þriðjudagur, júní 24, 2014

Talsmenn vændiskvenna eða þeirra sem gera þær út?

Um daginn birtist grein um vændi á Knúzinu og þar var vísað í skýrslu norðurírskrar þingnefndar sem kom út í janúar á þessu ári. Þar kemur fram að írska vændiskonan Laura Lee kom fyrir þingnefnd um mansal á Norður Írlandi en þar var til umræðu hvort lögleiða ætti sænsku leiðina, þ.e. leyfa sölu vændis en refsa vændiskaupendum. Vændiskonan vildi ekki sænsku leiðina, taldi hana skaðlega og færði fyrir því ýmis rök. Þar sem hún kom fram sem talsmaður Alþjóðasamtaka vændisfólks er athyglisvert að lesa það sem hún hefur um samtökin að segja — ekki síst með þá spurningu í huga sem Elísabet Ýr Atladóttir spurði í Knúzgreininni: „Hverjir eru það í raun sem berjast fyrir samþykki vændis og hverjir eru það í raun sem græða einna mest á lögleiðingu og normalíseríngu vændis? “

Þar sem skýrslan er á ensku þýddi ég nokkra búta úr henni (þýðingin er gerð í snatri með fyrirvara um allskyns villur, það er þó ekki villa heldur ásetningur að tala um sex workers sem vændisfólk). Af einhverri ástæðu eru allir þingmennirnir sem vitnað er til karlmenn úr sama flokki, Democratic Unionist Party.

Eftir að Laura Lee hafði kynnt sig og afstöðu sína í löngu máli lagði nefndarformaðurinn fyrir hana spurningu.

Paul Givan, nefndarformaður: Takk fyrir þetta, Laura. Ég vil fá staðfestingu á því hverja þú talar fyrir. Það væri gagnlegt að vita fjölda félaga í Alþjóðasamtökum vændisfólks [e. International Union of Sex Workers]. Þú hefur talað um að þú hafir mikla reynslu, en fyrir hvað margar manneskjur talar þú í þessum samtökum?

Í framhaldinu tjáði Laura Lee sig í löngu máli en spurningunni var ekki svarað og nefndarformaðurinn spurði því aftur og fékk þá þetta svar.

Laura Lee: Það er erfitt að nálgast tölfræði um þetta í Bretlandi því þetta er svo leynileg starfsemi, en það er áætlað að það séu 80þúsund vændismanneskjur í Bretlandi. Þá er átt við allan skalann og telur því meðal annars konur sem fækka fötum fyrir framan vefmyndavélar.

Paul Givan, nefndarformaður: Eru það allt félagar í Alþjóðasamtökunum?

Laura Lee: Nei.

Paul Givan, nefndarformaður: Hvað eru þá margir meðlimir í Alþjóðasamtökum vændisfólks?

Laura Lee: Ég er ekki alveg viss um það. Ég þarf að fletta því upp og láta þig vita.

Paul Givan, nefndarformaður: Málið er að þú sagðist tala fyrir mikinn meirihluta.

Laura Lee: Já.

Paul Givan, nefndarformaður: Ég er að reyna að fá staðfestingu á trúverðugleika samtakanna sem þú talar fyrir. Það er mikilvægt, því að augljóslega munum við vísa til þessa vitnisburðar, og við verðum að vita hvort það sem þú segir kemur frá trúverðugum samtökum. Þannig að, hvað margir meðlimir eru í Alþjóðasamtökum verkafólks?

Laura Lee: Ég verð að athuga það og láta þig vita.

Paul Givan, nefndarformaður: Ok, hvað margir meðlima eru frá Norður Írlandi?

Laura Lee: Góð spurning. Ég veit það í hreinskilni ekki, en ég kemst að því fyrir þig.

Paul Givan, nefndarformaður: Ok, svo þú veist ekki svörin.

[Hér er fellt úr]

Jim Wells: Eru einhverjir dólgar eða aðrir sem hagnast á að skipuleggja vændi í Alþjóðasamtökum vændisfólks?

Laura Lee: Já, sumir meðlimanna eru framkvæmdastjórar.

Laura Lee: Þeir eru semsé dólgar.

Laura Lee: Já, ef þú vilt kalla þá það.

Jim Wells: Þannig að þetta eru ekki bara samtök vændisfólks; heldur einnig þeirra sem stjórna vændisfólki.

Laura Lee: Já.

Jim Wells: Sem hagnast mjög á og stjórna lífi vændisfólks.

Laura Lee: Ég get ekki tjáð mig um hvað aðrir græða.

Jim Wells: Er einn þessara manna Douglas Fox?

Laura Lee: Já.

Jim Wells: Er þér kunnugt um starfsemi Douglas Fox í norðurhluta Englands?

Laura Lee: Já.

Jim Wells: Veistu að hann stjórnar einni af stærstu vefsíðu sem auglýsir fylgdarþjónustu í Bretlandi?

Laura Lee: Nei, mér var ekki kunnugt um það.

Jim Wells: Hann sagði í viðtali við The Northern Echo að hann og eiginmaður hans stjórnuðu vefsíðu sem selur þjónustu vændisfólks.

Laura Lee: Ok. Ég vissi að eiginmaður hans tengdist stjórnun fylgdarþjónustu, en meira vissi ég ekki.

Jim Wells: Svo ég taki upp þráðinn frá spurningum sem Givan lagði fyrir þig, ég er að reyna að átta mig á hvaðan þú kemur. Þú ert frá samtökum sem eru í forsvari fyrir vændisiðnaðinn, þar á meðal eru þeir sem græða fúlgur fjár, eins og Douglas Fox, á að selja konur sem vændiskonur.

