Sjókvenskan
Þórunn Magnúsdóttir (1920-2008) sagnfræðingur skrifaði tvö rit um sjóskókn íslenskra kvenna. Hið fyrra Sjósókn sunnlenskra kvenna frá verstöðvum í Árnessýslu 1697-1980 (kom út 1984) og hið síðara Sjókonur á Íslandi 1891-1981. Í tilefni sjómannadagsins verður hér leitað fanga í síðarnefnda ritinu sem kom út 1988. (Fellt er út og skeytt saman að geðþótta án þess að þess sé getið hverju sinni, en vísað í blaðsíður til glöggvunar.) Þess má geta að í viðtali við dr. Margaret Wilson um sjósókn kvenna í Akureyrarblaðinu er minnst á þessa þrjátíu ára gömlu rannsókn Þórunnar. Þar kemur fyrir hið skemmtilega hugtak „sjókvenska“.
Sjókonur á Íslandi 1891-1981 byggir á rannsókn sem Þórunn gerði á sjósókn kvenna frá Íslandi.
Á hvers konar skipum eru sjókonur?
Aldur sjókvenna
Störf sjókvenna
Starfsaldur sjókvenna
Birt með fyrirvara um ásláttarvillur, án heimildar.
Sjókonur á Íslandi 1891-1981 byggir á rannsókn sem Þórunn gerði á sjósókn kvenna frá Íslandi.
„Athugað er hvaða störf konur hafa með höndum á skipunum, hvers konar skipum konurnar eru á, hvernig sjósókn þeirra dreifist eftir landshlutum og á mismunandi tímum. Leiast verður við að leiða í ljós hvaða þýðingu þessi starfsvettvangur hefur haft fyrir konur og hvaða hlut þær hafa átt í fiskveiðum og annarri sjósókn Íslendinga á því níutíu ára tímabili sem rannsóknin nær til (7). Eftir þann tíma fjölgar nokkuð þeim konum sem afla sér réttinda til yfirmannastarfa á skipum (11).
Upphaf þessarar rannsóknar er árið 1891 og þá er Reykjavík orðin útgerðarstaður þilskipa til fiskveiða. Upp úr aldamótum bætast svo við flutningaskip og síðan togarar og eimskip til farþega og vöruflutninga. (14). Á þessum tíma unnu konur í Reykjavík við uppskipun og útskipun við höfnina, saltburð, kolaburð og fiskverkun (11).
Fram yfir 1930 er það að mestu strandferðaskip, flóabátar og kaupskip sem skjókonur eru skráðar á í Reykjavík. En þær konmast á síldveiðibáta bæði frá Reykjavík og fleiri stöðum árin 1931-40, Konur höfðu þá 33.535 sjóferðadaga frá Reykjavík. Á heimsstyrjaldarárunum síðari dalaði sjósókn kvenna mjög, en eftirspurn eftir vinnuafli kvenna var mikil í Reykjavík og á öllu Suð-vesturhorninu. Sjötti áratugurinn var sjókonum hagstæðari en sá fimmti og komu þá í gagnið skip af fleiri gerðum og stærðum. Þá fóru sjókonur að gefa sig að sama starfi og þær höfðu á sílsveiðibátum. Þær verða kokkar á dýpkunarskipum, varðskipi og fiskiskipum. Koma nýsköpunartogaranna jók atvinnumöguleika kvenna og ný störf bjóðast. Konur fara að starfa sem brytar og búrmenn, og í vélarrúmi sem smyrjarar og dagmenn (14).
Á Vesturlandi aukast vinnutilboð fyrir sjókonur, þegar flóabátarnir stækka, fjölga ferðum og síðan tók bílferja við ferðum milli Akraness og Reykjavíkur. Hvað aðra sjósókn varðar þá virðist konum ganga einna best að komast í skiprsúm frá Stykkishólmi og Grundarfirði. Má vera að sú virðing sem sjókonur í Breiðafjarðareyjum sköpuðu sér, sé enn lifandi veruleiki á þessum slóðum. Skelfiskveiði virðist ásamt stækkun vélbátaflotans hafa skapað sjókonum mikla atvinnu og jafnframt hefur fiskverkun verið mikil á áttunda áratuginum. Það er næstum eins og sprenging eða að flóðgátt opnist, því að sjóferðadagar kvenna verða á árunum 1971-1980 áttfaldir á við áratuginn á undan (17).
