mánudagur, mars 10, 2014

Stattu úti

Þau furðulegu tíðindi berast frá Noregi að þar ætli ríkisstjórnin að leggja fram frumvarp sem hefur það að markmiði að takmarka aðgengi kvenna að fóstureyðingum. Stjórnarflokkarnir munu hafa lofað Kristilega þjóðarflokknum (sem í staðinn lofar að styðja stjórnina)* að leggja fram frumvarp þess efnis að þeir heimilislæknar sem þess óska þurfi ekki að gefa konum tilvísun á fóstureyðingu. Sem þýðir að ef eini læknirinn í þorpinu er á móti fóstureyðingum getur hann sisvona komið í veg fyrir að konur sem til hans leita komist í fóstureyðingu. Frumvarp ríkisstjórnarinnar nýtur ekki stuðnings innan eigin raða eða hjá öðrum flokkum og líklega verða ríkisstjórnarflokkarnir þeirri stund fegnastir þegar frumvarpið verður fellt í þinginu; þeir verða þá búnir að standa við sitt gagnvart kristlingunum en þurfa ekki að horfast í augu við bálreiða kjósendur sem töldu sig búa í þjóðfélagi þar sem konur njóta hvað mestu réttinda í heimi þessum.

Alveg er það annars makalaust hvað heittrúarfólk reynir að koma því í lög að mega neita fólki um heilbrigðisþjónustu, hjónavígslu eða bara afgreiðslu, allt eftir því hvar í trúartaugina það verkjar. Til dæmis eru talsverð brögð eru að því í Bandaríkjunum að lyfjafræðingar neiti að afgreiða eftirápilluna — sem gerir auðvitað ekkert annað en þröngva konum í þær aðstæður að þurfa fóstureyðingu sem svo einhver annar neitar að framkvæma af sínum trúarástæðum.

Mismunun er auðvitað vond hugmynd almennt en ef á annað borð það á að leyfa fólki að hafna því að sinna starfi sínu sé viðskiptavinurinn eða sjúklingurinn því ekki þóknanlegur, finnst mér að það eigi ekki að einskorðast við trúarskoðanir. Ég myndi þá sannarlega fara í skyndiverkfall í hvert sinn sem ég sæi framan í sjálfstæðismenn, framsóknarmenn, trúarbrjálæðinga og andfeminista.

___
* Það er semsagt víðar en hér sem stofnað er til ríkisstjórnarsamstarfs á vafasömum forsendum og farið í að uppfylla loforð sem hentar utanaðkomandi en ganga gegn hagsmunum almennings.

Efnisorð: , , ,