þriðjudagur, maí 20, 2014

Og tryggja með því trausta at­vinnu og byggð í land­inu

Sægreifar hafa reynt að láta líta út fyrir að „skeytingarlaust kaffihúsahyski úr Reykjavík“ sé óvinir fólks í sjávarplássunum en í raun eru það sægreifarnir sem eru óvinirnir, segir Illugi Jökulsson. Og hann segir að „sjaldan hefur þessi lygi verið auðsæ og þessa dagana“. Ég get tekið undir það. Fréttir síðustu daga um lokun fiskvinnslu á Djúpavogi, Þingeyri og Húsavík hafa vakið upp óþægilegar minningar um hvernig kvótakerfið hefur leikið landsbyggðina.
Á Austurlandi er staðan þannig að nánast öll bolfiskvinnsla er horfin af 150 km strandlengju.
Eskifjörður, Reyðarfjörður, Stöðvarfjörður, Breiðdalsvík — og nú er komin röðin að Djúpavogi.*
Aftur og aftur hafa útgerðarmenn, handhafar kvótans, selt kvótann, eða eins og í þessu tilviki, ákveðið að það sé ódýrara að fiskvinnslan fari öll fram á einum stað og segja starfsfólkinu að það geti bara flutt til Grindavíkur ef það vill halda vinnunni. Til að vekja athygli á þessari stöðu hefur Djúpavogshreppur látið gera áhrifamikið myndband (horfa hér) þar sem sýnt er framá að blómleg byggð þar verði fyrir mikilli blóðtöku ef fólkið flyst til Grindavíkur eða flæmist burt vegna yfirvofandi atvinnuleysis.
„Nytja­stofn­ar á Íslands­miðum eru sam­eign ís­lensku þjóðar­inn­ar. Mark­mið laga þess­ara er að stuðla að vernd­un og hag­kvæmri nýt­ingu þeirra og tryggja með því trausta at­vinnu og byggð í land­inu. Úthlut­un veiðiheim­ilda sam­kvæmt lög­um þess­um mynd­ar ekki eign­ar­rétt eða óaft­ur­kall­an­legt for­ræði ein­stakra aðila yfir veiðiheim­ild­um.“**
Fyrir réttum tveimur árum ólmaðist LÍÚ vegna þess að þáverandi stjórnvöld ætluðu að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu. Útgerðarmenn blésu til auglýsingaherferðar gegn þessari ósvinnu,*** og síðan blésu þeir í skipslúðra, og siguðu starfsfólki sínu á Austurvöll til að mótmæla. Þá áttum við öll að trúa því að útgerðarmenn væru bestu vinir sjávarþorpanna. Ákvörðun Vísis um að hætta fiskvinnslu á Djúpavogi, Þingeyri og Húsavík, ætti að hrista uppí þeim sem þó gleyptu agnið á sínum tíma.
 ____
* Úr myndbandinu.
** Fyrsta grein fiskveiðistjórnunarlaga.
** Auglýsingaherferðin varð mér tilefni til að taka saman nokkrar ágætar athugasemdir þar sem meðal annars sjávarplássin á Austfjörðum, þessi sem nefnd eru í myndbandi Djúpavogshrepps, bar á góma.

Efnisorð: , ,