miðvikudagur, desember 03, 2014

Alþjóðadagur fatlaðra

Alþjóðadagur fatlaðra er í dag. Af því tilefni er vert að ræða aðgengi, almannatryggingakerfið, búsetuúrræði (íbúðakjarnar/ sambýli/ sjálfstæð búseta), börn að eilífu, efnahagslega stöðu, fátækt, félagslega einangrun, fordóma, fóstureyðingar í kjölfar snemmómskoðunar, hetjustimpil, hvað fólk með fötlun er duglegt, jöfn tækifæri, kostnað við lyf og hjálpartæki, krúttstimpil, kynferðislegt ofbeldi (gegn börnum, konum og körlum), menntunarmöguleika, notendastýrða aðstoð, ósýnileika, réttinn til að taka sjálfstæðar ákvarðanir, samfélag án aðgreiningar, skertar bætur vegna tekna eða hagstjórnunarlegra ástæðna, slysa- og sjúkrabætur, staðalmyndir, starfsgetu, stöðu fatlaðra í atvinnulífinu, viðhorf einstaklinga til fatlaðra og örörkubætur.

Ég veit hinsvegar of lítið um neitt af þessu til að ræða það af viti, fylgist bara með umræðunni af hliðarlínunni og reyni að fræðast. Viðtöl við og greinar eftir Freyju Haraldsdóttur og Emblu Guðrúnar Ágústsdóttur hafa verið mér algjör opinberun því þær ögra öllum viðteknum staðalmyndum um fatlaða, og hrista uppí viðhorfi okkar sem ófötluð erum. Ég fagna því mjög að fræðast meir en mér finnst að ég eigi að þegja sem mest, þegja og hlusta, bera virðingu fyrir þessum nýju röddum en ekki segja þeim hvað og hvernig þær eiga að berjast fyrir sínu.

Það viðhorf hafa ekki allir tileinkað sér. Um þetta leyti í fyrra hófst undarleg herferð á hendur Freyju Haraldsdóttur fyrir að hafa gagnrýnt Vigdísi Finnbogadóttir fyrir orðalag. Í sjálfu sér var jákvætt að sjá að margt fólk má ekki sjá orði á Vigdísi hallað og verja hvern þann sem gagnrýnir hana (ekki að mér detti í hug að Vigdís hafi með vilja notað orðalag sem fólk með fötlun gæti talið niðrandi, en ábending Freyju átti rétt á sér fyrir því). Það er athyglisvert að Vigdís sjálf bað Freyju afsökunar enda hefur hún ekki viljað nota orðalag sem getur stuðað, og sýndi þarmeð þessu stuðningsmannaliði sínu hvernig maður tekur gagnrýni. En margir ófatlaðir/karlmenn/fávitar (ekkert af þessu útilokar hitt, oftar en ekki átti þetta allt við um þá sem tjáðu sig í athugasemdakerfum) sem tóku gagnrýni Freyju óstinnt upp notuðu um leið tækifærið og skömmuðust útí Freyju fyrir móðgunargirni, athyglissýki og þaðanaf verra. Sumir spöruðu ekki stóru orðin og sögðu meiðandi hluti og aðrir komu verulega upp um fordóma sína og óþol gagnvart réttindabaráttu fatlaðra.

Hér eru nokkur dæmi um viðbrögð í athugasemdakerfum dagblaðanna - sem birtu hverja fréttina á fætur annarri til að fá sem mestar tekjur af Freyjumálinu. Ég fjarlægi yfirleitt nöfn þeirra sem tjáðu sig.

5. desember 2013
A: Mikið hrikalega er ég orðinn þreyttur á þessari Freyju. Það má enginn segja neitt neinstaðar þá tekur hún því sem persónulegri árás.

B: […] Það er alltaf gott og gilt að berjast fyrir auknum réttindum og vera vakandi fyrir réttindabaráttu sinni en FJANDINN hvað þetta er orðin mikil sturlun á mörgum vígstöðvum og algjörlega afvegaleidd barátta … ÉG BILAST!

B (aftur): Nei ég veit ekki hvað vakir fyrir henni blessaðri þó svo hún hafi kannski gert margt gott í starfi fatlaðra? Flest hennar ummæli í fjölmiðlum einkennast af mikilli biturð og umburðarleysi en maður veltir líka stundum fyrir sér hvort þessi vanhugsuðu ummæli endurspegli réttindabaráttu eða hvort einfaldlega öll vitleysan rati "óvart" í fjölmiðla þar sem fjölmiðlamenn leiti uppi bullið […]

C: […] Political correctness komið út í öfgar hérna.

D: Stundum finnst mér hún ekki í lagi! Mætti halda að allir væru á móti henni ef maður á að taka mark á öllum fréttum sem snúast um hana. Held að ég hafi aldrei séð grein eftir hana á jákvæðum nótum en kannski fá neikvæðu greinarnar hennar bara meiri athygli.

E: Úff hvað þessi Freyja er athyglissjúk, og leiðinleg.

F: Kæra Freyja, þú sem hefur virst svo endalaust jákvæð og dugleg ert nú farin að láta eins og óþekkur krakki (má segja það) ég hef litið upp til þín fyrir dugnað og elju en því miður ertu svolítið farin að eyðileggja fyrir sjálfri þér og fleirum fötluðum með framkomu þinni, vona að þér sé ekki farin að finnast athyglin það nauðsynleg að þú argist út í allt og ekkert, frú Vigdís er einhver vandaðasta manneskja sem fyrirfinnst á Íslandi og að ætla henni að hún sé að móðga einhvern er bara ekki sanngjarnt.
Hér kemur þetta með dugnaðinn, og líka samlíkingin við börn. Athyglisvert að innan sviga er skrifað „má segja það“, svona eins og þegar brosmilda löggan sagði skrifaði pistil sem hét „Greinin sem má ekki skrifa“. Semsagt, F veit fullvel merkingu orða sinna en lætur samt vaða.