Á Suðurlandi er fátt um heimildir fyrir sjósókn mjög ungra stúlkna, ef undan er skilin Þuríður Einarsdóttir formaður (1778-1863), sem sagnir herma að hafi verið á vorvertíðum frá ellefu ára aldri (29). Hún varð ekki formaður á vetrarvertíðum fyrr en 1817 og hefur því verið háseti í 29 ár og unnið sem fiskimaður og ræðari til fertugs (69). Þar sem heimræði hefur verið á árabátum og trillum á tuttugustu öld eru dæmi um að stúlkur hafi stundað sjó um fermingaraldur“ (29).
Á hvers konar skipum eru sjókonur?
„Frá því að konur komast inn í sjósóknina að nýju á öðrum tugi tuttugustu aldar eru þær á skipum af nær öllu tagi. Kaupskipin urðu fyrsti starfsvettvangur íslenskra sjókvenna á skráningarskyldum skipum, og þar hefur verið um samfelldasta vinnu að ræða og því flesta sjóferðardaga. Kaupskipin hafa einnig haft fleiri konur í starfi en önnur skip flotans á þessu árabili. [Hér nefnir Þórunn millilandaskip Eimkips, farþega flutninga þess og strandferðaskip Skipaútgerðar ríkisins.] Störf á strandferðaskipum hafa þótt erfið og mjög erilssöm, en við þau hafa sjókonur verið í 127.140 lögskráða sjóferðardaga á rannsóknartímabilinu (27).
Konum hefur fjölgað á fiskiskipum, að síldveiðiskipum frátöldum, og þær sinnt þar flestum störfum, eftir að kolakyntu togararnir voru teknir af skrám (27).
Sjókonur hafa starfað á dýpkunar- og sanddæluskipum, fiskiskipum, flutningaskipum, flóabátum, fiskirannsóknarskipum, hvalveiðibátum, kaupskipum, olíuskipum, sjómælinga- og hafrannsóknarskipum, strandferðaskipum, síldveiðiskipum, varðskipum og vitaskipum“ (27-8).
Aldur sjókvenna
„Athyglisvert er að konur um og yfir fimmtugt sækja mjög á í sjósókninnni á sjötta áratuginum og þær næstum að tvöfalda tölu sjóferðadaga sinna næsta áratug á eftir. Þetta eru konur fæddar á fyrstu þremur áratugum tuttugustu aldar og voru í þeim aldurshópum íslenskra kvenna sem fæddu börn sín tiltölulega ungar að árum og koma af krafti inn á almennan vinnumarkað, eftir að hafa lokið uppeldisstörfum (30).
Ræðarar Þuríðar formanns og Halldóru Ólafsdóttur í Hergilsey hafa að jafnaði verið konur á góðum starfsaldri, en ógiftar og flestar barnlausar“ (79).
Störf sjókvenna
„Velflestar þeirra kvenna sem lögskráðar voru á skip á fyrsta fjórðungi tuttugstu aldarinnar, voru skráðar sem skipsjómfrúr, jómfrúr eða þernur (31). Þeim þjónustustörfum sem þær gegna á skipunum fjölgar, þær eru búrmenn og matsveinar (32). Þess má geta að þær konur sem hafa verið á smærri bátum sem matsveinar, hafa flestar tekið „dekkvaktir“ (69).
Fyrsta yfirmannsstaðan sem konur gegna á skipunum er starf bryta, sem er betur launað en þau störf sem konur höfðu haft áður. Hásetar voru konur í 83 daga og sjóferðadagar á árunum 1921-30 voru því 14.099 og var það mikil aukning frá fyrri áratug (32).
Kreppuárin 1931-40 eru sjókonur ekki skráðar til þeirra starfa sem talin voru sérstök karlastörf. Veruleg atvinnutilboð fá sjókonur á síldveiðum, sem allir sjófærir fiskibátar stunduðu á þessum árum (32).
Heimsstyrjöldin síðari hafi gagnger áhrif á íslenskt atvinnulíf og herseta Breta og síðar Bandaríkjamanna raskaði enn frekar atvinnuháttum og búsetu í landinu. Segja má að fiskiskipafloti Íslendinga gengi í þjónustu Breta og var að veðum á öllum hefðbundnum fiskimiðum við Ísland, án tillits til ófriðarhættu. Fiskiskipin sigldu svo með afla sinn til hafna á Bretlandseyjum og urðu því fyrir miklu tjóni á mannslífum og skipum af ófriðarástæðum (32).
Þernur voru enn með flesta sjóferðadaga, þeirra kvenna sem á sjó voru árin 1941-50. Þá voru konur matsveinar á bátum og skipum í stórauknum mæli. Önnur þjónustustörf voru á þeirra höndum sem þjónar og brytar. Störf við fiskveiðar og frágang afla taka konur að sér á þessum tíma og eru hásetar, en nýtt starfsheiti fyrir kvennavinnu er saltari. Nýsköpunartímailið hófst á síðari hluta þessa áratugar, en nýju skipun voru ekki öll komin á flott fyrr en á næsta áratug (32).
