miðvikudagur, mars 19, 2014

Gullfoss og Geysir, túkall

Frekja og græðgi virðast vera lykilorð þeirra sem sjá ferðamannastrauminn í hillingum. Bílaleigur verða sífellt uppvísar að því að leigja út bíla á sumardekkjum um hávetur og mega björgunarsveitir hafa sig allar við að bjarga túristunum uppúr sköflum. Allir og amma þeirra selja gistingu og hirða lítt um að fá til þess leyfi eða greiða af skatt af gróðanum. Og þá eru ótalin hótelin sem spretta upp víðsvegar um landið með veði í komandi túristavertíð.

Ekkert af þessu er skemmtilegt afspurnar en sýnu verst er að frétta af gjaldtöku einkaaðila á ferðamannastöðum. Landeigendur sem annaðhvort hafa náttúruundur á bæjarhlaðinu hjá sér (Geysir) eða sjá í fjarska vegarspotta sem liggur að fjölsóttu náttúrufyrirbæri (Dettifoss), hafa nú ákveðið að umræðan um nauðsynlegt en fram að þessu lélegt viðhald ferðamannastaða sé komin á það stig að enginn muni fetta fingur útí að för ferðamanna sé hindruð með gjaldtöku. Þeir sem keyptu Kerið (í þessu skyni) fóru í fararbroddi og nú stendur til að rukka aðgang að Dettifossi og gjaldtaka er hafin við Geysi. Verði það látið átölulaust má búast við að fleiri fylgi í kjölfarið.

Einusinni þótti okkur nægilegt að útlendingar væru hrifnir af landinu, svo fannst okkur þeir verða að hrósa okkur í fjölmiðlum erlendis svo við fengjum fleiri túrista, núna eru þeir nískupakk sem skilja ekki nógu mikinn pening eftir í landinu og við veltum fyrir okkur hvernig við getum losnað við sparsama túrista og fengið ríkari, neysluglaðari og betri túrista í staðinn. (Á sama tíma dáumst við að íslenskum ungmennum sem fara í interrail eða margra vikna og mánaða bakpokaferðalög um Asíu og eyða nánast engu. En það er 'góð lífsreynsla' en þeir sem ferðast ódýrt um Ísland eru 'afætur sem skilja ekki eftir sig neitt nema rusl'). Kannski verður okkur að ósk okkar að fækka ferðamönnum með því að standa með hringlandi betlarabauka við skúra (sem gera arkitekta öfundsjúka vegna þess hvað þeir stinga skemmtilega í stúf við umhverfið) sem hróflað er upp til að illa launuðu aðgangssölumennirnir geti pissað og drukkið kaffi milli þess sem þeir hindra frjálsa för fólks um landið.

Jafnvel þó við Geysi sé greinilega öllu til kostað að rukka inn (sbr. fjöldi starfsmanna) þá eru daglegar tekjur greinilega mjög háar og varla líður á löngu áður en svæðið verður komið í frábært stand. Hvað ætla þá landeigendur að gera eftir það, stinga aðgangseyrinum í vasann? Þeim hefði verið nær að hefja framkvæmdir á hverasvæðinu á eigin kostnað og fá þannig meðbyr í stað þess að standa í stappi við ríkið og rukka svo grandalausa ferðamenn án þess að hafa til þess nokkra heimild, og skapa jafnvel hættu. Þessa dagana yfirgnæfir græðgisfnykurinn hveralyktina.

Anna Kristjáns skrifar um þessa græðgisvæðingu á ferðamannastöðum. Lokaorð hennar eru þessi: „en í guðanna bænum, setjið ekki upp gjaldhlið við sérhvern afleggjara af þjóðvegi eitt eins og nú stendur til að gera. Það mun valda hruni í ferðaþjónustu á Íslandi.“. Ég óttast að hún hafi rétt fyrir sér, ekki vegna nísku ferðamannanna heldur vegna þess að þeim ofbjóði fjárplógsstarfsemin.

Ríkisstjórnin gerði það að einu af sínum fyrstu verkum að hætta við að hækka gistináttagjaldið og Guðmundur Andri Thorsson bendir á að í staðinn ætli hún að „innleiða svokallaðan náttúrupassa með yfirskriftinni: Þeir borgi sem njóta.“ Hann talar út frá tilfinningarökum — og er það vel — og það sem hann segir er ekki hægt að endursegja í stuttu máli eða höggva niður í stuttar tilvitnanir, lesið frekar pistilinn í heild.

Náttúrupassi er vond hugmynd, aðallega vegna þess að þá þarf skúra við alla vinsæla ferðamannastaði (og í stað "upp með veskið" verður heimtað "upp með passana",* á því er lítill munur) en ekki síður vegna þess að þá þarf íslenskur almenningur að borga ekki síður en útlendingar, og andskotinn hafi það að við sem þreyjum hér þorrann megum ekki njóta náttúrunnar á stuttum íslenskum sumrum þá sjaldan veður gefst til að sjá gegnum suddann. Það heitir staðaruppbót.

Benedikt Sigurðarson veltir upp mörgum flötum á málinu. Ég er þó alveg ósammála honum um að það sé „slæm hugmynd að leggja gjald á flugmiðana til landsins og tollafgreiðslu í höfnum.“ Ég held nefnilega að gistináttaskattur og skattur á alla sem koma til landsins sé skásta leiðin til að láta ferðamenn taka þátt í kostnaði við viðhald ferðamannastaða. Hugmynd Benedikts um að setja bílastæðagjald kallar á risavaxin bílastæði með tilheyrandi raski og munu þau ekki prýða umhverfið, auk þess sem mér finnst myndavélaeftirlit óviðeigandi úti í náttúrunni þó við sættum okkur við slíkt í borg óttans.

Einar Á. E. Sæmundsen fræðslufulltrúi þjóðgarðsins á Þingvöllum skrifar vel ígrundaða grein, og það getur verið góð leið að allir sem hafi „fjárhagslegan ávinning af því“ að vera á ákveðnum svæðum borgi fyrir það samkvæmt fyrirframgerðum samningi. Hér virðist allir ætla að rukka fyrst og sjá svo til hverjir séu hlynntir rukkuninni en hinir fái ekki að koma inn á svæðið. Ég er þó Einari ósammála um að gera eigi greinarmun á rútufarþegum og bílaleigufarþegum (en þeir flokkast undir það sem Einar nefnir „ferðamenn á eigin vegum“). Ég veit ekki fjölda þeirra sem ferðast um á bílaleigubílum, en þeim myndi hugsanlega fjölga mjög ef þeir þyrftu hvergi að borga. Það ætti síst að hygla þeim umfram þá sem ferðast með bílstjóra (og yfirleitt leiðsögumanni) með þekkingu á íslenskum aðstæðum.

Svo finnst mér góð ábending hjá Ögmundi Jónassyni með eignarnám á jörðum. Ef Landsvirkjun getur látið gera eignarnám þar sem henni þóknast að leggja rafmagnslínur, er þá nokkuð því til fyrirstöðu að gera eignarnám hjá þeim sem „í krafti einkaeignarrétti ætla, í trássi við lög, að græða á náttúruperlum Íslands.“ Það væri að mati okkar Ögmundar fullkomlega réttlætanlegt.

Ég vil semsagt að gistináttagjaldið sé hækkað. Farþegar sem koma til landsins borgi sérstakt gjald. Ríkið sjái um að lagfæra og halda úti aðstöðu á ferðamannastöðum á eigin reikning og með eigin starfsfólki, greitt með komufarþegaskattinum. Tekið sé fyrir skúravæðingu og græðgisvæðingu landeigenda.

___
* Hugmyndir um að löggan fylgist með náttúrupössunum er fráleit. Hvað hefur ekki mikið verið kvartað undan því hve fáar löggur eru á vakt hverju sinni á stórum svæðum, tildæmis á Suðurlandi?

Efnisorð: , ,