sunnudagur, apríl 20, 2014

Greinargerð III

Nokkrar áhugaverðar greinar, bréf og bloggfærslur „um ýmislegt“ sem ég mæli með að fólk lesi sér til upplýsingar og stórskemmtunar.

Sveinn Arnarson spyr í pistli í Akureyrarblaðinu: „Er hægt með einhverri vissu að segja að íþróttir séu besta forvörnin? Hefur íþróttaiðkun og skipulagt íþróttastarf meira forvarnargildi en annað skipulagt tómstundarstarf barna og unglinga?“

Fyrir alvöru vísindaáhugafólk skal tekið fram að pistill Sveins er með tölfræði og súluritum — semsagt alvöru stöff!
Fyrir okkur hin má benda á að forvarnargildi bóklesturs kemur við sögu.

Enn nú um ýmislegt

Benedikt Sigurðarson skrifar um sorphirðu og horfin tré (reyndar á Akureyri en efnið er yfirfæranlegt á höfuðborgarsvæðið ef vill).

Meira um ýmislegt

Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður Vinstri grænna er fyrsti flutningsmaður frumvarps um lögbindingu lágmarkslauna sem lagt var fram á Alþingi á dögunum. Hún ræðir frumvarpið hér, og guð láti gott á vita.

Um ýmislegt, er hefur gleymzt að framan

Sé gengið á smjörfjall sögunnar má lesa um æviminningar karla á Skarðsströnd (millifyrirsagnir hér eru fengnar úr einum pistlinum). Meðal annars er fjallað um endurminningar Steinólfs Lárussonar (1928-2012 bónda í Ytri-Fagradal á Skarðsströnd, sem komu út á bók sem heitir Einræður Steinólfs í Ytri-Fagradal, en Finnbogi Hermannsson skráði. Ég hef ekki lesið bókina ennþá en víðfrægt er „Trjónukrabbabréf Steinólfs í Fagradal“.


Afskrifað tveimur dögum fyrir Mikjálsmessu 1984.

Herra Pétur Þorsteinsson sýslumaður.

Alúðar heilsan óskir bestu. Þar sem ég hef sannspurt að þú sért áhugamaður um sjávargagn og aðra aðskiljanlega náttúru, á, og hér framundan þessum veraldarinnar útnára sem Dalasýsla teljast má vil ég vekja athigli þína á eftirfarandi. Hér framundan láðinu bír ein sérkennileg sjókind bæði djúpt og grunnt, og virðist vera af stjarnfræðilegri stofnstærð
en meðal stærð þessa kvikindis sem einstaklings er svipað og eitt handsápustikki, sava de París, en þó fram mjókkandi og endar í trjónu búkurinn, augu á stilkum svo sem Marsbúar hafa og getur dírið horft aftur firir sig og fram, og haft ifirsín fyrir báða sína enda jafntímis, leikur frammsóknarmönnum mjög öfund til þessa hæfileika dýrsins
tvær tennur hefur dírið sína í hvoru munnviki og bítur saman tönnum frá hlið, tennur þessar eru ekki umluktar vörum heldur nokkurskonar fálmurum og brosir dírið þar af leiðandi sífelldlega, og þó heldur kalt
til að bera sig um, hefur skepnan 10 fætur og ber kné mjög hærra en kviðinn, það er mjög krikagleitt líkt og hestamenn sem lengi hafa riðið feitu

Ævinlega gengur dírið útá hlið ímist til hægri eða vinstri og virðist vera mjög pólitískt, einnig má það teljast mjög siðferðislega þróað skapnaðarlega þar sem spjald vex fyrir bligðun þess mjög sléttfellilega, einna líkast skírlífisbeltum
ekki verður dýrið kingreint af þessum sökum nema með ofbeldi
ef menn vilja hafa einhverjar nitjar af díri þessu er afkaplega örðugt að aflífa það snirtilega, þar sem það sökum síns skapnaðarlags fæst hvorki heingt né skorið, skotið eða rotað, því brinja hörð umlikur skepnuna gjörsamliga og er lífsseigla þessa dírs með ílíkindum, sé það geymt í haldi á þurru landi mun sultur einn ganga frá því dauðu að því er virðist.
bíður það þá örlaga sinna mjög stillilega en þegar því fer að eimast biðin, gefur það frá sér sladdandi hljóð, samskonar sladdandi hljóð mátti heira í baðstofum hér áður firr einkum firripart nætur þegar griðkonur feitar voru knúðar sem ákaflegast til frigðar

Bíldrykkur sá sem bensín kallast hefur mér reinst einna bestur til að aflífa þessa skepnu óskemmda í þeim tilgangi að þurka hana innvirðulega og gefa konum í Reykjavík ágætum og ærupríddum, sem ég hef kunningsskap við utanklæða,
þær stilla þessari skepnu upp við hliðina á Hallgrími Péturssyni ellegar mind af forsetanum og svo innan um plattana
tæplega mun vera vænlegt að veiða skepnu þessa í þeim tilgangi, en ef takast mætti að veiða hana í stórum stíl og upphugsa þokkalega aðferð tilað aflífa hana, vaknar sú spurning hvort ekki mætti verka þessa skepnu í dægilega krás tilað selja þjóðum
er mér fortalið að Job danskir kaupi og eti ólíklegustu kvikindi og borgi þeim mun meira firir sem skepnan er svipljótari, samkvæmt okkar smekk. í þessu skyni mætti eftil vill biðja dírðarmenn firir sunnan um rannsókn á þessu díri og fá plögg, með línuritum og prósentum, svo sem í eina stresstösku til að birja með.


Vertu blessaður
Steinólfur Lárusson

Efnisorð: , ,