laugardagur, mars 08, 2014

8. mars

„VERU barst til eyrna að á umhverfisráðstefnunni í Ríó de Janeiro hefði verið indversk kona með fríðu föruneyti, sem vinnur að umfangsmikilli þróunaraðstoð í heimalandi sínu á eigin vegum.“
Þetta er upphafið á viðtali sem birtist í maíhefti Veru árið 1994 við frú Sundaram (hún er ekki kynnt með fullu nafni). Hér eru valdir bútar úr viðtalinu, birtir í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

Í byrjun viðtalsins segir frú Frú Sundaram frá starfi sínu, fjölskyldu og samtökum hennar sem berjast m.a. gegn mengun af völdum iðnaðar. Hún segir skort á drykkjarvatni mikinn og það bitni mjög á konunum sem sæki vatnið langt að, sem og eldivið. Frú Sundaram segir að það sé erfitt að ímynda sér hvílíka erfiðisvinnu þær inna af hendi.

„Þess utan eiga þær að sjá um búpeninginn, nautgripina, annast börnin og vinna fyrir daglegu brauði. Aðstæður þeirra eru því hrikalegar og mikilvægt að þær komist til áhrifa til að geta haft eitthvað að segja um þróun mála. Þannig að samtökin beina sjónum sínum að konum og vinna markvisst að því að bæta stöðu þeirra. Þó er langt frá því að einungis þær njóti góðs af starfi okkar en það gengur þó ekki þrautalaust að sannfæra karlana um ágæti framfara ef þeir eru ekki sjálfír í sviðsljósinu.

Ég veit ekki hvernig ástandið er nákvæmlega í öðrum heimshlutum en ég held það láti nærri að við lifum í karlstýrðum heimi og það er ekki réttlátt. Það sjáum við í sveitum Indlands þar sem karlarnir eru allsráðandi og standa gegn því að konur komist til áhrifa. Konur eru beinlínis aldar upp til að vera dætur, systur, eiginkonur, tengdadætur og eru alltaf neðar settar en bræður þeirra og eiginmenn. Þó að stúlka hafi meiri námshæfileika en bróðir hennar er henni innprentað að hún hafi ekkert uppúr því að læra.

Ég kenni ekki bara körlunum um þetta ástand, eldri konur eru einnig oft mjög tortryggnar og vinna beinlínis gegn því að stúlkur fái að mennta sig og taka óafvitandi þátt í að viðhalda þessu ástandi.“

Þær þekkja ekkert annað!

„Nei og þess vegna er svo mikilvægt að mennta stúlkur þannig að þær ali dætur sínar ekki upp á sama hátt. Ólæsi er eitt stærsta vandamálið. Sá, sem ekki getur lesið, hefur ekki jafna stöðu á við aðra, er fullur minnimáttarkenndar og getur ekki aflað sér upplýsinga og þekkingar og finnst hann því ekki geta haft neitt að segja. En það þýðir ekki að leggja einungis áherslu á bóknám, eldra fólk er oft hrætt við bækur. Þess vegna leggjum við áherslu á að kenna þeim einnig munnlega, t.d. um næringu, heilbrigði og hreinlæti og hver réttur þeirra er, að lífið sé dýrmætt og þær eigi ekki að þurfa að líða fyrir kyn sitt. Ofbeldi gagnvart konum innan veggja heimilisins er mikið, en það hefur hingað til varla verið til í huga kvenna að þær geti skilið við eiginmanninn.

Þótt þær geti ekki lesið þá hafa þær augu og því keyptum við sjónvörp fyrir fræðslumiðstöðvarnar. Karlarnir voru ekki par hrifnir af því, héldu að konurnar myndu bara spillast. En þetta var gert og nú geta þær fylgst með því sem er að gerast í kringum þær, og horft á fræðsluþætti sem bæði ríkissjónvarpið í Dehli sendir út og svo svæðisstöðin. Þetta eru þættir um hreinlæti, fjölskylduna, lagaleg mál og mikið er af þáttum um næringarfræði sem fjalla um hvernig fá megi sem mesta næringu úr einhæfum fæðutegundum. Nú eru líka sérstakir þættir fyrir óléttar konur, m.a. um nauðsyn þess að þær fái rétta næringu á meðgöngunni. Konur sitja enn á hakanum hvað fæðuna varðar, fyrst borða karlarnir og siðan konurnar það sem afgangs er. Þannig er þetta nú ennþá.“

„Konur standa oft ráðalausar þegar eitthvað amar að börnunum og vita ekki að veikindin stafa oft af rangri næringu barnsins. Fræðslan er þó fljót að skila sér og konur eru almennt fljótar að komast upp á lagið með að nýta sér þjónustu heilsugæslunnar. Eftir aðeins nokkra mánuði komu þær sjálfar og sögðu mér frá sínum eigin sjúkdómseinkennum. Ég fékk þrjár konur, kvensjúkdómalækna úr Lionsklúbbnum mínum, til að koma með mér í þorpið einn laugardag, þær skoðuðu konurnar og við komumst að þvi að rúm 70% þeirra voru með sýkingu í móðurlífinu. Þessir læknar komu eftir þetta á hverjum laugardegi í fleiri mánuði og meðhöndluðu konurnar. Þú getur ímyndað þér kvalirnar sem þær voru búnar að ganga í gegnum og höfðu tekið þeim eins og hverju öðru hundsbiti, eins og svo mörgu öðru.“

Er staða kvenna í borgunum eitthvað betri?

„Já, hún er það að mörgu leyti því þar eru konur meira menntaðar og starfa við fjölbreyttari störf. En það verður að skoða stöðu kvenna í dreifbýlinu. Það er aldrei hægt að gera sér í hugarlund þróun í neinu landi með því að horfa einungis til borganna. Framfarir í sveitum eru forsenda almennrar þróunar og konur verða að komast þar til áhrifa til að svo megi verða.“

Hvernig reynið þið að leiða körlunum fyrir sjónir að þetta leiðir til framfara sem þeir muni einnig njóta góðs af?

„Þeir virða starf okkar þegar við höfum sýnt þeim fram á hversu samfélagið allt hagnast á framförunum. Margir yngri karlanna skilja það og eru okkur þakklátir fyrir að aðstoða konurnar. En margir mótmæla og telja að konur séu að fara inn á þeirra svið og séu að riðla því skipulagi sem viðgengist hefur, kynslóð fram af kynslóð. Þetta hefst þó hægt og bítandi með því að finna réttu leiðirnar. Í einu þorpinu voru fjórar stúlkur sem ekki áttu að fá að fara í framhaldsskóla, fjölskyldur þeirra sögðust ekki hafa efni á því. Miðstöðin okkar lagði því út fyrir bókakostnaði og ég talaði við foreldra þeirra. Ein þessara stúlkna var systir þorpshöfðingjans og ég leiddi honum fyrir sjónir hversu mikilvægt það væri að hann skapaði fordæmi með viðhorfi til skólagöngu systur sinnar. Nú eru þær allar í skólanum og hjóla þangað saman, tíu km á hverjum degi.

Það er algengt þegar spurt er að því hvers vegna stúlkurnar fari ekki í skólann að foreldrar segjast ekki hafa efni á að missa stúlkur frá vinnu. Við ætlum að reyna að brúa það vandamál með því að koma á fót einhverskonar handverksmiðstöðvum þar sem stúlkurnar læra að búa til hluti sem má selja og þannig gætu þær lagt eitthvert fé í fjölskyldusjóðinn. Og þarna myndum við einnig kenna þeim að lesa og skrifa einn til tvo tíma á dag. Með næstu kynslóð verður svo auðveldara að fá foreldrana til senda börnin í skóla og þá verða atvinnutækifæri stúlkna raunverulegri.“
Viðtalið tók NH, sem að öllum líkindum er Nína Helgadóttir sem þá var önnur ritstýra Veru. Hér stytt og birt án leyfis.


Efnisorð: , , , ,