föstudagur, júlí 25, 2014

Það er komin ný lögga í bæinn

Fyrirvaralaust er tilkynnt um nýjan lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. Það má auðvitað velta því fyrir sér hvort Hanna Birna hafi verið að setja þæga manneskju í starfið sem muni skila réttri niðurstöðu ef til kemur að rannsaka þurfi lekann úr innanríkisráðuneytinu nánar, eða hvort ráðningin sé vinsældaleit innanríkisráðherrans sem slær tvær flugur í einu höggi: ræður konu sem að auki hefur stýrt einhverju jákvæðasta og besta framtaki sem sést hefur hjá lögregluembætti hér á landi.

Markmiðið verkefnis Lögreglunnar á Suðurnesjum hefur verið að bæta rannsóknir í málum er varða heimilisofbeldi með markvissari fyrstu viðbrögðum lögreglu, fækka ítrekunarbrotum, bæta tölfræðivinnslu, aðstoða þolendur og gerendur markvisst, nýta betur úrræði um nálgunarbann og brottvísun af heimili og að mál ná fleiri málum í gegnum refsivörslukerfið (úr frétt). Rúna í Stigamótum hefur hrósað Suðurnesjalögreglunni sérstaklega fyrir þetta framtak og sagt:

„Stígamótum líst vel á frumkvæði lögreglunnar á Suðurnesjum en þar ber þolandi heimilisofbeldis neyðarhnapp þar sem hætta er á að brotamaður brjóti nálgunarbann … Þetta er einfaldlega sýnikennsla í því hvað hægt er að gera í íslenska kerfinu ef forgangsröðunin er rétt og ef viljinn er fyrir hendi … Á Suðurnesjum hafa þau líka verið að framfylgja lögum sem kveða á um það að ef ofbeldismenn haga sér ekki skikkanlega þá er þeim vísað af heimilum. Lög gera einmitt ráð fyrir því að svona sé þetta gert en því hefur bara ekki verið framfylgt.“

Nú hafa Suðurnesjamenn misst Sigríði Björk Guðjónsdóttur sem stóð fyrir þessu framtaki og fá annan lögreglustjóra. (Ekki eru býttin góð — þangað fer Þvagleggur sjálfur — ekki verður það til að auka vinsældir Hönnu Birnu). En Sigríður Björk hefur þegar tilkynnt að hún vilji „sjá einhverjar af þeim áherslum sem við höfum staðið fyrir á Suðurnesjum í höfuðborginni, eins og áherslur á heimilisofbeldi.“

Það er vonandi að einmitt þessi ástæða hafi orðið til þess að Hanna Birna hafi (þrátt fyrir efasemdir um heilindi hennar í þessu máli sem öðru) handvalið Sigríði Björk í embætti lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins. Og ég vona sannarlega að Sigríður Björk haldi áfram á þeirri braut sem hún markaði á Suðurnesjum.


Efnisorð: , , ,