þriðjudagur, janúar 27, 2015

Kallarnir í kerfinu með eigin skoðun á því hvað megi bjóða konum uppá

Fyrir skömmu birti Hildur Fjóla Antonsdóttir skýrslu um rannsókn sem hún vann fyrir Innanríkisráðuneytið um „viðhorf og reynslu fagaðila sem starfa við meðferð nauðgunarmála innan réttarvörslukerfisins“ sem sýnir að konur sem kæra nauðgun mæta afturhaldssömum körlum í kerfinu sem minnkar líkurnar á að mál þeirra fái sanngjarna meðferð fyrir dómi.

Má lesa úr skýrslunni að ein helsta ástæða fyrir því að menn séu sýknaðir af nauðgun er viðhorf dómara til nauðgunar- og kynferðisbrotamála. Helga Vala Helgadóttir lögmaður segist helst mæta úreltum viðhorfum þegar um er að ræða mál er varða ofbeldi í nánum samböndum. Þar séu úrelt viðhorf ríkjandi bæði hjá rannsakendum og dómurum. Persóna dómara og mannleg reynsla þeirra skiptir máli við meðferð þeirra á nauðgunar- og kynferðisbrotamálum, eins og kemur fram hjá Hildi Fjólu, og hlýtur þá einnig að skipta máli ef þeir eru með gamaldags skoðanir á hlutverki kvenna eða eru jafnvel með kvenfjandsamleg viðhorf.

Þá kemur fram að margir „venjulegir menn“ eru kærðir fyrir nauðgun „en sá hópur er hlutfallslega lítill þegar kemur til ákæru“. Málin fara semsagt ekki frá fyrir dóm. En fari mál þeirra fyrir dóm þá njóta þeir sérstakrar velvildar dómaranna, því þeir samsama sig ofbeldismönnunum (ég fullyrði að þetta gera lögreglumenn líka og það sé ein ástæða þess að illa er unnið í nauðgunarmálum og þau leiða ekki til ákæru), þ.e. sjá menn eins og sig — venjulega menn í venjulegu starfi — og dæma þá síður seka, eða dæma þá vægar en þá sem eru útlendingar, dópistar eða hafa brotaferil eða „eiga við félagsleg-, geðræn, eða áfengisvandamál að stríða“. Þeim finnst semsagt annaðhvort ólíklegt að „venjulegir menn“ fremji nauðganir eða finnst glæpurinn ekki svo stórvægilegur miðað við hvað það yrði íþyngjandi fyrir svona næs gæja að sæta refsingu. Þetta kemur svosem ekkert á óvart en ágætt að fá það staðfest með skýrslunni.

Nú hefur Hæstiréttur fellt úr gildi þrjú nálgunarbönn sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krafðist gegn mönnum sem höfðu beitt ofbeldi og hótunum gegn konum sem þeir höfðu átt í sambandi við og einn þeirra að auki hefnt sín með því að birta nektarmyndband af konunni á netinu.

„Nálgunarbönnin voru sett á menn sem grunaðir eru um að hafa brotið gegn fyrrverandi sambýliskonum sínum. Lögregla taldi konunum stafa ógn af mönnunum og að ekki væri unnt að vernda friðhelgi þeirra með öðrum og vægari hætti en nálgunarbanni.“

Hæstiréttur fellir hinsvegar úrskurðinn úr gildi á þeim forsendum að í einu málinu vanti gögn um fyrri afbrot mannsins, „í öðru sé hálft ár liðið frá ofbeldinu og ekkert bendi til þess að það endurtaki sig og í því þriðja eru rökin svipuð.“ Það virðist því ljóst vera að „Hæstiréttur skilji ekki alvöru málsins þegar kemur að heimilisofbeldi“.

Afstaða Hæstaréttar til nálgunarbanns er auðvitað alveg í stíl við það sem fram kemur í rannsókn Hildar Fjólu. Þótt einn angi löggæslu og réttarkerfisins taki málstað brotaþola alvarlega, þá er réttur hins venjulega íslenska karlmanns, á öðrum stigum málsins, hærri en eitthvert kerlingavæl.

Reykjavíkurborg ákvað í fyrra í samvinnu við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu að vinna markvisst gegn heimilisofbeldi og öðru kynbundnu ofbeldi. Halldóra Gunnarsdóttir, sérfræðingur Reykjavíkurborgar í jafnréttismálum, segir að sá möguleiki á að nýta nálgunarbannið hafi verið afar lítið notaður og þetta sé e.t.v. upphafið af því að nota hann í meira mæli „og ef þetta eru viðbrögð hæstaréttar þá er þessi lagaheimild ekki að gagnast.“

Alda Hrönn Jóhannsdóttir aðstoðarlögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins segir að árið 2005 hafi tekið gildi verklagsreglur um heimilisofbeldi en lögreglan hafi ekki unnið eftir þeim að öllu leyti. „Viðhorf lögreglunnar og samfélagsins var stundum að þetta væru einkamálefni fólks.“ Og lögregluembættin létu þess mál bara danka.

Breyting varð á þegar lögreglan á Suðurnesjum undir stjórn Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur hóf að fara eftir verklagsreglunum. Nú er Sigríður Björk orðin lögreglustjóri í fjölmennasta umdæmi landsins, höfuðborgarsvæðinu. Hún er reyndar umdeild um þessar mundir vegna (grunsamlegrar) aðkomu hennar að lekamálinu og allt eins líklegt að hún verði ekki lengi í þessu starfi. Það er miður fyrir þennan málaflokk því Sigríður Björk er líklegust til að koma honum í sæmilegt lag (best væri auðvitað ef heimilisofbeldi yrði úr sögunni) en það má þá allavega vona að eftirrennarar hennar verði ekki svo skyni skroppnir að hætta að vinna í málaflokknum heldur fylgi þeim verkferlum sem greinilega eru komnir í gang hjá embættinu.

Eftir stendur að jafnvel þótt eitt embætti eða ein manneskja kunni og noti rétt viðbrögð og aðferðir þegar upp kemst um heimilisofbeldi og ofsóknir fyrrverandi maka, þá dugir það ekki til ef restin af mannskapnum í kerfinu er föst í gamalli heimsmynd þar sem konum ber að þola allt það sem karlmenn bjóða þeim uppá: barsmíðar, nauðganir, hótanir, hefnd.

Efnisorð: , , , , , , ,