fimmtudagur, apríl 17, 2014

Gegnum glerþakið

Árið 1933 varð fatlaður maður Bandaríkjaforseti og gegndi hann því embætti í fjögur samfelld kjörtímabil á tímum kreppu og heimstyrjaldar.

Þetta sýnir algjört fordómaleysi og forréttindastöðu fatlaðra þar í landi. Og þar með hljóta allir fatlaðir Bandaríkjamenn alla tíð síðan að hafa það mjög gott og enginn þeirra hefur nokkurntímann orðið fyrir mismunun eða fordómum.

Árið 2009 varð sonur Afríkumanns forseti Bandaríkjanna og er nú á sínu öðru kjörtímabili. Kona hans er afkomandi þræla.

Þessu fylgir auðvitað að enginn þeldökkur Bandaríkjamaður, hvort heldur hann er afkomandi þræla eða á núlifandi ættingja í Afríku, þarf að þola mismunun eða fordóma og allir hafa þeir það gott og geta valið sér starfsvettvang.

Við erum auðvitað vel verseruð í bandarískri menningu eftir áratuga gláp á bandarískar bíómyndir. Þessvegna erum við auðvitað alveg jafn laus og Bandaríkjamenn við mismunun og fordóma í garð fatlaðra og þeldökkra. Við höfum reyndar bætt um betur.

Árið 1980 varð kona forseti Íslands.

Árið 1980 varð einstæð móðir forseti Íslands.

Árið 2009 varð kona forsætisráðherra Íslands.

Árið 2009 varð lesbía forsætisráðherra Íslands.

Enda er konum aldrei mismunað á Íslandi og þær njóta allar fyllstu virðingar í hvívetna. Einstæðar mæður hafa það allar gott og er aldrei hallmælt. Samkynhneigt fólk verður aldrei fyrir fordómum og enginn mismunar þeim eða níðir fyrir ástir þeirra.

Komist einhver gegnum glerþakið er öllum öðrum borgið og enginn hefur ástæðu til að kvarta yfir hlutskipti sínu eða þess hóps sem hann eða hún tilheyrir. Það sanna þessi dæmi algjörlega.

Efnisorð: , , , ,