Konur er störfuðu að rannsóknum komu fram í skráningu eftir 1950 og voru næsta áratuginn í 98 sjóferðadaga við haf- og fiskirannsóknir og sem leiðangursstjórar (33).
Stórfelldur munur er á milli áratuga á fjölda þeirra sjófeðradaga sem konur starfa sem hásetar. Á fimmta áratuginum voru þær í 189 daga skráðar sem hásetar, en 1951-60 eru sjóferðadagar kvenna sem hásetar komnir upp í 925 (33).
Á árunum 1951-60 fóru konur í 1.156 sjóferðadaga sem loftskeytamenn. Brautryðjandi kvenna í þessu starfi var Hjördís Sævar fædd 1932. Hún var loftskeytamaður á fiskiskipi 1954-62. Hjördís fékk ekki starf við sitt hæfi á íslenskum skipum og réðst því á norskt risaskip í siglingum um heimshöfin. Hún var á sjó til 1983 (33).
Hrönn Hjaltadótir er loftskeytamaður á togaranum Kaldbak frá Akureyri [viðtalið við hana hefur Þórunn úr 19. júní, ársriti Kvenréttindafélagsins sem kom út 1981 en Rannveig Jónsdóttir tók viðtalið). Hrönn ræðir kaup og kjör og segir grunnkaupið lágt, „en við erum upp á hlut. Loftskeytamaður fær sama hlut og annar stýrimaður. En eins og allir vita eru launinn á skuttogurum góð þegar vel veiðist. ég gríp í aðgerð eins og aðrir um borð þegar afli er mikill …“ (61).
Það var á sjötta áratuginum sem konur fara ofan í vélarrúmin og voru smyrjarar í 94 sjóferðadaga og þær tóku svo við vélstjórastarfi í 77 daga (34).
Vélstjóri sem mun hafa aflað sér réttinda erlendis er Brynhildur G. Björnsson, f. 1930, Hún hefur verið á sjó af og til sem matsveinn, bryti og vélstjóri. Brynhildur hefur tvívegis komist af við skipreika, að fyrra sinni út af Þorlákshöfn 1971 og síðar á Breiðafirði 1974 (62).
Í almennri umræðu um atvinnumál og réttindamál kvenna, er gjarnan gert ráð fyrir því að íslenskar konur hafi í vaxandi mæli komið út á almennan vinnumarkað upp úr 1975, eða eftir kvennaár Sameinuðu þjóðanna. Þá hafi konur farið að leita inn á svonefnd karlasvið í atvinnumálum. Hvað sjósókn varðar var ekki um nýjung að ræða, heldur voru konur að endurheimta hlutdeild sína í sjósókninnni og sú þróun hófst á öðrum áratug tuttugustu aldar. Að hinu leytinu virðist sókn kvenna á sjóinn verða öflugri en fyrr á árábilinu 1961-70.
Hásetastörfum gegndu konur í 3.512 daga og var með meira en þreföldun á næsta áratugi á undan og má e.t.v. líta svo á að sjókonur séu þarna að undirbúa sókn sína inn í sjómannaskólana, sem krefjast ákveðins sjóferðatíma af nemendum sem teknir eru inn í skólana (34).
Netagerð hefur um aldir verið starf bæði kvenna og karla, en á skipum nútímans voru konur fyrst lögskráðar sem netamenn á áttunda áratuginum hér á landi. Yfirmannsstöður hafa í auknum mæli komið á kvenna hendur og eru þær stýrimenn á togurum og formenn á fiskibátum í 378 sjóferðadaga á áttunda áratuginum (36).
Vel virkur hópur kvenna hefur starfað að fiski- og hafrannsóknum hér við land og farið með skipum og bátum í rannsóknarferðir. Fyrst á vettvang varð Þórunn Þórðardóttir (f. 1925) og var hún lögskráð sem fiskifræðingur á rannsóknarskip árið 1957 og svo aftur árið eftir. Hún mun hafa verið erlendis eftir það en árið 1972 er Þórunn komin til frambúðarstarfa við íslenskar fiskirannsóknir og fór það ár á sjó og fór eftir það ár hvert til 1981 (þá lýkur rannsókninni sem bókin byggir á) (70).
