þriðjudagur, júní 10, 2014

Einn gegn öllum

Múslimaumræðunni linnir ekki. Hatursmenn múslima — nýstoltir kjósendur Framsóknarflokksins — telja sig nú vera komnir með löggildingu fyrir skoðunum sínum og fara mikinn. Forystufólk Framsóknar „hafa gefið forstokkuðum rasistum rödd, lögmæti og jafnvel stolt“.

Nýbónaðir borgarfulltrúar Framsóknar þykjast eftir kosningarnar ekkert kannast við eigin orð, og feta þar í fótspor foringja síns Sigmundar ég-sagði-það-aldrei Davíðs.

En kjósendurnir úr skúmaskotunum hafa skilað atkvæðum í kassann og þeir eru enn sigurreifir. Samkvæmt þeim eru allir múslimar hryðjuverkamenn, morðóðir, vilja handarhöggva þjófa, karlar vilja berja allar konur og giftast níu ára stelpum (með fulltingi samfylkingarsinnaðra yfirvalda sem auðvitað myndu leyfa þeim að giftast níu ára stelpum). Múslimar eru semsagt allir bandóðir og hættulegir.

Til mótvægis öllu þessu múslimahatri sem beinist að múslimum almennt vil ég tefla fram einum múslima. Og það er ekkert smápeð.

Ég tefli fram Muhammad Ali, þreföldum heimsmeistara í hnefaleikum. Ali vann gullverðlaun í hnefaleikum á Ólympíuleikunum í Róm 1960 og var orðinn atvinnumaður með stefnuna á heimsmeistaratitilinn í þungavigt þegar hann kynntist íslamska sértrúarsöfnuðinum Þjóð íslams og gerðist múslimi (og fékk þá nafnið Muhammad Ali, en hann fæddist inn í kristna fjölskyldu og hét Cassius Clay). Árið 1964, daginn eftir að hann varð heimsmeistari, tilkynnti hann umheiminum að hann væri múslimi og vildi ekki lengur láta kalla sig sínu upprunalega nafni. Um tíma var hann vinur Malcolm X sem einnig tilheyrði Þjóð íslams en leiðir skildu þegar Malcolm yfirgaf söfnuðinn og gerðist súnní múslimi (og stofnaði síðar sín eigin samtök). Muhammad Ali gerðist súnní múslimi árið 1974 og hefur á síðustu árum aðhyllst súfisma.

Þegar Ali var kvaddur í herinn árið 1966 neitaði hann að gegna herþjónustu í Víetnam af trúarástæðum. Hann sá auk þess enga ástæðu til að berjast við liðsmenn Viet-Cong, þeir hefðu aldrei kallað hann „nigger“, annað en það sem hann hefði mátt þola í Bandaríkjunum. Það hafði gríðarlegar afleiðingar fyrir feril hans: hann fékk fimm ára fangelsisdóm, var sviptur heimsmeistaratitlinum og vegabréfinu, og var settur í keppnisbann. Hann gat því hvorki keppt í Bandaríkjunum né erlendis. Með þessu var hann sviptur lífsviðurværi sínu. Þetta voru hreinar ofsóknir á hendur Ali vegna trúar hans, litarháttar og pólitískra skoðana. En hann var tilbúinn að fórna framanum, tækifæri til að afla sér gríðarlegra launa, og jafnvel frelsinu fyrir sannfæringu sína.

Ali var 25 ára þegar hann var settur í keppnisbannið, á hátindi líkamlegrar getu sinnar sem íþróttamaður, og keppti ekkert í tvö og hálft ár. Hann áfrýjaði fangelsisdómnum til hæstaréttar og var frjáls ferða sinna innan Bandaríkjanna þar til hæstiréttur sneri við dómnum eftir fjögurrra ára bið. Meðan á biðinni stóð hélt Ali ræður í háskólum um þver Bandaríkin, gagnrýndi Víetnamstríðið og talaði fyrir réttindum blökkumanna.

Af hnefaleikaferlinum er það að segja að Ali barðist við þáverandi heimsmeistara árið 1974, tapaði titlinum 1978 í bardaga og vann heimsmeistaratitilinn aftur seinna sama ár. Hann varð því þrisvar heimsmeistari, og svo má ekki gleyma að þegar hann var 18 ára varð hann Ólympíumeistari. Sjálfur sagðist hann vera mestur, bestur og fallegastur. Hann var semsagt ekki að rifna úr hógværð. En hann var ekki bara allur á yfirborðinu eða heilalaus bardagamaskína heldur var hann andlega þenkjandi (hvað sem manni finnst um trúarskoðanir hans eða hin undarlegu samtök Þjóð íslams) og tók afstöðu til helstu deilumála samtíma síns: réttindum blökkumanna og Víetnamstríðinu.

Allt þetta, og stórbrotinn persónuleikinn, gerði það að verkum að hann var útnefndur íþróttamaður aldarinnar af íþróttatímaritum og fréttamiðlum beggja vegna Atlantsála. Hann hefur enda verið fenginn til að taka þátt í opnunarathöfn Ólympíuleika í tvö skipti: árið 1996 í Atlanta og 2012 í London, þrátt fyrir að vera illa haldinn af Parkinsonssjúkdómnum. Þá var hann um tíma friðarsendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna. Það virðist semsagt almenn skoðun núorðið að Muhammad Ali sé friðsamur og góður gæi.

Ég ætla ekki að halda því fram að allir múslimar séu krútt og engum þeirra sé trúandi til ills. En að minnsta kosti einn þeirra var nógu friðelskandi til að hafna stríði, og fórna öllu fyrir þá sannfæringu sína.

Muhammad Ali er uppáhalds músliminn minn.

Efnisorð: , , ,