miðvikudagur, desember 31, 2014

Áramótaannáll 2014

Það væri ansi skemmtilegt — þó ekki væri nema sem tilbreyting — að ég skrifaði hér lista yfir hvaða föt ég hef keypt mér á árinu, bíómyndir sem ég hef horft á og hvaða tónlist dillaði mér mest. Í staðinn ætla ég að vera jafn ólekker og venjulega og jafnvel bæta í með því að taka saman yfirlit yfir það vonda og erfiða sem ég man eftir að hafi dunið yfir á árinu sem er að líða. Sumt er dregið uppúr eigin brigðula minni, sumt tekið upp eftir öðrum, jafnvel heilu greinastúfarnir.


Erlent

Á árinu var þess minnst að hundrað ár eru liðin frá upphafi heimsstyrjaldarinnar fyrri. Einu mannskæðasta stríði sem þá hafði verið háð og sem var algjörlega tilgangslaust.
Um nokkurt skeið hafði ríkt mikil framfaratrú sem beið hroðalegt skipbrot í heimsstyrjöldinni. Eftir hana var ekki lengur hægt að trúa því að gamlir kallar með útbólgið sjálfsálit væru manna bestir í að leiða heiminn, ekki eftir að þeir höfðu fórnað öllum þessum mannslífum í tilgangsleysi. Í kjölfarið minnkaði virðing fyrir eldri kynslóðinni og yngri kynslóðirnar fóru í auknum mæli að taka eigin ákvarðanir og gefa skít í „svona höfum við alltaf gert það“ og fór að klæða sig öðruvísi og leyfa sér fleira í samskiptum en áður mátti.

Það vantaði heilu árgangana af karlmönnum hjá þeim þjóðum sem tóku þátt í stríðinu, fjölskyldur höfðu misst, syni, bræður, unnusta og eiginmenn. Margar konur giftust aldrei af þeim sökum (sem svo aftur orsakaði að þær fóru frekar á vinnumarkaðinn) þótt þær hefðu gjarnan viljað stofna fjölskyldu. Karlmennirnir sem þó komu lifandi heim voru stórlega skaddaðir á sál og líkama, og engin áfallahjálp í boði. Hundrað árum síðar er enn verið að drepa fólk í nafni þjóðernis eða trúar, og fæstir eftirlifenda eða þeirra sem særast fá neina hjálp.

Stríð í Evrópu
Rússland Pútíns beitti hervaldi á Krímskaga. Auðunn Atlason skrifar þetta um það:
„Margir héldu að hernaðarátök í Evrópu væru óhugsandi á 21. öld. Það reyndist ekki rétt. Í mars sem leið breyttu Rússar landamærum með hervaldi þegar þeir tóku yfir Krímskaga. Þeir létu kné fylgja kviði og studdu og styðja enn vígamenn og aðskilnaðarsinna með ráðum og dáð, vopnum og mannskap. […] Það hefðu fáir trúað því fyrirfram að á árinu 2014 – einni öld frá því að fyrri heimsstyrjöldin braust út og 75 árum frá upphafi síðari heimsstyrjaldar – myndu hernaðarátök milli tveggja grannríkja hefjast í miðri Evrópu. […] Átökin í Úkraínu eru því oft sögð vera margbrotin og erfitt að henda reiður á orsökum og ástæðum. […] En um leið er Úkraínumálið einfalt. Því hvernig sem á það er litið gnæfir upp úr að hervaldi var beitt. Grundvallarprinsippið um friðsamlega lausn deilumála, sem er grunnurinn að alþjóðalögum og alþjóðakerfinu sem varð til eftir seinna stríð, var brotið. Það var Rússland sem ákvað að beita hervaldi á Krímskaga[…]“

Mótmæli
Hong Kong búar mótmæltu skorti á lýðræði.
Bandaríkjamenn mótmæltu því viðhorfi lögreglunnar að skjóta blökkumenn fyrst og spyrja svo.

