Blásið til byltingar sem aldrei verður
Sjaldan er bilið milli þeirra sem hafa og þeirra sem hafa ekki meira en í desember. Foreldrar sem ekki geta veitt börnum sínum það sem önnur börn fá eru í erfiðri klípu. Jólasveinninn kemur í skylduheimsóknir á hvert heimili en byrjar sumstaðar að mæta í byrjun desember, annarstaðar þrettán nóttum eða jafnvel níu nóttum fyrir jól, séu foreldrar mjög forhertir. Hann gefur heldur ekki allstaðar það sama í skóinn; ég veit ekki hvort sögur um iPad og slíkar græjur í skóinn eru lognar, en víst er að jólasveinninn mismunar börnum mjög eftir efnahag foreldranna. Og það vita bæði börnin og foreldrarnir. Hvernig á að útskýra það fyrir börnum, hvernig á að afsaka það og hvernig líður foreldrum sem hina ellefu mánuði ársins eiga fullt í fangi með að láta endum ná saman – eða geta það jafnvel allsekki?
Og svo koma jólin sjálf og þá fyrst syrtir í álinn. Skyndilega er gerð krafa um nýjar flíkur (annars yfirvofandi ógn um jólaköttinn; samt verður að passa uppá að fatnaðurinn lendi ekki í jólapakkanum því þá verður barnið óhuggandi vegna óréttlætis heimsins sem mjúkir pakkar óneitanlega eru), hátíðamat með skylduboðsmeðlæti og eftirrétt. Plús auðvitað jólagjafirnar. Ekki bara til eigin barna heldur systkina og systkinabarna og gott ef ekki það verður tilefni til vinslita ef fólk ekki hunskast til að gefa vinafólki og börnum þeirra líka – því það eru nú einu sinni jólin. Gegnum þetta allt verður að reyna að halda andlitinu gagnvart börnunum, leyfa því að trúa á jólasveininn og á réttlæti heimsins sem er augljóslega ekkert dag eftir dag vikum saman. Veslings börnin eru ekki orðin gömul þegar þau sjá hvað þetta tekur á foreldrana en átta sig ekki alltaf strax á hversvegna, hvað þá að þau skilji afhverju öllu þessu dóti er veifað framaní þau ef þau mega ekki eignast það eins og hinir.
Þetta vitum við öll, við erum minnt á þetta í ótal pistlum á hverri aðventu, fólk býsnast yfir neysluæðinu og gjafaflóðinu og að börnin hafi í raun ekki gott af þessu (börnin sem fá allt) og hin upplifi sig minnimáttar (þessi sem bæta síðar eigin börnum þetta upp með því að láta þau aldrei skorta neitt: með því að láta þau fá allt). Aldrei eru það neitt nema hjáróma raddir samt, bara eitthvað „samræmum úthlutanir jólasveinsins“ beiðnir.
Hvorki kristnum né trúlausum dettur samt í hug að hvetja til virkilegs átaks, mynda breiðfylkingu, bylta. Hætta að gefa jólagjafir, alfarið. Það græðir enginn á þeim nema kaupmenn hvorteðer (óhagstæður vöruskiptajöfnuður við ættingja er aldrei meiri en um jólin). Hægt væri að segja börnunum í staðinn skemmtilegar sögur af jólaveinum sem engum gefa neitt, en leika hurðaskellina og gluggagægjurnar, kalla til kött nágrannans og hlæja að tilhugsuninni að hann éti þá sem eiga ekki nýja flík, hafa svo jólasveinamáltíð: skyr, bjúgu og nýskafinn graut uppúr potti.
Í stað jólaundirbúnings sem stendur vikum saman með gjafakaupum verður friður og ró, hver sýslar við sitt eins og venjulega. (Það þarf varla að taka fram að það eru engin litlu jól, ekkert jólaföndur og engar kirkjuheimsóknir skólabarna.) Svo kemur að stærstu hátíð kristinna manna og trúaðir geta farið í hátíðlega messu með sitt fólk bæði 24. og 25. desember eða oftar ef þeir endilega vilja og hugsa þá um líf Jesú sem fæddist í jötu í Betlehem (valfrjálst fyrir aðra að trúa þeirri sögu). Búið. Engar gjafir, jólatré, möndlugrautur, smákökur. Bara stjórnlaus fögnuður yfir honum Jesúsi.
Trúleysingjar fyrir sitt leyti halda sína hátíð þetta tveimur þremur dögum fyrr, á vetrarsólstöðum – þessum sem þeir segjast vera að fagna sama dag og hinir kristnu fagna fæðingu frelsara síns – og þá er auðvitað valfrjálst hvernig þeir gera það — en skorti þá hugmyndaflug til að gera eitthvað annað en snæða hamborgarhrygg og taka upp jólagjafir, hlýtur alltaf að vera góður kostur að halda samkomu þar sem trúleysingjar djamma eins og þjóðveldismenn. Sú veisla má standa framundir nýjár sé ekki aðkallandi að mæta í vinnu eða sinna börnum.
Jólasveinninn og Jesú Kristur eru helstu boðberar kapítalismans, peningaóhófsins og misskiptingarinnar (eflaust þeim síðarnefnda til mikils ama, sé rétt eftir honum haft). Sameinumst um að afneita því hlutverki fyrir þeirra hönd og afþökkum að láta desember vera kvíðvænlegasta mánuðinn.
Glætan að þið eigið eftir að gera þetta, vanaþrælarnir ykkar!
Efnisorð: trú
<< Home