föstudagur, nóvember 21, 2014

Einum ráðherra færri en stefnan samt ranglát

Loks sagði Hanna Birna af sér. Í ljósi þess að Gísli Valdórsson sagðist hafa játað og sagt af sér vegna gríðarlegs samviskubits en átti í raun von á að vera afhjúpaður, þá verður afsögn Hönnu Birnu að skoðast í ljósi þess að umboðsmaður alþingis mun eftir fáa daga segja sitt álit á samskiptum hennar, sem yfirmanni lögreglu og dómsmála, við Stefán Eiríksson þáverandi lögreglustjóra. Hún gæti semsé verið að forða sér áður en spilaborgin hrynur, rétt eins og Gísli. Þá er bara spurning hver tekur við ráðuneytinu, þar er enginn góður kostur (þó er Brynjar Níelsson verstur).

Þó afsögn Hönnu Birnu sé fréttnæm enda ekki á hverjum degi sem ráðherra segir af sér, hvað þá ráðherra sem segist þegar hafa sagt af sér embætti (þá átti hún við dómsmálaráðuneytið sem flutti yfir Arnarhólinn í forsætisráðuneytið) og hafði fengið stuðning flokksins til að sitja áfram, þá voru aðrar fréttir sem fengu hárin til að rísa á hausnum á mér.

Fréttir um arðgreiðslur útvegsfyrirtækjanna sem eru tvöfalt hærri en greiðslur veiðigjalda.

HB Grandi greiddi eigendum sínum 2,7 milljarða í arð á síðasta ári en 1,3 milljarða í veiðigjald. Samanlögð veiðigjöld Síldarvinnslunnar eru þriðjungur af því sem fyrirtækið greiddi í arð. Greidd veiðigjöld Samherja náðu 44 prósentum af arðgreiðslunum.

Þetta eru fyrirtækin sem við eigum að skilja að verði að hlífa við hærri veiðigjöldum. Þetta eru útgerðirnar sem sem okkur er sagt að fari lóðbeint á hausinn ef þau leggja meira til samfélagsins.
Þetta er stefna ríkisstjórnarinnar.

Það getur varla skipt máli héðanaf hver af þeim þingmönnum þessarar hræðilegu stjórnarflokka tekur við lyklunum að ráðherrabíl innanríkisráðuneytisins, þau stefna öll í sömu átt.

Auðmönnunum allt.

___
* [Viðbót] Sama dag hélt Daði Már Kristófersson hagfræðingur erindi á Sjávarútvegsráðstefnunni og hélt því þá fram að arðgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækjanna kæmu veiðigjöldum ekkert við. Steingrímur J. Sigfússon brást þannig við þessari fullyrðingu:
„Segir það enga sögu hvað eigendurnir ákveða að greiða sér í arð, er það aukaatriði í þessari umræðu eins og mér heyrðist vera haldið fram hér áðan? Nei, ég er ósammála því. Ég er reyndar fullkomlega ósammála því, og ég held að þjóðin sé líka ósammála því.“
„Segja arðgreiðslur, sem eru tveimur milljörðum hærri en veiðigjöld í heild á árinu 2013, ekki neitt?“ spurði Steingrímur aftur og bætti við að ábyrgir eigendur fyrirtækjanna myndu vart „moka sér út“ meiru í arð en sem nemur veiðigjöldunum ef þeim væri að blæða út vegna gjaldtökunnar.“

Efnisorð: ,