þriðjudagur, júlí 08, 2014

Búrkur og níkab, nei takk

Sjaldan hef ég lesið grein á Knúzinu sem ég hef verið jafn innilega ósammála og þeirri sem var birt í dag undir titlinum Franska slæðubannið. Fyrir þau sem ekki þekkja til þá voru sett lög í Frakklandi sem bönnuðu notkun á og níkab slæðum sem ná yfir andlitið allt utan augna. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur staðfest að lögin séu ekki brot á mannréttindalögum.

Höfundur Knúzgreinarinnar lýsir sig hinsvegar ósammála níkab- og búrkubanninu og flokkar það sem afskiptasemi af klæðaburði kvenna. Málið er bara að það eru trúarofstækiskallar sem skikka konur til að klæðast þessum hulinsfatnaði, það er partur af kúgun þeirra á konum. Notkunin er mest í þeim löndum sem kúgun kvenna er á þeim skala sem okkur hryllir við. En þegar þessir karlar koma til Vesturlanda er óþarfi að leyfa þeim að beita þessu kúgunartæki ef hægt er að koma í veg fyrir það. Bann við notkun níkab og búrku ætti að vera tekið upp sem víðast, og við ættum að koma því á sem fyrst. Það er mun betra að byrgja brunninn áður en búrkuklæddar konur fara að sjást hér.

Ég gef lítið fyrir einstaklingshyggjurök þau sem koma fram í Knúzpistlinum og í kæru frönsku konunnar sem fór með málið fyrir Mannréttindadómstólinn á þeim forsendum að hún vildi fá að klæðast níkab og búrku (hún er þá líklega dæmi um hamingjusömu búrkuklæddu konuna). Það er mun mikilvægara að hafa hagsmuni þess fjölda kvenna sem er annars neyddur til að klæðast þannig, og vernda þær gegn þeirri kúgun. Einstaklingshyggjusinnum má alveg finnast það forræðishyggja að láta fjölda kúgaðra hafa meiri rétt en hamingjusaman einstakling sem berst fyrir frelsi sínu til að vera ósýnileg, þeir um það. Ég fagna banni við búrkum og níkab og panta svoleiðis hingað, takk.

Efnisorð: , , , , ,