimtu (blessuðum litlu greyjunum).

Hvort þau skilyrði náðu framyfir setu hans í ríkisstjórn eða hvort hann náði ekki að demba skattinum á áður en kjörtímabilinu lauk (eða leist ekki á að bankaskattur héldi fyrir lögum), þá er fjarstæðukennt að hrósa núverandi ríkisstjórn fyrir að leggja skatt á fjármálafyrirtæki bara til að borga kosningaloforð sín. Ekki bætir úr skák að bankarnir eru að gíra sig uppí málshöfðun og segja bankaskattinn ólöglegan. Verði þeim dæmt í vil mun enginn bankaskattur fjármagna skuldaleiðréttinguna heldur skattgreiðendur einir og sér. Þetta endar semsagt á því að breiðu bökin taka við, þessi sem eiga ekki vísa læknisþjónustu vegna þess að þessi ríkisstjórn ver ekki nægilega miklu skattfé í heilbrigðiskerfið en vill frekar puðra peningum útí loftið.

___
* Það kemur vel fram í máli Steingríms Joð í þingræðu 5. desember 2008 hvað hann var lítt hrifinn af samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og hvað Icesave gladdi hann lítið. Síðar var reynt að snúa því uppá Jóhönnu og Steingrím að Icesave væri runnið undan þeirra rifjum og þau hefðu helst reynt að semja um sem óhagstæðasta vexti. En Icesave málið vannst á tíma, eins og Þóra Kristín Ásgeirsdóttir benti á í pistli á Smugunni sálugu. Hér eru nokkur brot úr ræðu Steingríms.

„Hér er til umræðu 5. desember tillaga um aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem þegar er komin í gang þegar búið er að taka fyrstu 800 milljónir bandaríkjadalina og jafnvel byrjað að nota þá,

Þegar búið var að pína Ísland eða ríkisstjórnina til uppgjafar í Icesave-deilunni var græna ljósið sett á hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum … Það eru skilmálarnir sem Ísland á þar með að undirgangast, sem eru kannski af tvennu enn alvarlegri en lántakan sjálf vegna þess að hendur okkar verða mjög bundnar. Við höfum eftir það ekki frelsi til að velja þær leiðir sem við teljum bestar — fyrir hverja? Fyrir almenning í landinu, fyrir þjóðina, en ekki endilega fyrir peningamennina og fjármagnið sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er fyrst og fremst að passa upp á.

Það er hæstv. ríkisstjórn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn — svo grátbroslegt sem það nú er — sem hafa sett á gjaldeyrishöft. Til hamingju, Sjálfstæðisflokkur, til hamingju með gjaldeyrisskömmtunina. Er ekki gaman að vera formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra og setja á gjaldeyrishöft? Hvað halda menn að Sjálfstæðisflokkurinn hefði sagt ef sá sem hér talar hefði farið fyrir ríkisstjórn og sett á gjaldeyrishöft?

Og þó að kostirnir séu ekki margir má a.m.k. berjast heiðarlega í staðinn fyrir að gefast upp með þeim hætti sem hér er að mörgu leyti ætlunin að gera og varpa vandanum inn í framtíðina. Það verða þá ríkisstjórnir og Alþingi og þjóðin á næsta og inn á þarnæsta áratug sem koma til með að bera hitann og þungann af því sem þessi ónýta ríkisstjórn ætlar að fara að skrifa upp á, því miður.“



Efnisorð: , , ,