miðvikudagur, mars 05, 2014

ESB farsinn

Eitt af einkennum farsa er að persónurnar á leiksviðinu eru sífellt að æða inn og útum dyr og þegar einn fer útaf sviðinu kemur annar inn, þeir fara sífelldlega á mis, og af þessu sprettur misskilningur á misskilning ofan. Af þessu má oft hlægja dátt.

ESB farsanum virðist hvergi nærri lokið því sem helstu persónur eru enn að þeytast um sviðið og uppákomum linnir ekki. Farsinn er lélegur að því leyti að hann er ófyndinn, svo eru líka vond og vandræðaleg augnablik einsog þegar þingmenn detta í forarpoll fúkyrða, en hlægileg augnablik eru fá þó nefna megi vandræðasvipinn á Illuga Gunnarssyni þegar hann var dreginn fyrir sjónvarpsmyndavélar og látinn svara fyrir eigin orð sem hann lét falla (einsog svo margir samráðherrar hans úr sama flokki) á atkvæðaveiðum í fyrra.

Þá er líka skemmtilegt þegar fólk útí bæ rifjar upp vendingar og vafninga Bjarna Ben frá því áður en hann lét undan flokksræðinu (les: LÍÚ og Davíð Oddssyni) og gerðist svarinn andstæðingur ekki bara ESB umsóknar heldur ESB aðildar. Hann hafði áður aðra skoðun en þá sem hann viðrar núna „samkvæmt bestu sannfæringu“. Og það er gott framlag til umræðunnar að vísa í orð hans og Illuga í grein frá 2008 þar sem þeir sögðust vilja að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið og að innganga í sambandið verði borin undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Núna finnst þeim það „ómöguleiki“ því núverandi ríkisstjórn vilji ekki ganga í ESB. Samt gat fyrrverandi ríkisstjórn sætt sig við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave og fylgt því máli eftir til enda, jafnvel þótt hún hefði viljað fara aðra leið, en svoleiðis ráða ekki núverandi ráðamenn við.

Þegar líkingum við farsa sleppir stendur uppúr að forsætisráðherrann er enn og aftur staðinn að ósannindum. Nú síðast sagði hann að ESB hefði heimtað að íslensk stjórnvöld slitu viðræðunum úr því ekki stæði til að halda þeim áfram. En sendiherra ESB segir að það megi alveg setja viðræðurnar á bið án þess að slíta þeim (innan ESB virðast menn einnig margsaga, svo kannski er um farsakenndan misskilning að ræða). Merkilegast er að Sigmundi Davíð varð tíðrætt um heiðarleika í viðtalinu.

Það væri óskandi að væri hægt að setja punkt hér aftan við, en það er ljóst að þessu máli er hvergi nærri lokið. Á meðan er mikilvægt að fólk sem misbýður endurteknar lygar ríkisstjórnarinnar um kosningaloforð sín og svikin við vilja þess stóra hluta þjóðarinnar sem vill þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort aðildarviðræðum verði haldið áfram, skrifi undir hér og /eða mótmæli á Austurvelli.

___
Hér má lesa ræðu sem Illugi Jökulsson hélt á Austurvelli. Þótt ég sé ekki hlynnt því að ganga í ESB (og þannig lagað ekki 100% sammála því sem Illugi segir um sambandsaðild í ræðunni) þá mælist honum afar skynsamlega um þetta alltsaman.
Og hér er ræða Sigurðar Pálssonar á sama stað af sama tilefni.

Efnisorð: ,