sunnudagur, apríl 27, 2014

Kennsla í hatri og ofbeldi

Fyrir nokkrum árum var gerður sjónvarpsþáttur um trúarskóla múslima í Bretlandi og var myndefnið fengið með falinni myndavél í nokkrum skólum. Tvennt kom í ljós: ofbeldi gagnvart nemendum, og að nemendum var kennt að líta niður á önnur trúarbrögð, sem og múslima sem ekki hegða sér rétt. Þessar upplýsingar komu þvert á það sem þessir skólar þóttust gera þegar yfirvöld skoðuðu starfsemina og hafði einn þeirra hlotið lof og prís fyrir kennsluaðferðir sínar. En þegar enginn sá til var sparkað í nemendur og þeir slegnir (þetta voru börn niður í 6 ára gömul, að auki börðu eldri nemendur þá yngri) og þeim innrætt að þeirra trú væri ekki bara betri en annarra heldur væru aðrir Bretar viðurstyggilegir, þeir yrðu að gæta þess að aðlagast ekki samfélaginu að neinu leyti. Nemendur (sem mér sýndist vera eingöngu drengir) urðu að hafa viðurkennda klippingu og þeir varaðir við að klippa sig eftir tískunni, með tískunni er nefnilega hægt að ná tökum á huga fólks — sem er auðvitað hræðilegt nema um trúarinnrætingu sé að ræða.

Ekki langar mig sérstaklega að pönkast á múslimum umfram aðra trúarhópa, afstaða mín er einfaldlega sú að börn eigi ekki að vera send í trúarlega skóla (helst ekki sunnudagaskóla heldur). Hvort heldur það eru kaþólikkar eða aðventistar, mér er jafn illa við trúarinnrætinguna (sbr. fyrri skrif mín), án þess þó að vita hvort kaþólikkar og aðventistar eru beinlínis að innræta nemendum að hatast útí fólk sem aðhyllist önnur trúarbrögð. En eins og við þekkjum frá kaþólska skólanum hér þá grasseraði þar allskyns ofbeldi, og allt þaggað niður til í ofanálag.

Mér finnst því að það ætti að setja í lög að engir skólar séu reknir á vegum trúfélaga eða með hugmyndafræði trúar að leiðarljósi (þar sem börnum væri jafnvel innrætt andúð á samkynhneigðum; gætu allir hvítasunnumenn stillt sig um það fyrir luktum dyrum?), heldur séu þeir allir veraldlegir og á vegum hins opinbera. Í skólum á að kenna börnum um trúarbrögð heimsins en án þess að níða niður ein trúarbrögð eða hampa öðrum — jafnframt á auðvitað að segja börnunum frá trúlausum 'lífstíl' og hann kynntur sem eðlilegur valkostur. Það væri jafnframt mjög gott ef búið væri að setja lög gegn trúarskólum áður en hér verður reistur eða farið fram á að verði rekinn skóli fyrir börn múslima; enda mun öll sú umræða einkennast af rasisma og íslamófóbíu. Fólk einsog ég sem er á móti rasisma og íslamófóbíu mun þá finna sig knúið til að verja tilurð skólans, ekki síst á grundvelli jafnræðis; að múslimar megi reka skóla fyrir börn rétt eins og aðventistar og kaþólikkar. Áður en skólum á vegum trúfélaga fjölgar þarf að hætta alfarið að leyfa þá. Burtu með þetta allt saman, þetta er allt jafn skaðlegt.

Efnisorð: ,