mánudagur, janúar 05, 2015

Ríkisútvarpið, efnistökin og þáttagerðarfólkið

Einn af fjölmörgum kostum hlaðvarps Ríkisútvarpsins er sá að þangað er hægt að sækja útvarpsefni sem er tekið að eldast (mætti þó vera hægt að sækja áratugi aftur í tímann) og hlusta á þegar tækifæri gefst eða hlustandinn er rétt innstilltur fyrir nákvæmlega þetta útvarpsefni.

Ríkisútvarpið, eins og allir eiga að vita, er mikill fjársjóður menningarneytandans, tónlistaráhugafólksins og allra þeirra sem hafa áhuga á samtíma sínum og samfélagi, fortíðinni og samhengi hlutanna.

Má ég kannski örlítið minnast á áhyggjur mínar af Ríkisútvarpinu? Ríkisstjórnin, með Framsóknarfólk í broddi fylkingar, ætlar að ganga milli bols og höfuðs á Ríkisútvarpinu, hafi það farið framhjá einhverjum. Og hafi það farið fram hjá einhverjum að þegar er Ríkisútvarpið magurt og tekið af margra ára svelti, þættir hafa þegar verið felldir úr dagskrá og starfsfólki sagt upp; en nú á semsagt að greiða því náðarhöggið.

Það hefur ekki verið talað við rétt fólk, að mati Framsóknar, réttu fólki hefur ekki verið sýnd tilhlýðileg virðing, og svo veður uppi allskonar villutrú sem ekki samrýmist þjóðlegum anda, sem er eins og allir vita: gagnrýnisleysi. Já, gott ef ekki gagnrýnisleysið var gert hlægilegt í Áramótaskaupi Sjónvarpsins, og bara almenningur yfirleitt fyrir að vera ekki farinn af landi brott, þessir ágætu kjósendur ríkisstjórnarflokkanna sem einnig voru svoleiðis harðlega gagnrýndir að það dugði ekkert annað en slökkva á gamla lúna flatskjánum (munur að geta keypt nýjan þegar búið er að fella niður vörugjöldin!) til að losna undan þessari endalausu neikvæðni sem send er úr Útvarpshúsinu linnulaust.

Ekki veit ég hvort öllu efni sem áður var gert af menningarlegum metnaði og samfélagslegri ábyrgð verður hent úr hlaðvarpinu eða látið nægja að skrúfa fyrir sem flesta þætti sem unnir hafa verið í þeim anda. Hvort öllu gömlu og góðu verði hent eða bara séð til þess að ekkert slíkt verði framar til.

Kannski sleppur tónlistin við niðurskurðinn og þættir sem sinna tónlist sérstaklega. Víðsjá — sem er einn af þessum gagnrýnu þáttum — fjallar mikið um tónlist af öllu tagi, ekki síst sígilda tónlist og tekur viðtöl við heimsfræga flytjendur sem og tónlistarskólanemendur, tónskáld og skipuleggjendur tónlistarviðburða. Það er vafamál hvort hlustendur Víðsjár næðu sjálfir að fylgjast svo vel með að þeir vissu um alla þá tónlistarviðburði sem fjallað er um í þættinum, af mikilli þekkingu þáttagerðarmanna jafnt sem viðmælenda. Þekking þáttagerðarmanna, dýpt viðtala og úthugsuð efnistök á reyndar líka við um fleiri listgreinar sem fjallað er um í þættinum t.a.m. leiklist, en þetta með tónlistina hefur orðið mér umhugsunarefni því aldrei verður mér eins ljóst hvað er mikið sprúðlandi tónlistarlíf á Íslandi eins og þegar ég hlusta á Víðsjá, að öllum öðrum þáttum Ríkisútvarpsins ólöstuðum.

Þetta fór ég allt að hugsa þegar ég hlustaði á þátt af hlaðvarpinu sem var hvorki Víðsjá né Samfélagið (sem áður hét Sjónmál; undir báðum nöfnum hafa efnistök og þáttastjórnendur verið með eindæmum góðir) en fjallar um eitt magnaðasta verk tónlistarsögunnar, sjálfan Niflungahringinn eftir Richard Wagner.

Niflungahringurinn er ekki síst frægur fyrir að vera mikil þolraun því alls tekur hann 14 klukkustundir í flutningi — og reynir þá ekki síst á hlustandann. En í þættinum, sem var í umsjón Arndísar Bjarkar Ásgeirsdóttur og Atla Freys Steinþórssonar (hann sá að mestu um að flytja hið talaða mál) var farið yfir efnið á hundavaði og hét þátturinn „Fjórir hræðilegir stundarfjórðungar“ Niflungahringurinn á 60 mínútum. Þessi þáttur fór alveg framhjá mér þegar hann var fluttur í Ríkisútvarpinu fyrir einu og hálfu ári en ég rakst á hann á hlaðvarpinu og hugsaði með mér að nú væri lag, það hlyti að vera hægt að þola Wagner í klukkutíma jafnvel þótt sjálfseyðingarhvöt mín hafi aldrei verið svo mikil að mig hafi langað til að upplifa Niflungahringsflutninginn allan eins og hann kemur af skepnunni. Og mikið rétt, þetta var bara bærilegt. Eða öllu heldur bráðskemmtilegt. Ekki átti ég von á að skella uppúr á þessum fjórum stundarfjórðungum sem ég varði í hlustunina, en það gerði ég þó oftar en einu sinni. Þar skipti mestu kímnigáfa Atla Freys sem lífgaði heldur en ekki uppá hádramatíkina hjá Wagner, en var þó fullur aðdáunar og þekkti greinilega tónverkið afturábak og áfram, tengdi það við fornar bókmenntir og nýjar bíómyndir og var í einu orði sagt (eða tveimur) sannkallaður gleðigjafi.



Þessi þáttur hefði aldrei ratað á dagskrá Bylgjunnar eða neinnar annarrar útvarpsstöðvar sem ríkisstjórnin ímyndar sér að muni taka við menningarhlutverki Ríkisútvarpsins. Hann hefði fyrirfram verið sleginn af, ekki hlotið náð fyrir eyrum stjórnenda sem hugsa um auglýsingatekjur og hlustunartölur. Aldrei.

Það er aðeins í metnaðarfullum stofnunum á borð við ríkisrekið almannaútvarp sem hægt er að gera svona þátt, koma honum fyrir í dagskránni þar sem dyggir hlustendur sitja um hann og njóta (á laugardagskvöldi hugsið ykkur, og engar pizzur í boði gegn því að þekkja lagið), og geyma hann svo um ókomna tíð svo sem flestir fái notið hans. Ríkisútvarpið — en ekki markaðsdrifnar útvarpsstöðvar — getur og á að halda úti þáttum sem fjalla af dýpt og þekkingu um samfélagið og menninguna. Líka þegar efnið höfðar til fárra eða strýkur stjórnarherrum andhæris.

Ég hef skömm á ríkisstjórninni fyrir aðförina að Ríkisútvarpinu.

Efnisorð: , ,