laugardagur, nóvember 29, 2014

Sandlækur hinn vestari

Mörgum er enn í minni hreint stórgóð bíómynd sem heitir á frummálinu Little Big Man og skartaði Dustin Hoffman í aðalhlutverki þar sem hann lék 121 árs gamlan mann að rifja upp ævintýralega ævi sína þar sem hann ýmist var meðal indíána eða hvítra manna.

Little Big Man er byggð á samnefndri bók (sem kom út 1964 en ég hef ekki lesið bókina og tala því bara um myndina) og fjallar að stórum hluta um sögulega atburði sem þó eru færðir til í tíma og ýmsu breytt, og síðan er smurt vænu lagi af skemmtilegheitum á það sem ekki beinlínis snýr að sögulegu atburðunum. Þeir voru of hrikalegir til að hægt væri að spauga með þá. Sögusviðið er villta vestrið á nítjándu öld, sögulegu atburðirnir: fjöldamorð hvíta mannsins á indíánum.

Myndin með Dustin Hoffman var gerð 1970 og sama ár kom út bókin Bury My Heart at Wounded Knee sem gefin var út á íslensku tíu árum síðar undir titlinum Heygðu mitt hjarta við Undað Hné - saga ameríska vestursins frá sjónarhóli indíána.* Þar eru raktir þeir atburðir sem meðal annars komu við sögu í Little Big Man nema nú í réttri röð og engin tilraun gerð til að létta lesandanum lífið með spaugi. Þvert á móti er þetta afar erfiður lestur enda er rakið hvernig hvíti maðurinn, ekki bara einstaklingar sem numu land í heimkynnum indíána, heldur ríkisvaldið og yfirmenn hersins, leggur sig í líma við að reka indíána á brott, af veiðilendunum sem þýddi að þeim var nánast gert ókleift að afla sér matar, og hvernig logið var að þeim linnulaust og þeir látnir gera samninga sem voru sviknir jafnharðan. Útrýming indíána var misjafnlega opinskátt markmið.

Gull fannst á landsvæði því sem nú heitir Kolóradó og brast þar á gullæði árið 1858. Um hundrað þúsund gullgrafarar þyrptust þangað. Á svæðinu bjuggu indíánar sem skyggðu á gleðina og þótti hvítu mönnunum sjálfsagt að indíánarnir þyrftu að víkja. Yfirvöld ætluðust til að þeir færðu sig á landsvæðið milli Sandlækjar og Arkansas-fljóts (e. Sand Creek, Arkansas River) í suðaustur Kolóradó og gerðust þar bændur. Samningur um þetta var gerður við Sjeyenne (Cheyenne) og Arapahó indíána árið 1861 en ekki voru allir indíánar hrifnir af honum enda var þetta margfalt minna svæði en hafði verið samið um við hvítu mennina tíu árum fyrr (en þá var hvorki gull né járnbrautarteinar inni í myndinni). Þeir litu því svo á að þeir væru ekki bundnir af þessum nýja samningi sem gerður var af ólæsum mönnum sem e.t.v. skildu ekki til fulls hvað í honum fólst eða hafði verið mútað til að skrifa undir hann.

„Hvítu mennirnir reyndu sífellt að fá indíánana til að gefa fyrra líf sitt upp á bátinn og taka upp siði hvítu mannanna, hefja jarðyrkju og vinna erfiðisvinnu eins og þeir gerðu. Indíánarnir kunnu ekkert til þessara verka og höfðu þar að auki ekki hinn minnsta áhuga á þeim … Ef indíánarnir hefðu reynt að að fá hvítu mennina til að taka upp sína siði hefðu hvítu mennirnir reynt að streitast á móti eins og indíánarnir gerðu.“
- Santí-súinn (Santee-Sioux) WAMDITANKA (Stóri Örn)

Þrælastríðið hófst 1861 og þá fóru margir hvítu mannanna, sem áður leituðu gulls, til að taka þátt í því en 1864 var hluti herliðsins kominn til Kolóradó (ég hirði ekki um að rekja ástæður þess). Indíánarnir þóttu orðnir of uppivöðslusamir og blásið var til sóknar gegn þeim. Frá því er sagt í fjórða kafla Heygðu mitt hjarta við Undað Hné, og heitir hann „Sjeyennarnir í stríði“. (Lesendur eru varaðir við því sem hér fer á eftir.)

