sunnudagur, maí 04, 2014

Tvennt gjörólíkt mér

Verandi nú einstaklega vond manneskja þá hef ég oft talað illa um presta. Þeir eiga það flestir oftast skilið — en ég verð stundum að viðurkenna að sumir eiga það ekki alltaf skilið. Norðan heiða býr prestur sem virðist bara ágæt, ekki síst vegna þess að hún er bráðfyndin. Ég les alltaf pistla Hildar Eirar Bolladóttur í Akureyri vikublað (sem mér finnst asnalegt nafn og kalla það því Akureyrarblaðið), jafnvel þótt hún eigi það til að ræða ósýnilega vini sína, þ.e.a.s. Jesú og pabba hans, sem henni eru hugleiknir af frekar augljósum ástæðum. Oftar en ekki eru pistlarnir þó bara verulega fyndnir og ekki skaðar að henni er lagið að koma að þjóðfélagsgagnrýni af mikilli lipurð (dæmi). Nema hvað, í pistli dagsins minnist hún á þá báða plús Maríu Magdalenu en þó fjallar pistillinn að mestu leyti um enn bersyndugri náunga, upprennandi Íslandsvininn Jordan Belfort. Sérann hefur að sögn fengið hann á heilann, en hún hefur gengið fram fyrir skjöldu að gagnrýna það uppátæki að flytja hann til landsins til að spana enn upp siðblinduna í viðskiptalífinu (mín orð, ekki hennar), eða með hennar orðum: það verði ekki til að „efla siðferðisgrundvöll hins íslenska viðskiptalífs“. Hún hefur margt fleira um málið að segja, lesið bara pistilinn.

Nú þegar ég hef hrósað prestinum (og hvet fólk til að lesa pistlana hennar) þá ætla ég næst að snúa mér að því sem einnig er ólíkt mér: að hrósa framsóknarmanni. (Ég vildi gjarnan geta útdeilt ilmsöltum en læt mér nægja að ímynda mér svipinn á lesendum við þessa óvæntu vendingu). Til þess hef ég þó góða ástæðu. Það bar nefnilega til tíðinda í Kópavogi að Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi, lagði fram tillögu um að banna reykingar á almannafæri í Kópavogi. (Annars eiga Hildur Eir og framsóknarmaðurinn ekkert sameiginlegt svo ég viti, þau eru þetta gjörólíka í titlinum.)Ekki langar mig að flytja til Kópavogs, of all places, en ég öfunda þó Kópavogsbúa ef af þessu verður. Það væri nú munur að geta staðið eða setið á Austurvelli án þess að eiga á hættu að verða fyrir tóbaksreyk. New York búar hafa nú í nokkur ár verið lausir við tóbaksreyk í görðum og á torgum, og það hlýtur að vera tímaspursmál þar til sá siður verður tekinn upp hér á landi. Mér finnst full ástæða til að reykvískir borgarfulltrúar (núverandi og tilvonandi) taki málið upp og reyni að verða á undan nágrannasveitarfélaginu til að feta í fótspor heimsborgarinnar.

Prestum og framsóknarmönnum hrósað á einum og sama deginum. Ég held að ég leggi mig eftir þessi átök.

Efnisorð: , , , , ,