Laura Lee: Burtséð frá því, þá tala ég fyrir sjálfa mig sem írska konu sem selur vændi og út frá minni eigin reynslu. Það er það sem skiptir máli hér.

Jim Wells: Ef einn þeirra sem stofnuðu og styrkja samtökin er maður sem hefur viðurkennt að hann rekur vefsíðu sem selur vændi, selur þúsundir kvenna á hverju ári, varpar það öðru ljósi á hvað alþjóðasamtök vændisfólksins er.

Laura Lee: Ég sé ekki hvernig það grefur undan trúverðugleika mínum.

Jim Wells: Hvernig það grefur undan honum, er með þeim hætti að ef þeir sem styðja og jafnvel stofnuðu samtökin hafa gríðarlega hagsmuni af því að selja þjónustu kvenna, þið eruð ekki samtök í forsvari þeirra sem vinna á götunni eða frá íbúð; þú ert í forsvari samtaka sem hagnast gríðarlega á sölu á konum.

[…]

Sydney Anderson: Þú segir að gegnum þessi samtök sértu í forsvari fyrir allt vændisfólk. Við erum ekki með á hreinu hve margir meðlimirnir eru, og við erum að reyna að finna það út. Hins vegar segirðu að öryggi fólks sé misjafnt eftir því hvar það er á skalanum og að þú sért á öruggari enda skalans.

[…]

Jim Wells: Þú bendir réttilega á hörmuleg örlög Petite Jasmine. Það er mjög sorglegt mál og við þekkjum það mál. Það gerðist í Svíþjóð, og síðan 1998 er það eina dæmið um að vændiskona í Svíþjóð hafi verið drepin. Á sama tímabili hafa í Hollandi — eins og þú auðvitað veist er vændi í Hollandi algjörlega löglegt og eftirlitsskylt — 127 vændiskonur verið drepnar. Með þessar tölur í huga, hvernig eru vændiskonur öruggar ef vændi er algjörlega leyft með lögum?
[…]

Paul Givan, nefndarformaður: Í heimalandi okkar [Norður-Írlandi] er það oft vændismanneskjan en ekki kaupandinn sem er kærð. Þetta frumvarp [um að setja sænsku leiðina í lög]setur fókusinn á kaupandann og er ætlað að styðja vændismanneskjuna. Það afglæpavæðir vændismanneskjuna. Kannski hef ég rangt fyrir mér varðandi skömmina, en þegar við vorum í Svíþjóð og spurðum um skömm, fannst vændismanneskjunum þær hafa meira vald. Þeim fannst vörn í því fólgin að geta farið til lögreglunnar og sagt frá ofbeldisfullum einstaklingum. Þær yrðu ekki kærðar, en einstaklingurinn sem beitti ofbeldinu og hafði keypt af þeim kynlíf eða aðra þjónustu af þeim var sá sem lögin myndu beita sér gegn. Ég á erfitt með að skilja að þetta [að setja sænsku leiðina í lög] bæti á skömm vændismanneskjunnar, þegar það ætti í raun að gera hið gagnstæða.

[…]

Jim Wells: Þetta er öruggt starf þar sem 127 konur hafa verið myrtar í Hollandi. Þetta er sama starfið. Allar myrtu konurnar voru vændiskonur í löglegum vændishúsum.

Laura Lee: Já.

Jim Wells: Og þú segir að það sé öruggt.

Laura Lee: Já, mín reynsla er sú að ...

Jim Wells: Samt er starfið óöruggt í Svíþjóð þar sem ein kona hefur dáið síðastliðin 15 ár.
[…]

Jim Wells spyr hana svo hvort hún þekki dólga og þar sem það sé ólöglegt að vera dólgur hvort hún hafi kært þá, sem hún hefur ekki gert. Ekki heldur þann sem græddi 80.000 pund á mánuði [rúmar 15 milljónir króna á núverandi gengi] á að selja konur í Englandi.

Nefndarmenn komast að því með spurningum að fatlaðir fá afslátt. Þeim þykir þó greiðinn heldur dýr samt sem áður (u.þ.b. 20 þúsund kr. í stað 30 þús.) og benda á að verið sé að féfletta varnarlaust fólk.

[…]

Paul Givan, nefndarformaður: […] Þú hefur augljóslega dregið upp þá mynd að þú hafir aldrei sætt ofbeldi og að þú njótir vinnunnar. Finnst þér að við eigum að vernda réttindi þín, eða ganga lengra, lögleiða vændisviðskipti á Norður Írlandi svo að réttur þinn sé tryggður? Ættum við að gera það, með þeirri vitneskju sem við höfum frá norðurírsku lögreglunni [e. PSNI, Police Service of Northern Ireland] að megnið af mansali á Norður Írlandi sé kynlífsþrælasala og að konur og stúlkur sæti hópnauðgunum og þurfi að þola hrikalegt kynferðislegt, líkamlegt og andlegt ofbeldi? Raunar gefur skýrsla Írsku læknasamtakanna [e. Irish Medical Organisation] til kynna að afleiðingarnar fyrir heilsu þeirra sem eru í vændisiðnaðinum séu tólf sinnum líklegri til að deyja snemma en aðrir í samfélaginu. Finnstþér að réttindi þín ættu að vera æðri öllu öðru sem fylgir kynlífsiðnaðnum?

Laura Lee: Ég trúi því að ef tveir fullorðnir einstaklingar eru samþykkir því að stunda kynlíf bak við luktar dyr, hvort sem greitt er fyrir eða ekki, eigi hið opinbera ekki að skipta sér af […]

Bölvuð forsjárhyggjan sem hugar að hagsmunum margra og hindrar jafnvel framtakssama menn í að græða á öðrum. Þá er nú blessað einstaklingsfrelsið betra. Og talsmenn þess eru líka svo einstaklega trúverðugir.

Efnisorð: ,