sunnudagur, nóvember 30, 2014

Nóvember uppgjörið

Áður en nóvember hverfur útí veður og vind er vert að minnast á nokkur mál.


Ríkisstjórnin
- umhverfismál og valdníðsla

Auk þess að Landsnet og Landsvirkjun vilja leggja háspennulínu og veg yfir Sprengisand ætlar ríkisstjórnin nú að stokka upp rammaáætlun um virkjanir.
Þegar þingmenn skelltu í sig síðustu kaffidreggjunum og tygjuðu sig til farar af fundi í atvinnuveganefnd laumaði Jón Gunnarsson, formaður nefndarinnar útúr sér að átta virkjanakostir fari úr biðflokki í nýtingarflokk. Og hélt greinilega að vegna þess að hann gaf ekki nefndarmönnum kost á að ræða málið yrði því bara tekið með þegjandi þögninni.

Það var auðvitað ljóst frá upphafi að þessi ríkisstjórn vildi virkja og það mun meira en rammaáætlun sagði til um, en gegn henni börðust núverandi stjórnarliðar í tíð Jóhönnustjórnarinnar. Það er í fyrsta lagi alvarlegt að ríkisstjórnin ætli að hunsa rammaáætlun en þessi aðferð, að nefna í framhjáhlaupi svo afdrifaríka ákvörðun, hún ber auðvitað vott um mjög sérkennilegan hugsunarhátt. Enda varð allt vitlaust. Vonandi verður þessi herfilega byrjun málsins eingöngu til að minnka líkurnar á að ríkisstjórnarflokkarnir fái sínu framgengt, en verði ekki upptaktur að því að ráðist verði í virkjanir.

Ríkisstjórnin
- fjárlög sungin af æfðum röddum

Það fór einsog Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna spáði strax í september, að ríkisstjórnin hyggst af góðsemi sinni hækka matarskattinn minna en hún áður tilkynnti. Hann á nú 'bara' að hækka uppí 11% í stað 12%.
„Hver veit nema ástæða þess að virðisaukaskattsþrepið er 12% í glærukynningu ráðherrans en 11% í frumvarpinu sjálfu sé sú að það er búið ákveða málamiðlunina milli stjórnarflokkanna og semja leikritið sem á að leika fyrir forviða Íslendinga fram í nóvember? Ég bíð spennt.“
En þrátt fyrir þessi orð Katrínar spiluðu nokkrir Framsóknarþingmenn greinilega samt sína rullu, sögðust vera á móti svona háum matarskatti og ætluðu kannski bara ekkert að styðja fjármálafrumvarpið. En núna þegar búið er að lækka töluna í 11% bíta þeir höfuðið af skömminni með því að segja að þetta sé nú allt annað líf og þetta geti þeir vel sæst á.

Mannréttindi
Ræstingafólk á Borgarspítalanum er þrælkað. Það fær lélegt kaup fyrir mikla vinnu, og á að skila meiri afköstum en mun fleira starfsfólk áður. Framkvæmdastjóri ræstingafyrirtækisins auðvitað alveg ósammála þessu. Áður var fólk á launum hjá ríkinu við að þrífa spítalann, það þykir frjálshyggjumönnum ótækt og mun betra að bjóða út til svona góðra ræstingafyrirtækja. Stjórnarráðið er einmitt nýbúið að segja upp ræstingakonum og í staðinn á að fá einkafyrirtæki í að þrífa ráðuneytin. Það væri kannski ráð að fá að skoða launaseðla starfsmanna áður en tilboðum er tekið í verkið, ef ekki á að halda áfram á þeirri braut að opinberar stofnanir séu þrifnar í þrælavinnu.

Annað og gleðilegra mál er að Finnar hafa loks, síðastir Norðurlandaþjóða, fellt niður hömlur í hjónabandslöggjöf sinni og nú geta samkynja pör gengið í hjónaband.

Kynjamismunun staðfest í sjónvarpi
Ástralskur sjónvarpsþáttastjórnandi af karlkyni var í sömu jakkafötunum í hverri útsendingu í heilt ár. Það gerði hann til að vekja athygli á kynjamisrétti í fjölmiðlum en kvenkyns kollegar hans fá reglulega aðfinnslur við klæðaburð sinn í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Þáttastjórnandanum feminíska segist hafa blöskrað sú gagnrýni sem konur fái fyrir að vera í sömu fötunum oftar en einu sinni; það sýni að fólk dæmi þær frekar eftir útliti en frammistöðu. Nú hafi hann sem karlmaður gengið í sömu fötunum í heilt ár án þess að nokkur hafi tekið eftir því.

Löggur
Landhelgisgæslan var varla búin að tilkynna að norsku vélbyssunum verði skilað þegar Jón Bjartmarz yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra sagði að íslenska löggan þurfi að kaupa hríðskotabyssur til að verjast Íslamska ríkinu! Er svona fólki í alvöru hleypt upp metorðastiga og fær að tjá sig við fjölmiðla?

Í kjölfarið á þessari yfirlýsingu kom grein eftir síglöðu lögguna sem mörgum hefur fundist næstum jafn krúttlegt andlit lögreglunnar og instagram síðan þeirra. Hann steig öllum að óvörum fram sem kristinn þjóðernissinni og sagði sögur af vondum útlendingum (og kannski kom greinin hans ekkert óvart í kjölfarið á múslimar-eru-að-vopnbúast skilaboðum kollega hans). Það má segja honum til hróss að hann beið ekki með það í marga áratugi að varpa af sér skikkju hlutleysisins, eins og Geir Jón.

Nú er engin lögga eftir sem fólk getur talið sér trú um að sé bara góði kallinn.


Efnisorð: , , , , , , , , ,