fimmtudagur, nóvember 20, 2014

Val um mannvirkjabelti eða ósnortin víðerni

Í dag rann út frestur til að skila athugasemdum til Landsnets og Vegagerðarinnar vegna fyrirhugaðrar háspennulínu yfir Sprengisand. Vonandi skrifuðu sem flestir en við því er reyndar að búast því Landvernd, Ferðafélag Íslands, Útivist, Ferðaklúbburinn 4×4, Samút (samtök útivistarfélaga), Samtök ferðaþjónustunnar og Náttúruverndarsamtök Íslands (þarna á meðal eru fornir fjendur) hafa sameinast gegn þessum áætlunum.

Enda þótt það sé of seint að hvetja fólk til að skila athugasemdum í mótmælaskyni þá vil ég lýsa eindreginni andstöðu minni við fyrirhugaða háspennulínu yfir Sprengisand. Lagning línunnar mun hafa mikið rask í för með sér og hrikalega sjónmengun. Sjónmengun verður af háspennulínunum og er það nægilegt tilefni til að að vera á móti þeim en þeim mun að auki fylgja vegagerð og aukin umferð.

Mér finnst þessvegna líka ástæða til að lýsa einnig yfir jafn eindreginni andstöðu minni við fyrirhugaða vegagerð yfir Sprengisand. Engu máli skiptir hvort vegurinn á að vera til að styðja við áform Landsnets um háspennulínu eða til að stytta fólki og fyrirtækjum leið milli landshluta („þó mun hún ekki stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur“). Nú er vegurinn niðurgrafinn og illfær fólksbílum en til stendur að malbika 8 metra breiðan veg með 90 km hámarkshraða. Því betri vegur því meiri umferð, og eftir því sem umferðin verður meiri þarf meiri þjónustu við bílana og stutt í að sett verði upp bensínstöð (og svo önnur og önnur því ekki má gera upp á milli olíufyrirtækja) og fyrr en varir eru vegasjoppur með tilheyrandi umhverfissóðaskap farnar að setja svip á landslagið. Sjónmengun verður af veginum sjálfum og er það nægilegt tilefni til að að vera á móti honum en vegurinn ásamt háspennulínunum mun eyðileggja ekki bara ímynd hinna ósnortnu víðerna heldur valda „óbætanlegu tjóni á óspilltri náttúru“.

En einsog Ómar Ragnarsson orðar það: „nú á að hefjast stórsókn gegn þeirri öræfatign, kyrrð og ósnortnum auðnum Sprengisandsleiðar, sem enn eru eftir.“

Það er gert undir því yfirskini að bæta eigi „afhendingaröryggi til almennra notenda“ en ekkert er fjær sanni, segir Ómar því „aðeins er verið að hugsa um afhendingaröryggi fyrir stóriðjuna.“ En til þess á að„skera á hálendið í tvennt með uppbyggðum og malbikuðum trukkavegi sem verður samofinn við háspennulínur og virkjanamannvirki svo að þessi leið verði sem líkust þeirri Hellisheiði sem við þekkjum nú.“* Það má líka segja að það felist ákveðin játning Landsnet á hve fyrirferðarmiklar háspennulínurnar og vegurinn eiga að verða á hálendinu með því að nota hugtakið „mannvirkjabelti“.

Páll Ásgeir Ásgeirsson bendir á að það sé ekki bara „takmarkalaus heimska og skammsýni að fórna stórum hluta af lítt spilltum víðernum á Sprengisandi með því að leggja risavaxna háspennulínu ásamt átta metrum breiðum uppbyggðum og malbikuðum vegi þvert yfir auðnina“ heldur „hreinlega atlaga eða tilræði gegn hagsmunum ferðaþjónustunnar“.**

Það er ekki nóg að sýna fallegar myndir af náttúru Íslands ef ferðamenn sjá svo allt annað þegar þeir koma til landsins: háspennulínur og malbikaða vegi þar sem þeir áttu von á að vera einir á ferð í ósnortinni náttúru. En burtséð frá ferðamönnum hverrar þjóðar sem þeir eru, þá hreinlega er fáránlegt af núlifandi Íslendingum að ætla að gjörnýta hvern krók og kima landsins þannig að þær kynslóðir sem á eftir koma finni hvergi þá náttúrufegurð sem forfeður okkar og við fengum (um skamma hríð) að njóta.

„Sprengisandur er hjarta íslenska hálendisins og við viljum ekki láta sundra honum með stórfelldri mannvirkjagerð.“
Þessi orð Páls Ásgeirs eru kjarni málsins.

___

* Ómar hefur skrifað heilmikið um fyrirhugaða háspennulínu og vegalagningu á Sprengisandi og eru tilvitnanirnar teknar tvist og bast úr þessum pistlum:
Ísland örum skorið fyrir stóriðjuna,
"...að leggja til atlögu, eh, afsakið, leggja fram tillögur..." (hér má sjá ansi áhrifamikla mynd af sjónrænum áhrifum Sprengisandslínu),
"Mannvirkjabeltin" verða nýjar virkjanir, hraðvegir og línur,
Er stutt í að menn "sakni fortíðarinnar" á Sprengisandi?
Tilvitnanir í Pál Ásgeir Ásgeirsson eru úr bloggpistli hans, Verndum Sprengisand.

** Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðarráðherra varð afhjúpandi fótaskortur á tungunni þegar hún talaði á kynningarfundi Landsnets um stöðu og framtíðaruppbyggingu flutningskerfis raforku og sagði þá að „nú værið verið að "leggja til atlögu...", þagnaði síðan augnablik, leiðrétti sig og sagði "..eh, leggja fram tillögur.“


Efnisorð: ,