Menntun kvenna
Nýlega skrifaði ég um andúð mína á trúarskólum þar sem börnum og ungu fólki er kennt í anda ákveðinna trúarbragða. Eins og það sem ég fjallaði um í þeim pistli sé ekki nógu slæmt, eru til trúarhópar sem eru á móti menntun almennt, og þá sérstaklega „vestrænni menntun“. Nú beinast augu heimsbyggðarinnar að trúarbrjálæðingunum í Boko Haram sem hafa rænt rúmlega 200 skólastúlkum í Norður-Nígeríu. Um það mál fjallaði Friðrik Páll Jónsson í útvarpspistli, og fer hér á eftir útdráttur úr pistlinum (hægt er að hlusta á hann í heild hér.)
„Skólaganga stúlkna er eitur í beinum margra herskárra bókstafstrúarmanna múslima sem telja menntun stúlkna í andstöðu við íslam og Kóraninn. Talibanar í Afghanistan hafa kveikt í fjölda skóla, skotið kennara og skólastjóra, og skvett sýru í andlit stúlkna sem sækja skóla. Og þetta er víða gert. Nú síðast beinist athygli að Norður-Nígeríu. Boko Haram, herská samtök í norðurhluta landsins, hafa orðið þúsundum manna að bana á undanförnum árum. Þau kenna sig við salafisma, en salafistar telja sig eina færa um að túlka Kóraninn, og líta á hófsama múslíma sem villutrúarmenn. Stefna þeirra er því að refsa þeim sem þeir telja lina í trúnni, og tryggja salafismanum framgang. Flest fórnarlömb Boko Haram eru múslímar, þriðjungur fórnarlambanna er kristinn. Samtökin vilja stofna kalífaríki í Norður-Nígeríu með sjaría-lögum; fyrirmælum, boðum og bönnum úr Kóraninum. Nafnið, Boko Haram er úr Hausamáli sem talað er á svæðinu, og orðin þýða: 'vestræn menntun er synd', eða 'vestræn menntun er bönnuð'.
Menntaskóli í afskekktum bæ Chibok í Borno í norðausturhluta landsins, heimavistarskóli sem hafði verið lokað, var opnaður aftur til þess að framúrskarandi nemendur gætu lokið prófum. Stúlkur á aldrinum fjórtán til átján ára sem stefna að því að verða kennarar, læknar og lögfræðingar. Þetta gátu samtökin ekki sætt sig við. Fyrir þremur vikum, skömmu fyrir miðnætti þegar stúlkurnar voru farnar í háttinn, kom bílalest að skólanum með fjölda vopnaðra manna. „Við héldum að þeir væru hermenn,“ segir ein stúlkan sem komst undan. „Þeir voru í herbúningum og sögðust ætla að bjarga okkur. Við áttuðum okkur ekki á því fyrr en um seinan að þeir voru uppreisnarmenn. Þeir skutu öryggisverði skólans og kveiktu í skólanum.“
Á myndbandi sem frönsku fréttastofunni AFP barst í gær [5. maí] viðurkennir Abubakar Shekau leiðtogi Boko Haram að hafa rænt stúlkunum. Hann hótar að selja þær í þrældóm eða þvinga þær til þess að giftast. „Það á að gifta stúlkur níu ára. Það á að gifta þær tólf ára. Ég ætla að selja þær á markaði í nafni Allah,“ segir hann. „Ég var búinn að segja að það ætti að leggja niður alla vestræna menntun. Stúlkur, þið eigið að hætta í skólanum.“ Orðrómur er um að þær verði hugsanlega eða hafi þegar verið fluttar til grannríkja, til Chad eða Kamerún. Uppreisnarforinginn gagnrýnir enn fremur á myndbandinu lýðræðislega stjórnarhætti, og þá sem ekki aðhyllast íslam.“Hér er sleppt úr pistlinum því sem fjallar um efnahag og íbúafjölda Nígeríu (175 milljónir) og samskipti nígeríska forsetans við bandarísk stjórnvöld um aðstoð við að finna stúlkurnar. Það sem á eftir kemur er hins vegar athyglisvert, ekki síst í ljósi þess að mörgum þykir ránið á stúlkunum og viðhorf Boko Haram alveg týpískt fyrir múslima.
„Mannránið minnir á annað rán í Úganda fyrir átján árum. Þá var 139 stúlkum á aldrinum 11 til 16 ára rænt af heimavist stúlknaskóla. Þar voru að verki samtök uppreisnarmanna sem sögðust berjast undir merkjum kristinnar trúar og vilja stofna ríki byggt á boðorðunum tíu. Skólastjórinn sýndi þá mikið hugrekki og fylgdi stúlkunum inn í skóginn og tókst að bjarga 109 þeirra. Þrjátíu þeirra voru þvingaðar til að verða eiginkonur foringja skæruliðahersins, en þeim tókst flestum að flýja um síðir. Herskáir bókstafstrúarmenn óttast menntun, vestræna menntun. Eitt besta ráðið til þess að berjast gegn þeim er að mennta fólk, ekki síst stúlkur. Það er lykillinn að framförum.“Okkur Vesturlandabúunum með vestrænu menntunina þykir þetta auðvitað allt mjög svakalegt — sem það er — enda langt síðan við komumst af því stigi að álíta að konur eigi ekki að mennta sig. Okkur finnst andúð á menntun furðuleg og fæst okkar sjá nokkuð athugavert við hverja þá menntun sem stúlkur gætu viljað leggja fyrir sig. Þó ber talsvert á hópi fólks hér á landi sem finnur því allt til foráttu að konur (og karlar) sæki nám í kynjafræði, vilja helst að slík menntun verði ekki í boði og allsekki fyrir ungt fólk. Að baki liggur andúð og hræðsla við að konur fræðist of mikið um samfélag sitt og vilji í kjölfarið jafnvel breyta samfélaginu. Það er ekki svo ólíkt trúarbrjálæðingunum sem óttast „vestrænu áhrifin“, þótt baráttuaðferðir þessara afturhaldsafla séu ólíkar.
Efnisorð: alþjóðamál, feminismi, karlmenn, menntamál, trú
<< Home