(Íslendingar mótmæltu líka hressilega í útlöndum, hver getur gleymt Vetrarólympíuleikunum í Sochi þar sem Illugi var með trefil?)

Sjúkdómar og hryðjuverk
Ebólufaraldur blossaði upp í vesturhluta Afríku. Boko Haram stundaði mannrán og myrti og ógnaði nígerískum almenningi. Önnur og ekki skárri íslömsk hryðjuverkasamtök í Sýrlandi og Írak komust í heimsfréttir fyrir viðbjóðslega meðferð á fólki í Írak og Sýrlandi þar sem enn stendur borgarastyrjöld sem hefur fallið í skuggann af hrottaskap ISIS.

Þrælahald
36 milljónir manna búa við þrældóm samkvæmt nýrri skýrslu samtaka sem berjast gegn þrælkun og ánauð. Flestir þrælar eru á Indlandi. 1/2% mannkyns býr við nútímaþrælahald samkvæmt skýrslu Walk Free-samtakanna.

Þá er átt við fólk sem neytt er í þrælkunarvinnu, fórnarlömb mansals, er í skuldaánauð, neytt í hjónaband eða vændi. Þetta er mikil fjölgun frá 2012 þegar 21 milljón var talin búa við þrælahald en skýrsluhöfundar telja að það sé vegna betri aðferðafræði við söfnun gagna frekar en að þrælum hafi fjölgað svo mikið. Fæstir þrælar eru í Evrópu en Afríka og Asía eiga lengst í land í að útrýma þrælahaldi.

Flestir hafa verið hnepptir í ánauð á Indlandi eða 14 milljónir manna. Þar á eftir er Kína með 3 milljónir. Þar á eftir er Pakistan, Uzbekistan og Rússland. Hæsta hlutfallið er í Máritaníu þar sem 4% þjóðarinnar búa við þrældóm. Samtökin krefjast þess að ráðamenn beiti sér mun meira í baráttunni gegn þrælahaldi og kalla eftir betri samvinnu milli landa. (Tekið orðrétt uppúr frétt á RÚV.)

Þetta var ekki ár barnsins
Þeir sem nú lifa hafa aldrei orðið vitni að jafn ólýsanlegri grimmd gagnvart börnum og á árinu sem senn er á enda runnið. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, segir að milljónir barna hafi þjáðst vegna stríðsátaka og á flótta á árinu. Börnum hefur verið rænt, þau pyntuð, þeim nauðgað eða seld í þrældóm í meira mæli en dæmi eru um á vorum tímum. Rúmlega 15 milljón börn þjáðust vegna átaka í Írak, Sýrlandi, Úkraínu, Suður Súdan, Mið-Afríkulýðveldinu og á Gaza. Tugþúsundum barna hefur verið rænt af vopnuðum hersveitum sem neyða þau til að taka þátt í hernaði eða beita þau ofbeldi. Árásum á skóla og spítala hefur fjölgað. Á Gaza féllu 583 börn og yfir 3000 slösuðust. Að minnsta kosti 700 börn dóu, slösuðust eða voru hreinlega tekin af lífi í Írak. 130 börn létust í árás talibana á skóla í Pakistan. Borgarastyrjöldin í Sýrlandi hefur haft áhrif á 7.3 milljónir barna, þ.á m. 1.7 milljón börn sem eru á flótta, en í Mið-Afríkulýðveldinu hefur ástandið haft áhrif á líf 2.3 milljóna barna.

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna áætlar að 230 milljónir barna um allan heim hafi orðið fyrir áhrifum vopnaðra átaka.