„Fylkisstjórinn vildi sem minnst hafa með indíánana að gera. Hann fullyrti að Sjeyennunum og Arapahóunum ætti að refsa áður en nokkur friður væri saminn. Þetta var einnig skoðun yfirboðara herdeildarinnar, Samuels R. Curtis hershöfðingja. Í símskeyti sem hann sendi Chivington ofursta þennan sama dag sagði hann: „Ég er mótfallinn friði þar til indíánarnir hafa þjáðst meir.“

Fylkisstjóri þriðju Kolóradó herdeildarinnar sá heldur engan tilgang með að halda fyrirhugaða friðarráðstefnu með indíánunum: „Mennirnir hafa verið þjálfaðir til að drepa indíána og indíána verða þeir að drepa.“ Þegar indíánarnir voru komnir á hans fund lýsti hann því yfir „að hann væri alls ekki í skapi til að gera friðarsamning“ og benti indíánunum á að það væri misskilningur ef þeir héldu að þeir geti rekið hvítu mennina af landinu vegna þess að hvítu mennirnir væru í stríði sín á milli. „Faðirinn mikli í Washington hefur nógu mörgum á að skipa til að reka alla indíána af sléttunum og jafnframt að píska uppreisnarmennina.“ Síðan hvatti hann þá til að snúast á sveif með stjórninni og sýna vináttu í verki.

„Hvíta Antílópa, elstur höfðingjanna, tók nú til máls: „Ég skil hvert orð sem þú segir og mun varðveita það … Hver einasti Sjeyenni horfir í átt hingað og þeir munu heyra orð þín … Hvíta Antílópa er hreykinn að hafa hitt höfðingja allra hvítra manna í þessu landi og hann mun segja þjóð sinni það. Allt frá því að ég fór til Washington og þáði þessa orðu hef ég kallað hvítu mennina bræður mína. En það eru fleiri indíánar sem komið hafa til Washington og fengið orður. En nú sækjast hermennirnir eftir lífi mínu í stað þess að handsala frið.“
Tveimur mánuðum síðar, að morgni 29. nóvember 1864, var hann drepinn í blóðbaðinu við Sandlæk.

Í bókinni segir frá undirbúningi Kolóradó-herdeildar Chivingtons ofursta, sex hundruð manns, þar af bróðurparti þriðju herdeildarinnar sem Evans fylkisstjóri hafði komið á fót í þeim tilgangi einum að berjast við indíána (síðar bættist við hundrað manna sjálfboðaliðssveit undir stjórn majórs að nafni Anthony). Chivington talaði um að „safna höfuðleðrum“ og „vaða í blóði“ og bölvaði öllum þeim sem hefði samúð með indíánum.
„Ég er hingað kominn til að drepa indíána og ég trúi því að það sé rétt og heiðarlegt að nota öll meðöl sem guð hefur gefið okkur til að drepa indíána.“

Lagði nú herfylkingin af stað, sjö hundruð manns, og stefndu á tjaldbúðir sex hundruð indíána; tveir þriðju hlutar þess fjölda voru konur og börn. „Vopnfærir karlmenn hafa verið um þrjátíu og fimm og svo nokkrir öldungar, alls um sextíu karlar … fleiri voru ekki í búðunum, hinir voru á veiðum.“

Sagt var frá því nokkrum blaðsíðum fyrr þegar Sjeyenna indíánahöfðinginn Svarti Ketill fór á friðarráðstefnu og reisti bandaríska fánann yfir vagn sinn eins og vörn. Þegar hermenn Chivingstons réðust á tjaldbúðirnar við Sandlæk batt Svarti Ketill stóran bandaríkjafána við tjaldstöng. Hann stóð framan við tjaldið og hélt á stönginni. „Ég heyrði hann kalla til fólks síns að óttast ekki, hermennirnir myndu ekki gera þeim mein. Þá hófu hersveitirnar skothríð úr tveim áttum í senn.“ Hvíta Antílópa hélt eins og Svarti Ketill að „skothríðinni yrði hætt um leið og hermennirnir sæju bandaríska fánann og hvítu veifuna sem Svarti Ketill hafði nú dregið upp sem merki um uppgjöf.“ En hann var auðvitað bara skotinn, enda þótt hann æpti Stans! Stans! og næmi staðar og krosslagði hendurnar á brjóstinu. Arapahó höfðingi reyndi líka að komast að fána Svarta Ketils en dó einnig með krosslagðar hendur eftir að hafa sagt að hann berðist ekki við hvítu mennina. Þeir væru vinir hans. Umhverfis fánann þjöppuðu sér karlar, konur og börn, hvíta veifan sást greinilega.
„Enginn greinarmunur virtist gerður á körlum, konum eða börnum, öllum var slátrað … Höfuðleðrið var tekið af hverju einasta líki sem ég sá. Eina konu sá ég sem hafði verið rist á kviðinn og ófætt barn að því er mér virtist lá við hlið hennar … Ég sá líkama Hvítu Antílópu og kynfæri hans höfðu verið skorin af. Einn hermann heyrði ég segja að hann ætlaði að gera úr þeim tóbakspung. Ég sá konu sem kynfærin höfðu verið skorin úr … Ég sá töluverðan fjölda reifabarna drepinn með mæðrum sínum.“