Andstyggilegasta athugasemdin þennan daginn:
Birgir Hrafn: hver ætli hafi hjálpað henni að hætta að horfa á sjónvarpið?

11. desember 2013
G: […] Persónulega finnst mér Freyja hafa sett ofan og hafa gert sér og öðrum fötluðum óleik. Í þessu máli finnst mér hún koma fram sem óttaleg nöldurskjóða. […]

21. desember 2013
H: Ég man eftir "ég biðst afsökunar" pistli frá Freyju og hann var algjörlega mesta rugl sem ég hef lesið þvílíkt og annað eins væl hef ég varla lesið. Þvílíkt sem þú Freyja sækist eftir athygli. Við sem ekki erum skilgreind með fötlun (ekki fara í kerfi) höfum og munum þurfa að taka við allskonar djöfs rugl commentum og yfirdrullunum frá öðrum. Ef þú vilt vera álitin eins og hver annar hættu þá að væla!

Það er einmitt það. Ef Freyja eða annað fólk með fötlun vill vera álitið eins og hver annar þá á það að hætta „að væla“. Það er nefnilega best að þegja og vera ekkert að benda á óréttlæti eða það sem betur mætti fara.

Kannski er þetta gríðarlegt framfaraskref, að taka harkalega á móti skoðunum fatlaðrar konu í baráttu hennar, en mér fannst þetta einstaklega óviðeigandi. Mig grunar reyndar að andstaðan sem Freyja hefur mætt megi að stórum hluta rekja til þess að hún er yfirlýstur feministi, en feministaveiðar hafa verið frjálsar um nokkra hríð og engin takmörk fyrir hvaða vopn má nota til að berja niður feminista. Já og svo er auðvitað til fólk sem þolir ekki að fólk sem alltaf hefur verið skipað neðst í þjóðfélagsstiganum sé að gera sig gildandi.

Meðan fárið vegna ummæla Freyju í desember í fyrra stóð sem hæst varð hún líka uppspretta bloggskrifa, sum þeirra voru skrifuð til stuðnings henni og málstað hennar.

Þannig sagði Sigríður Guðmarsdóttir.
„Fyrir mér snýst þessi umræða aðeins um eitt og það er þetta: „Getur ófatlað fólk tekið leiðbeiningum fólks með fötlun um það hvað því finnst vera viðeigandi og óviðeigandi orðræða um fötlun sína?“
Þetta er svona einfalt. Forræðishyggja og hroki gagnvart fólki með fötlun kallast hæfismi, á ensku ableism. Þetta er óvenjulúmsk kúgunaraðferð sem auðvelt er að flækja sig í.“

Kristín Jónsdóttir skrifaði knúzpistil um óvægna umræðu um baráttufólk og vitnaði þar í Sigríði Guðmars til að vekja athygli á fyrirbærinu forréttindablinda. Pistill Kristínar nefndist Forréttindafrekjur og annað baráttufólk, en einhverjum snillingnum fannst af óskiljanlegum ástæðum viðeigandi að kalla Freyju forréttindafrekju.

En Einar Steingrímsson býsnaðist hinsvegar bara yfir frekjunni í Freyju:
„Það er þess vegna hrein og klár frekja að ætlast til að fólk hætti að nota þetta orð [fötlun] öðru vísi en sjálfskipuðum rétttrúnaðarlöggum þykir við hæfi. Fatlað fólk getur verið frekjur eins og annað fólk, og það er hið besta mál. Það er hins vegar vont ef svoleiðis frekjum tekst að fatla umræðuna með þeirri frekju sinni.“

Í athugasemdum við bloggfærslu Einars skrifar maður með fötlun og segir:
„Sem fatlaður maður hef ég dálítið kynnst öðru fólki sem samskonar er ástatt um. Ég hef tekið eftir því að „fatlaðir“ vilja síður að fötlun þeira sé nefnd á nafn. Sama er með mig. Það helgast af því að þeir sem hafa einverja skerta hreyfigetu vilja hljóta viðkenningu þjóðfélagsins á að það fólk séu venjulegar persónur. Að aðrir sjái persónna á bak við en ekki útlit hennar. Að þeir sem kallast venjulegir geti horft á manneskjuna framhjá fötlun hennar. Hver svo sem hún er. Það snýst því um viðurkenningu. […] Í huga fatlaðs fólks hefur því orðið FÖTLUN neikvæða niðrandi merkingu.“

Auðvitað tók enginn undir þetta sjónarmið á bloggsíðu Einars.


Ég gæti tiltekið fleiri dæmi um andstyggilegheit í garð Freyju og tilraunir til að þagga niður í henni. Hún er ekki ein um að lenda í slíkum árásum. Á tímum opinna athugasemdakerfa fær hver sú sem stendur í fylkingarbrjósti í réttindabaráttu að kenna á almenningsálitinu. Eina huggunin er að með tíð og tíma breytast viðhorf, þó það gerist óþolandi hægt.

Að því sögðu óska ég fólki með fötlun og okkur öllum til hamingju með alþjóðadag fatlaðra.

Efnisorð: , , ,