Í Suður-Súdan er talið að 235.000 börn yngri en fimm ára þjáist af alvarlegri og bráðri vannæringu. Í Gíneu, Líberíu og Síerra Leóne, sem hafa orðið verst úti í ebólufaraldrinum, eru minnst 5 milljónir barna á aldrinum 3 til 17 ára án kennslu vegna ástandsins. Þúsundir barna hafa misst annað foreldri eða báða foreldra af völdum ebólu. Og er þá fátt eitt talið af því sem börn hafa þurft að upplifa og þola á því herrans ári 2014.

Góðu tíðindin af börnum þessa heims er Malala. Hún fékk friðarverðlaun Nóbels (þótt hún væri bara barn að aldri; hér nota íþróttafréttamenn aldur kvenna sem afsökun fyrir að veita þeim ekki heiðursnafnbótina Íþróttamaður ársins)ásamt öðrum baráttumanni fyrir réttindum barna til menntunar og mannsæmandi lífs.


Innlent

Árið sem er að líða var hræðilegt, ekkert bendir til annars en næsta ár – og öll þau sem þessi ríkisstjórn verður við völd — verði enn verra. Frjálshyggjutilraunin sem rak upp á sker 2008 er nú meira en bara tilraun. Nú á að skrúfa fyrir opinbera þjónustu svo að fólk neyðist til að styðja einkaframtak í heilbrigðisþjónustu, menntun og fjölmiðlun. Ríkisstjórnin hyglir efnafólki en rekur alla þá sem þurfa á félagslegri þjónustu að halda út á guð og gaddinn. Það kom enda í ljós að miðaldra hvítir karlar eru sáttastir við ráðherra ríkisstjórnarinnar. Þeirra menn.


Ríkisstjórnin og afrek hennar
Listinn yfir „afrek“ ríkisstjórnarinnar er langur og mjög niðurdrepandi, en hér verður stiklað á stóru með aðstoð annarra.

Fyrst þó þetta, málið sem átti að vera rós í hnappagat ríkisstjórnarinnar: stóra skuldaleiðréttingin. Eftir allskonar yfirlýsingar um að þetta væri allt að gerast var umsækjendum um lækkun-húsnæðisskulda-sem-renna-beint-til-bankanna-sem-annars-hefðu-afskrifað-stærstan-hluta-skuldanna gefinn kostur á að sjá nákvæmlega hvernig skuldirnar ættu að lækka og samþykkja gjörninginn. Tímasetningin var … sérstök, því þetta loksins komst í gagnið milli jóla og nýárs. Þarafleiðandi varð engin umræða (sem ríkisstjórnin er orðin þreytt á) og enginn rýndi í tölurnar. Mál hefur sjaldan verið þagað svona heppilega í hel.

Af þessu tilefni er ágætt að rifja upp skoðun Björns Vals Gíslasonar varaformannsVinstri grænna á glærukynningu ríkisstjórnarinnar í nóvember (þessari sem var svo mikil gleðistund að Sigmundur Davíð nennti ekki að ræða hana í þinginu).

Nýverið sagði Björn Valur einnig þetta:
„Ríkisstjórnin hefur uppi ómarkviss og óljós áform upp flutning stofnana um landið þvert og endilangt, mest þó til Skagafjarðar. Boðuð er lagabreyting til að auðvelda ráðherrum að flytja fólk og stofnanir og starfsfólk á milli stofnana. Forystufólk ríkisstjórnarflokkanna á Alþingi boðar lagabreytingar sem auðvelda eigi að reka fólk úr störfum.[…] Á síðustu dögum þingsins gekk svo þingmeirihluti hægrimanna enn lengra í aðgerðum sínum gegn almenningi en óttast var. Þá hækkuðu þau skatt á mat, bækur og menningu um 60 prósent. Einnig voru réttindi atvinnulausra verulega skert frá því sem var, þrátt fyrir minnkandi atvinnuleysi. Þá stóð meirihlutinn við ítrekaðar hótanir sínar gagnvart RÚV. Niðurskurðurinn á RÚV var vegna þess að stofnunin sagði ekki stöðugar fréttir af afrekum leiðtoganna. Skattlagning á mat og bækur dugði ekki og boðað var frumvarp um skattlagningu á fólk fyrir að skoða náttúru landsins. Samt dugði þessi skattlagning ekki til að lækka lyfjakostnað eða auka við almannatryggingar. Skattlagningin dugði heldur ekki til að bjóða fólki eldra en 25 ára í nám í framhaldsskólum.“