Vilhelmína Vilhelmsdóttir (f. 1929) var rannsóknarmaður á hafrannsóknarskipi og leiðangursstjóri. Vilhelmína hefur skrifað áhugaverða grein um aðstæður og viðhorf varðandi konur í fiskirannsóknum og hafrannsóknum, sem birtist í bókinni Sextán konur “(1981) (72).
Starfsaldur sjókvenna
„Sú sjókona sem ég hef fundið lögskráða lengst allra, er Ólöf Loftsdóttir (1896-1982). Ólöf var fyrst lögskráð á skip árið 1933, eftir það var hún lögskráð ár hvert fram til 1944. Hlé var á sjóferðum Ólafar 1945-52 en var hvert ár á sjó eftir það út árið 1969. Ólöf var þerna á Dettifossi og Goðafossi og var sjókona í 29 ár.Bók Þórunnar kemur út 1988, eftir að kvótakerfið er sett á en áður en kom til frjáls framsals kvótans. Ég þekki ekki hvort eða hvaða afleiðingar það hefur haft á sjósókn íslenskra kvenna, en vonandi eiga þessi lokaorð Þórunnar enn við.
Astrid Jensen (f. 1910) var sextán ár til sjós. Hún kemur fyrst fyrir í lögskráningu árið 1961 og var þá matsveinn á síldveiðibáti, en á næsta ári var hún skráð sem háseti á síldarbáti. Eftir þetta var Astrid skráð ár eftir ár sem matsveinn á fiskipskipum fram til 1974, þá er hún skráð á kaupskip sem matsveinn. Alls hafa sjóferðardagar Astridar verið 2.580 (39). Astrid var meðlimur í Félagi matreiðslumanna (65).
Fyrsta konan sem lögskráð var á fiskiskip, svo vitað sé, var Margrét Sveinsdótir sem var skráð á eimskipið Gylfa í Reykjavík í september 1919 og afskráð í október sama ár (57).
Þær sjókonur sem lengst allra hafa verið lögskráðar komu til skips eftir 1920, en ljóst er að þernustarfið á skipum í farþegaflutningum var eftirsótt frá upphafi íslenskrar skipaútgerðar og að þetta var verulegt atvinnusvið fyrir konur fram yfir miðja tuttugustu öld, þrátt fyrir tvær heimstyrjaldir á tímabilinu og sjóhernað á siglingaleiðum íslenskra skipa“ (57).
(Þórunn ræðir við Önnu G. Halldórsdóttur f. 1930, sem hefur langan starfsferil á sjónum.) „Anna, sem ásamt manni sínum á bát sem þau eru á að sumrinu á handfæra – og línuveiðum, lagði áherslu á það að starf sjómanna í smábátaútgerðinni væri ekki síðri sjómennska en vinna á stærri skipum, og nafngreindi þrjár konur á Suðurnesjum sem stunduðu sjósókn á smábátum. (65).
Skúlína Hlíf Guðmundsdóttir f. 1960, hefur lagt gjörva hönd á flest störf sem til falla á fiskiskipi og var 2. vélstjóri á línuveiðum árið 1978 (62). Hún nam við Stýrimannaskólann 1980-81 (en hafði ekki lokið námi þegar rannsókn Þórunnar lauk). Fyrsta stigs fiskimannaprófi lauk Skúlína 1979, hún hefur verið skipstjóri og stýrimaður á Lunda SH-1 frá Grundarfirði.
Fyrsta konan sem lauk prófi við Stýrimannaskólann í Reykjavík og jafnframt fyrsta íslenska konan sem hefur fyllstu skipstjórnarréttindi á öllum stærðum og gerðum íslenskra skipa, þar með talin varðskipin, er Sigrún Elín Svavarsdóttir f. 1956. Hún byrjaði ung að róa frá Djúpavogi og hefur gegnt störfum matsveins, háseta og stýrimanns og var fyrst stýrimaður á Jóni Guðmundssyni GK-104 haustið 1979 og síðar á stærri skipum og varðskipum“ (64).
„Ljóst virðist að sjósókn hafi verið álitlegur valskostur fyrir vaxandi fjöld akvenna, sem hefur leitað í störf á skipunum. Einnig er hlutdeild kvenna verðmætt framlag til verðmætasköpunar fyrir þjóðarbúskapinn, og þær hafa tekið að sér störf sem voru mikilvæg fyrir rekstur fiskveiða og skipaútgerðar. Verulegan þátt í vinsældum sjómennskunnar meðal kvenna, á sú staðreynd að konur hafa sömu laun og karlar í íslenskri sjósókn bæði fyrr og síðar.“
Birt með fyrirvara um ásláttarvillur, án heimildar.
Efnisorð: feminismi, Verkalýður
<< Home