þriðjudagur, júní 03, 2014

Reynirinn skipar alveg sérstakan sess

Það er hálfskrítið að heyra af áformum um að fella aldargamalt reynitré í miðborg Reykjavíkur nánast í beinu framhaldi af því að hlusta á útvarpsþátt um Möðrufellshrísluna. Í dagskrárkynningu Sagnaslóðar í umsjón Birgis Sveinbjörnssonar (lesari með honum er Bryndís Björg Þórhallsdóttir) segir:

„Þetta er eitt allra frægasta tré sem sprottið hefur upp úr íslenskri mold þ.e. reynirinn í Möðrufellshrauni í Eyjafirði fram eða Möðrufellshríslan sem oft hefur verið kölluð svo en bæði varð reynirinn afar langlífur og var á honum átrúnaður um aldir.“
Hríslan sú var hvorki lítil né lítilmótleg, og reynitré sem enn standa t.a.m. á Skriðu í Hörgárdal eru afkomendur þessa fræga viðar, eins og Jónas Hallgrímsson komst að.

Frá þessu öllu segir útvarpsþátturinn Sagnaslóð, en vegna þess að vélritunarstúlkan þvertekur fyrir að skrifa upp heilu og hálfu bækurnar og útvarpsþættina á næstunni, bendi ég að þið getið hlustað á hann hér á hlaðvarpinu og hér í sarpi.

Silfurreynirinn á Grettisgötunni verður kannski ekki jafn sögufrægur og Möðrufellshríslan (enda innflytjandi), líklega verðum við öll búin að gleyma honum fljótlega eftir að húsin í kring hafa verið færð annað og hótel komið í staðinn. (Skemmtilegt að minnast þess að í húsaröðinni gegnt fyrirhuguðum hótelbyggingum var sólbaðsstofa hér á árum áður; þá ætluðu allir að verða ríkir á að gera óþrjótandi fjölda af fölum Íslendingum að sólbrúnum stælgæjum, nú á að græða á óþrjótandi uppsprettu af útlendingum.)

„Það er áberandi í sögnum að reynirinn skipar alveg sérstakan sess í hugarheimi Íslendingsins. Reynirinn skipar líka alveg sérstakan sess í íslenskri náttúru.“
(Sigríður Hjartar, „Reynir — hið helga tré Íslands.)

Mér er jafnilla við að tré séu felld til að rýma fyrir steypuklumpum gróðapunga (hver ætlar annars að byggja þetta hótel?) og þegar þau eru felld til að einhver vitleysingurinn vill fá sól á pallinn hjá sér, til þess að bæta hjá sér útsýnið, eða til þess að halda í flugbraut sem er hvorteðer á förum. Í þessu tilviki á að fella tré sem hefur staðið á sama stað í 106 ár, í því hafa klifrað kynslóðir katta og krakka, það hefur andað frá sér súrefni frá því kynt var með kolum, og ef ekki væri fyrir heimsku þeirra sem stýra skipulagsmálum borgarinnar (eða hver stóð fyrir því að þetta var samþykkt árið 2003?) þá ætti þetta tré eftir að standa þarna í góð hundrað ár í viðbót, öllum til yndisauka og í sjálfs síns rétti.

Það má auðvitað reyna að skora á Reykjavíkurborg, en þessu tré verður ekki bjargað héðanaf (hvernig gekk að bjarga Nasa frá hótelvæðingunni?), það er ekkert sem getur stoppað þéttingu byggðarinnar í þágu gróðaaflanna. Það er öllum sama um einhverjar hríslur.

Efnisorð: , ,