Læknaverkfallið
Nógu slæmt er að læknar sjá sig tilneydda til að fara í verkfall, verra eru viðbrögð Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra sem segir að enginn geti „áskilið sér kjarabætur langt langt umfram það sem allir aðrir geta haft væntingar um“.

Agnar Kr. Þorsteinsson bendir á móti á þetta:
„Manni verður hugsað til þess að á árinu kom það fram að allt að 40% hækunar launa stjórnenda, meðaltalshækkun forstjóra upp á 13%, stórhækkanir á launum stjórnarmanna og launaskirðs í fjármálageiranum að ógleymdum brjáluðum bónusum til handa forstjóra N1 og fleiri slíkra sem sögðu við launafólk að það ætti að láta sér duga 2,8% brauðmola af allsgnægtarborði hinna ríku.“

Viðhorf fjármálaráðherra hafa auðvitað ekkert með launakröfur lækna að gera, heldur þá stefnu Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn (sem Framsókn samþykkir gegn því að fá að flytja stjórnsýsluna í Skagafjörð og koma hinni umdeildu skuldaleiðréttingu í gegn (sem Sjálfstæðismenn eru ekkert hrifnir af en samþykkja til þess að koma sínu helsta áhugamáli í framkvæmd) að draga svo mjög úr opinberri þjónustu — heilbrigðisþjónustu, skólarekstri, almannaútvarpi — að einkaaðilar geti tekið við og grætt á þjónustu sem hinir efnameiri geta leyft sér. Frjálshyggjuþjóðfélagið.

Náttúran
Einföld stefna ríkisstjórnarinnar: Það stendur til að rústa öllu. Miðhálendið á að leggja undir vegi og raflínur, virkja á hverja sprænu. Rest verður alsett skúrum til að skoða náttúrupassa.


Athyglisverða nafnbreyting ársins
Landssamtök íslenskra útvegsmanna heita nú Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, skammstafað SFS, og því verður í framtíðinni ekki hægt að lesa fréttir um fyrri afrek útgerðarmafíunnar - eða skoðanir fólks á LÍÚ - nema muna að áður hét fyrirbærið öðru nafni. En þetta er fín nafnabreyting og vonandi trúa allir landsmenn að þetta séu hlutlaus fyrirtæki í stað óvæginna útvegsmanna.

Það fer vel á að enda upptalninguna á vondu fréttum ársins af innlendum vettvangi — þó hún sé hvergi nærri fullnægjandi — á þessari smáfrétt af LÍÚ/SFS. Samtökin halda um stjórnartaumana ásamt Samtökum atvinnulífsins og skagfirska efnahagssvæðinu.

Ef eitthvað á að breytast í þessu þjóðfélagi — sem er eina þjóðfélagið í eina landinu sem við getum með nokkru móti haft alvöru áhrif (ef þá það) — þá þarf að koma þessari ríkisstjórn frá. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skrifaði frábæra hugvekju í fyrradag um einmitt það efni. Hún telur fyrst upp margt af því sem hér hefur verið nefnt að ofan og bætir ýmsu við (lesa endilega það allt hér) og segir svo í lokin:

„Ríkisstjórnin er rúin trausti, fullkomlega skilningssljó og sendir hrokafull skilaboð til launafólks. Getum við sameinast um að nýársheitið fyrir árið 2015 verði að koma þeim frá?“

Ég sé ekkert annað í stöðunni og fyrir mitt leyti segi ég já.

Efnisorð: , , , , , , , , , , ,