„Stuttu fyrir blóðbaðið hafði Chivington ofursti mælt því bót í opinberri ræðu í Denver að allir indíánar væru drepnir og höfuðleðrið skorið af þeim, jafnvel þótt um ungabörn væri að ræða. „Af nitinni kemur lús!“ lýsti hann yfir.

Annar sjónarvottur segir að eftir því sem hann best viti „voru þessi hryðjuverk framin með fullri vitneskju J.M. Chivingtons og ég veit ekki af neinum ráðstöfunum frá hans hendi til að koma í veg fyrir þau.“

Þegar skothríðinni linnti lágu 105 indíánakonur og börn í valnum og 28 karlmenn. Svarti Ketill slapp fyrir kraftaverk en kona hans var illa særð.** Fangar voru sjö.

Og hvað hafðist svo uppúr þessu? Kallar fjöldamorð á sáttfýsi og friðarvilja?

„Á þeim örfáu klukkustundum sem brjálæðið stóð yfir við Sandlæk höfðu Chivington og hermenn hans bundið enda á líf eða áhrifamátt hvers einasta Sjeyenna- og Arapahóahöfðingja sem stutt hafði friðarumleitanir við hvítu mennina. Eftir flótta þeirra sem eftir lifðu afneituðu indíánarnir Svarta Katli og Vinstri Hönd og hölluðu sér að stríðsleiðtogunum til að verjast útrýmingu.“
Þeir gerðu bandalag við Súa-indíána (Sioux) og hófu skipulagðar ránsferðir og brenndu bæ og tóku höfuðleður þeirra sem vörðu bæinn „sem hefnd fyrir höfuðleður indíánanna við Sandlæk“. En nærri ári eftir fjöldamorðin við Sandlæk skrifuðu leiðtogar leifanna af syðri Sjeyenna- og Arapahóaættbálkunum undir nýjan samning þar sem þeir afsöluðu sér öllum rétti til Kolóradósvæðisins. „Og að sjálfsögðu var það eini tilgangurinn með blóðbaðinu við Sandlæk.“

Samningurinn kvað einnig á um „eilífan frið“.

Árið 1890, tuttugu og fimm árum eftir undirritun samningsins og mörgum mannslífum síðar, var tvö hundruð súa-indíánum slátrað við Undað Hné. En eilífðarfriðarsamningurinn átti auðvitað ekki við um þá.

En afhverju rek ég þessa sögu núna? Vegna þess að í dag voru liðin 150 ár frá fjöldamorðunum við Sandlæk.


___
* Heygðu mitt hjarta er eftir sagnfræðinginn Dee Brown. Bókin er þýdd af Magnúsi Rafnssyni, ég notast við þá þýðingu og samræmi eigin texta og rithátt við hana (sbr. notkun orðsins indíáni). Enda þótt ég setji beina ræðu oftast í gæsalappir hannesa ég líka heilmikið, þ.e. nota texta bókarinnar án þess að geta þess. Ásláttarvillur eru mínar.

** Svarti Ketill og kona hans voru drepin í árás Custers hershöfðingja á þorp við Washita ána árið 1868, eins og segir frá í kaflanum „Góður indíáni er dauður indíáni“. Sveitir Custers gereyðilögðu þorpið á nokkrum mínútum. Þeir drápu 103 manns, aðallega öldunga konur og börn, en þar á meðal voru aðeins ellefu stríðsmenn. Auk þess „slátruðu þeir með skothríð nokkur hundruð hestum í rétt í sóðalegu blóðbaði“.

Efnisorð: , , , ,