fimmtudagur, desember 18, 2014

Léleg fórnarlömb

Bandaríski rithöfundurinn (og háskólakennarinn og skraflkeppandinn) Roxane Gay hefur skrifað bók um að vera lélegur feministi (eða öllu heldur um að vera ekki fullkominn feministi, enda er ekki hægt að vera fullkomin í því fremur en öðru) og um daginn skrifaði hún pistil um að vera lélegt nauðgunarfórnarlamb. Pistilinn skrifaði hún með hliðsjón af nauðgunarmáli sem Rolling Stone tímaritið fjallaði um, en síðan hefur frásögn „Jackie“, sem sagði að sér hafi verið nauðgað, verið dregin í efa (og um það hafa íslenskir fjölmiðlar fjallað). Ég veit ekki hvort Jackie sagði satt og það veit Roxane ekki heldur en í pistlinum kemur hún með nokkra góða punkta um stöðu fórnarlamba kynferðisofbeldis, burtséð frá þessu tiltekna Rolling Stone máli.

Pistillinn fer hér á eftir örlítið staðfærður.


Við höfðum drukkið.

Við vorum dópaðar.

Við vorum edrú.

Við fórum í kelerí við hann.

Við fíluðum að kela við hann en vildum ekkert meira.

Við fórum heim með honum.

Við tókum hann heim með okkur.

Við sögðum ekki nei.

Við sögðum nei, en ekki nógu hátt.

Við vorum of forviða til að berjast á móti.

Við börðumst ekki nógu mikið á móti.

Við báðum hann um að nota smokk.

Við báðum hann ekki um að nota smokk.

Við reyndum að semja við hann, buðum annað í staðinn fyrir þetta.

Við þekktum hann.

Við þekktum hann ekki.

Við vorum í fleginni skyrtu og háum hælum.

Við vorum í þröngum gallabuxum.

Við vorum í baðfötum.

Við vorum í síðum kjól og Converse strigaskóm.

Við vorum með meiköpp.

Við vorum ómálaðar.

Við sögðum engum.

Við sögðum bestu vinkonu okkar.

Við sögðum náunganum sem rakst á okkur þegar við stauluðumst heim á leið.

Við biðum í tuttugu ár þar til við sögðum frá.

Við fórum ekki á Neyðarmóttökuna.

Við fórum á Neyðarmóttökuna þremur dögum síðar.

Við gengumst undir sýnatöku á Neyðarmóttökunni.

Við gengumst ekki undir sýnatöku.

Við kærðum.

Við kærðum ekki.

Við mundum ekki hvað hann hét.

Við mundum ekki hvernig hann leit út.

Við mundum ekki hve margir þeir voru.

Við breyttum sögunni eftir því sem fleiri smáatriði rifjuðust upp fyrir okkur.

Við breyttum sögunni okkar í það sem við afbárum að lifa með.


Fólk sem hefur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi veit að til eru góð fórnarlömb og léleg fórnarlömb. Góðu fórnarlömbin eru auðvitað ekki til, en þau eru skýrt skilgreind hugmynd um fórnarlömb. Ráðist er á þau í dimmu húsasundi af þekktum glæpamanni sem er með hníf eða byssu. Þau eru ekki klædd í ögrandi föt. Þau kæra strax atburðinn til lögreglu og gangast fús undir skoðun og sýnatöku. Þau búa sig vel undir réttarhöld. Þau angra ekki saksóknarann meðan hann eða hún er að undirbúa sig fyrir réttarhöldin. Þau eru venjulegar stelpur eða strákar sem gætu búið í næsta húsi. Þau eiga skilið réttlæti því fórnarlambshlutverk þeirra er réttmætt.

Hinsvegar er hinn ljóti sannleikur sá að meira segja þessi „góðu fórnarlömb“ fá líklega ekki réttlætinu framgengt í dómskerfinu eða samfélaginu.

Í síðasta mánuði birti Rolling Stone grein um nauðgun við Virginíuháskóla og þar var sögð saga af Jackie, ungri stelpu sem var hópnauðgað í partíi sem haldið var af bræðrareglu við skólann. Fólk tók strax afstöðu, eins og það væri hægt að taka afstöðu í þessu máli. En svo kom í ljós að Rolling Stone hafði misstigið sig illilega og á óafsakanlegan hátt þegar greinin var skrifuð. Og nú fleygðu þeir Jackie, sem ekki hafði viljað segja sögu sína, fyrir úlfana.. Þeir sögðu að þeir hefðu ekki átt að treysta henni. Þeir sögðu að það væri ósamræmi í frásögn hennar. Svo bökkuðu þeir með það en of hljóðlega miðað við skaðann sem var orðinn. Nú hafa herbergisfélagi Jackie frá fyrsta ári hennar við skólann og pabbi hennar lýst því yfir að Jackie sé ekki að ljúga. Í réttarsal almenningsálitsins þarf Jackie vitnisburð sem styður frásögn hennar. Ofbeldið gegn henni stigmagnast.

Mikill fjöldi fólks fagnar viðbrögðum Rolling Stone því nú getur það haldið í þá trú sína að nauðganir séu ekki faraldur, að slíkir voðaatburðir gerist ekki ógnvekjandi oft. Gleði þeirra er mjög áberandi.

Ég er ekki blaðamaður en því meira sem ég skrifa texta sem ekki er skáldskapur því meira skil ég hvað reglum verður að fylgja og afhverju þær skipta máli. Í fyrstu skildi ég ekki hvaða máli það skipti að blaðamaðurinn, Sabrina Rubin Erdely, hafði sleppt því að tala við hina meintu nauðgara. Mig skiptir engu hvað þessir meintu nauðgarar höfðu að segja. Hverju myndu þeir bæta við blaðagreinina öðru en „ég neita að ræða þetta“. En núna skil ég mikilvægi þess að reyna að minnsta kosti að fá staðfestingu á sögunni. Ég skil að það þjónaði hagsmunum Jackie að Rolling Stone greindi rétt frá og vandaði til verka. Ég skil hvernig Rolling Stone brást þessari ungu konu og gerði öllum þolendum kynferðisofbeldis óleik.

Enn einu sinni erum við að berjast fyrir að fórnarlömb séu tekin trúanleg um það sem er of hræðilegt til að það sé tilbúningur.

Ég er lélegt fórnarlamb. Lengi vel sagði ég engum hvað kom fyrir mig. Ég leyfði stráknum, sem bauð vinum sínum afnot af mér, að halda áfram að ríða mér eftir nauðgunina því líkami minn skipti ekki máli. Það sem ég vildi skipti ekki máli. Krakkarnir í skólanum sögðu að ég væri drusla, svo ég tók mér það hlutverk. Ég kom mér í hættulegar eða óheilbrigðar aðstæður næstu tuttugu árin, lengur ef satt skal segja, því það var það sem ég átti skilið, því ég var að reyna að hitta aftur á þessa ögurstund, þótt ég viti ekki hverju ég var að leita að. Ég eyðilagði líkama minn á ýmsan hátt og nú er ég að reyna að endurbyggja þennan sama líkama. Ég gerði það sem ég þurfti að gera. Ég reyni að vera ekki uppfull af skömm alla daga.

Flest fólk sem hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi er lélegt fórnarlamb á einhvern hátt. Við fylgjum ekki handriti. Það er ósamræmi í frásögn okkar og vali. Fyrst reyndum við einfaldlega að lifa af, og þegar við erum heppin, reyndum við að lifa eftir bestu getu.

___
Þýtt með leyfi höfundar.

Efnisorð: