fimmtudagur, mars 13, 2014

Dagur líkamsvirðingar

Samtök um líkamsvirðingu eru tveggja ára í dag en Sigrún Daníelsdóttir sálfræðingur hefur haldið úti bloggi um málefnið í fimm ár. Fleiri skrifa á bloggið þar sem m.a. er fjallað um fitufordóma, megranir, fitness keppnir, megrunarátaksraunveruleikasjónvarpsþáttinn Biggest Loser, ímyndir og holdafar almennt.

Á þessum baráttudegi líkamsvirðingar er best að leita til þeirra sem skynsamlegast hafa skrifað um málið.

Hér ræðir Sigrún fyrirsætubransann og áhrif hans.
„Tískuiðnaðurinn er byggður upp af unglingsstúlkum sem í sumum tilfellum eru ekki einu sinni búnar að klára grunnskóla. Þetta eru „konurnar“ sem ganga á tískupöllunum og birtast okkur í myndaseríum hátískublaðanna. Þetta eru „konurnar“ sem hin venjulega kona ber sig saman við og óskar þess að hún gæti líkst meira í útliti.“
Og
„Þegar ég vann við meðferð átraskana kynntist ég nokkrum stelpum með fyrirsætudrauma. Þeir voru undantekningarlaust partur af veikindum þeirra, því þær vildu ekki taka sénsinn á því að batna og missa af „stórkostlegum“ tækifærum fyrir framtíðina. En svo urðu þær ekki nýjasta undrið í tískuheiminum og fengu í staðinn endalausa höfnun og vonbrigði. Sem gerir auðvitað mikið fyrir sjálfstraustið.

Í fyrirsætubransanum er stelpum kennt að byggja sjálfsmynd sína, framtíð og atvinnutækifæri á einhverju sem þær hafa enga raunverulega stjórn á: Útliti sínu og velþóknun annarra. Hvernig hægt er að telja sér trú um að þetta hjálpi þeim að öðlast sjálfstraust og blómstra á eigin forsendum er óskiljanlegt. Þetta hlýtur að vera eitt ömurlegasta veganesti sem hægt er að gefa ungri manneskju.“
Þegar blásið var til herferðar í tilefni af megrunarlausa deginum en ekki voru allir sáttir við hana. Eins og oft áður var Sigrún gagnrýnd fyrir að hvetja til offitu og ofáts en einnig var amast við því hverjir tóku þátt í herferðinni. Hér svarar Sigrún gagnrýni á herferðina.
„Það er einfaldlega ekki hægt að vera í réttri stærð fyrir þennan málstað. Ef þú ert grannvaxin þá færðu að heyra að þú vitir ekkert hvað þú ert að tala um af því þú ert ekki feit. Ef þú ert feit þá færðu að heyra að þú sért bara að reyna að réttlæta tilvist þína af því þig skortir viljastyrk til að grennast. Þau viðhorf sem við tölum fyrir eru ögrandi og því er reynt að kveða þau niður með því að gera fólkið sem talar fyrir þeim ómarktækt. Staðreyndin er að ríkjandi þyngdaráherslur meiða alla. Þegar við dæmum fólk á grundvelli holdafars þá eru allir gagnrýndir nema þeir sem falla inn í þann þrönga flokk sem við höfum skilgreint sem „norm“ eða „fegurð“ eða whatever. Við erum allskonar og því tapa allir ef fjölbreytileikinn er ekki virtur. Allir hafa fitu, bara í mismiklum mæli, en flestir hafa nóg til að hafa komplexa yfir því. Það er því öllum í hag að hugmyndir um þóknanlega líkama séu víkkaðar út.“
Á bloggsíðunni er gjarnan rætt um fitufordóma (sem birtast í allt frá 'velviljuðum athugasemdum' uppí hreint ofbeldi eins og lesa má um í þessari frétt) en auðvitað snýst málið um að allt fólk, feitt, mjótt, lítið og stórt, eigi og megi vera stolt af líkama sínum og aðrir eiga ekkert með að gagnrýna fólk útfrá útliti þess.

Í þessum pistli nefnir Sigrún það sem sjaldan er rætt, lágvaxna karlmenn, en hún á syni sem eru lágvaxnir.
„Vitandi hvað bíður þeirra ef þeir vaxa úr grasi, alltaf minnstir í bekknum, og verða síðan lágvaxnir fullorðnir menn, þá er það eina sem ég get gert að stappa í þá stálinu. Hjálpað þeim að þróa með sér jákvæða sjálfsmynd út frá þeim mörgu styrkleikum og kostum sem þeir hafa til að bera. Ekki gera hæð þeirra að neinu aðalatriði en ekki vera heldur með neina vitleysu ef þeir viðra áhyggjur eða leiða yfir hæð sinni. Ég segi ekki: “Hvaða vitleysa, þú ert ekkert lítill”. Þeir vita að þeir eru litlir. Ég er sjálf lítil. Að halda öðru fram er bara kjánalegt. Það sem ég segi er að já, þeir séu frekar lágvaxnir en það sé ekkert að því að vera lítill. Fólk sé allskonar. Og svo er gott að spyrja af hverju þeir séu yfirleitt að hugsa um þetta. Gerðist eitthvað? Sagði einhver eitthvað? Er eitthvað að gerast í þeirra félagslega umhverfi sem ég þarf að bregðast við?

Ef börnin mín væru feit þá hugsa ég að ég myndi nálgast málið á sama hátt. Ég myndi hins vegar aldrei segja þeim að þau væru “of” feit. Það er ekki það sama. Það felur í sér neikvæðan dóm. Ef þú ert “of” eitthvað þá er eitthvað að þér. Ég segi sonum mínum ekki að þeir séu “of” litlir þrátt fyrir að þeir skeri sig úr meðaltali íslenskra barna. Þeir eru bara nákvæmlega eins og náttúran skapaði þá. Þeir eiga ættarsögu um lága líkamshæð. Að ætlast til þess að þeir verði öðruvísi er ekki raunhæft. Þeir verða að mega vera litlir og þeim verður að geta liðið vel með það. Til þess þarf þýðing merkimiðanna að breytast. Það verður að vera í lagi að vera lítill. Það verður að vera í lagi að vera feitur. Annars erum við að dæma öll börn sem eru ekki vaxin samkvæmt meðaltali til að vaxa úr grasi sem brotnir einstaklingar, alltaf ósátt við að vera eins og þau eru. Það eru ekki örlög sem ég óska neinu barni.“
Ég mæli með að lesa í heild þær bloggfærslur sem hér er vísað á, sem og aðra pistla á líkamsvirðingarblogginu. En umfram allt ættum við öll að tileinka okkur virðingu fyrir eigin líkama og annarra.

Efnisorð: