sunnudagur, nóvember 23, 2014

Hnýtt í taglhnýtinga

Um daginn las ég leikdóm sem kætti mig ógurlega. Mér til mikillar skemmtunar bættist við annar frá sama leikdómara þar sem hann endurnýtir geðvonsku sína frá því um daginn. Hann notar aftur orðið kennivald, frussar aftur yfir að „list sem er taglhnýtingur ... telst einskis virði“.

Svona lítur þetta út í fyrri leikdómnum:

„List sem gerist taglhnýtingur kennivaldsins, því þar liggur þetta nú, fjárlög formanns Sjálfstæðisflokksins eru stimpluð kyngreind í bak og fyrir, er einskis virði.“

og svona í þeim seinni:

„hvort það geti hugsast að innbyggð í hið opinbera styrkjakerfi við listir og menningu sé krafa um að menningartengd starfsemi þjóni tilteknu kennivaldi? Þá er rétt að hafa það í huga að list sem er taglhnýtingur viðtekinna viðhorfa, einhverrar opinberrar stefnu sama hver hún er, telst einskis virði“.
Báðar sýningarnar „gjalda fyrir þrúgandi innbyggða pólitíska réttsýni“, að mati Jakobs Bjarnar Grétarssonar, sem er ekki skemmt.

Fleiri hafa séð þessa sýningu og hafa skrifað eða skrafað um það í TMM (Tímariti Máls og menningar á netinu), Víðsjá og Listaukanum.* Almennt er þetta fólk greinilega slegið blindu því ekkert þeirra virðist hafa rekið augun í kennivald eða list sem er einskis virði.

Ég bíð spennt að lesa fleiri leikdóma eftir Jakob Bjarnar, ekki síst til að sjá hvort hann ætli að berja leikhópa til hlýðni með því að spara við þá stjörnurnar ef þeir ganga gegn hans innbyggða pólitíska áttavita.

Það stefnir í skemmtilegan leikhúsvetur.

__________
* Silja Aðalsteinsdóttir skrifaði leikdóminn í TMM. Gestir Viðars Eggertssonar í Listaukanum voru Hildur Jóhannsdóttir og Agnar Jón Egilsson. Þau byrja að tala um Útlenska drenginn á 33:20 mínútu. Þorgerður E. Sigurðardóttir ræddi um leikritið frá og með 16 mínútu Víðsjárþáttarins og á 22:35 sagði hún:
„viðkvæmni fyrir ítroðslu og pedagókískum tilþrifum í barnamenningu er töluverð og það ekki að ástæðulausu … Það er fjallað um afar mikilvæga hluti í Útlenska drengnum, mál sem eru í brennidepli, og það ekki með neinum kennslubrag“.
Jakob Bjarnar hélt því hinsvegar fram að leikritið væri „boðskapsbókmenntir, áróðursverk“ og boðskapnum sé „troðið ofan í kokið á áhorfendum“.

Efnisorð: