fimmtudagur, febrúar 27, 2014

NöttZ / Hildur

(Varúð, orð sem hér falla og lesa má í skjáskotum gætu hrundið af stað óþægilegum hugrenningatengslum.)

Söngkonan Hafdís Huld Þrastardóttir sagði frá því í Kastljósi í kvöld að hún hefði komist að því að Hildur Lilliendahl hefði undir notendanafninu „NöttZ“ á bland.is talað mjög illa um sig (Hafdísi) og óskað sér alls hins versta, kynferðisofbeldi og dauða. Úff. Fréttinni fylgdi að Hildur segðist ekki hafa sjálf skrifað dauðahótanirnar og sæi eftir ummælum um þroskaskerðingu.

Eftir að hafa fengið sting í magann meðan á Kastljósinu stóð, fór ég á netið. Á bland.is var sannarlega verið að ræða málið. Búið var að grafa upp umræðuþráðinn þar sem tjaldhællinn kemur við sögu. Og þá kom það í ljós sem mig grunaði (en Kastljós orðaði svo sérkennilega að vel mátti misskilja það): að Hildur hafði árið 2009 fengið sms af netinu frá einhverjum sem hún vissi ekki hver var, fyrsta sms-ið snerist um Hafdísi Huld og Hildur var semsé að spyrja hvort einhver á bland vissi hver hefði sent sms-in. Eftir að hafa verið spurð um innihald skilaboðanna birtir hún þau loksins, og svo þau sem fylgdu í kjölfarið.

Þessi viðbjóðslegu ummæli um Hafdísi Huld voru semsagt ekki orð Hildar, heldur voru send til Hildar og hún birti þau. En eins og einhver segir nú í kvöld um þetta mál á bland:

„Kastljós lét það alveg grínlaust hljóma eins og eitthvað sem hún hefði sjálf verið að segja og væri svo núna að bendla aðra við, en umræðan er bara augljóslega frá fyrstu mínútu hún að setja inn SMS sem henni eru að berast þarna.“

Og hér má lesa hvað NöttZ / Hildur skrifaði árið 2009. Allan umræðuþráðinn má lesa hér.












Af þessu má sjá að það er afar langsótt að ætla Hildi að hafa sagt þennan viðbjóð með tjaldhælinn; hún hafði þau úr sms-i sem henni var sent. Hún hefur komið með skýringar á hver skrifaði henni þessi skilaboð og hver hafi skrifað undir hennar notendanafni á bland.is. Að því gefnu að það sé rétt, þá er samt sérkennilegt af Hildi að hafa ekki eytt út þessum drápsummælum á sínum tíma ef einhver annar skrifaði þau í hennar nafni.

Það sem hún svo sjálf skrifaði (og segist sjá eftir) um þroska Hafdís Huldar er svo annað mál; hvað hafði hún eiginlega svona mikið á móti Hafdísi Huld?

Kannski koma aðrar eða betri skýringar á þessu máli en ég vil taka fram að mér finnst þetta A) ömurlegt, B) Hildi ekki til sóma, og C) ekki kasta rýrð á baráttu Hildar fyrir feminisma þó henni hafi verið uppsigað við einhverja konu og látið andstyggileg ummæli falla um andlegan þroska hennar. Enn síður er það áfellisdómur yfir kvenréttindabaráttu eða feministum að til séu orðljótir feministar.

Komi hinsvegar í ljós að tjaldhælsummælin séu beint frá Hildi sjálfri komin mun ég afneita henni með öllu.




Efnisorð: