mánudagur, apríl 28, 2014

Meydómur til sölu — nýjar vörur daglega


* Varúð - eftirfarandi lestur gæti valdið vanlíðan *

Danska sjónvarpið sýndi ekki bara þátt um múslimska skóla í gær heldur líka heimildarmynd um vændi í Kambódíu, nánar tiltekið sölu á meydómi ungra stelpna. Það virðist vera hjátrú í Kambódíu að kynlíf með hreinni mey sé lykillinn að eilífri æsku, karlarnir lifi lengur og líti betur út. Einn karlmaðurinn sem talað var við sagði glaðhlakkalegur að fólk héldi að hann væri yngri en hann er því hann stundar að kaupa sér hreinar meyjar. Þá hefur hann stelpuna til afnota í viku og eftir það er hún seld á vændishús. Talað var við eina 19 ára stelpu sem hafði verið seld þannig árinu áður, til viku afnota fyrir einhvern kall og svo í vændi, og henni taldist til að hún væri búin að stunda kynlíf með 700 mönnum.

Í þættinum kom fram hvað kostar að kaupa stúlku með óskertan meydóm og hvað hún er svo seld á í vændishúsi fyrsta mánuðinn eftir hún kemur þangað og svo smápeningarnir sem hún vinnur fyrir eftir það. Einn viðmælandi frá hjálparsamtökum benti á að litið væri á kvenlíkamann sem neysluvöru og verðgildið er mest þegar konan er hrein mey. Eftir það missir konan verðgildi sitt og þá þarf nýja vöru í staðinn. Þessvegna eru alltaf fleiri og fleiri kornungar stelpur neyddar í vændi.

Það var semsagt talað við fjölda manns frá ýmsum hliðum málsins, embættismenn, mæður sem hafa selt dætur sínar (önnur vildi vara aðra foreldra við að selja dætur sínar, hin íhugaði leiðir til að kaupa dóttur sína aftur), fólk sem starfar fyrir félagasamtök sem hjálpa stúlkum sem seldar hafa verið mansali, einnig kúnna, nauðgara og vændiskonur.

Flestar vændiskvennanna höfðu sömu sögu að segja. Einhver úr fjölskyldu þeirra hafði selt meydóm þeirra og eftir það beið þeirra ekkert nema vændið. Þær voru hataðar heima í þorpinu ef þær reyndu að snúa þangað aftur. Sumum hafði verið lofuð vinna í verksmiðju, einhverjar voru að létta undir með bláfátækum foreldrum sínum (þaraf ein 13 ára), ein hafði sofið hjá kærastanum og eftir það var það bara vændið. Hún sagðist ekki hafa gert sér grein fyrir að meydómurinn skipti svona miklu máli, þá hefði hún aldrei sofið hjá kærastanum, sem svo stakk auðvitað af þegar hann hafði fengið sitt. Hún var sú eina af viðmælendunum sem ekki hafði upplifað nauðgun sem sína fyrstu kynlífsreynslu.

Auk þess sem stelpurnar þurftu að selja sig og sáu ekki framá neitt annað líf (vitandi þaraðauki að þær verða ekki langlífar, u.þ.b. helmingurinn fær hiv/aids) er þeim oft og iðulega nauðgað. Ein sagði frá því að um tugir manna hefðu nauðgað sér og skilið sig eftir í skurði til að deyja, en hópnauðganir fara mjög í vöxt í Kambódíu. (Myndin er gerð 2009, ég veit ekki hvort þeim hefur fækkað eða fjölgað síðan.) Starfsmaður hjálparsamtaka sagði skelfilega sögu af stúlku sem hafði dáið eftir slíka hópnauðgun; sagan sú minnti ekki lítið á frásagnir af slíkum atburðum á Indlandi.

Hópur af ungum strákum ræddi frjálslega um kaup á vændi og að þeir kipptu stundum með sér vændiskonu sem þeir nauðguðu margir saman. Þeir sögðu frá þessu eins og ekkert væri sjálfsagðara. Þeir sögðust fara á karókíbarinn þarsem þeir sjá klámmyndir þar sem margir menn eru um eina konu og þá vilja þeir prófa það allt með einhverri stelpu (vændiskonu). Henni er svo bara hótað ofbeldi ef hún ekki hlýðir, ef hún vill ekki þýðast alla viðstadda karla er henni nauðgað.

Margir viðmælenda, vændiskonur, kúnnar og starfsmenn hjálparsamtaka sögðu að klámmyndir væru orsök hópnauðgana. (Áhugasamir andfeministar um tölfræði geta farið til fjandans af því tilefni.)

Þessi mynd var mjög sláandi. Fram kom að það þyrfti að herða refsingar og kenna karlmönnum að virða konur. Og skilaboðin frá einum viðmælandanum voru skýr: Ef það er engin eftirspurn þá er ekkert vændi. Ef það er ekkert vændi er ekkert mansal og ekkert ofbeldi gegn konunum.

Aftur: ef karlar heimta ekki konur til að kaupa þá er ekkert vændi.

Ég ragmana stuðningsmenn vændis að réttlæta þessa meðferð á konum og stúlkubörnum.

Efnisorð: , , , ,