fimmtudagur, júlí 03, 2014

Er nauðsynlegt að skjóta þá oft?

Það var bara í gær sem ég var að hlusta á útvarpsviðtal við Rannveigu Grétarsdóttur framkvæmdastjóra hvalaskoðunarfyrirtæksins Eldingar um hvalveiðar Íslendinga [Sjónmálsþátturinn er frá 25. júní, viðtalið við Rannveigu hefst á 25:40 mínútu og er til 36:12, en kynning á því hefst 22:22]. Í dag er svo forsíðufrétt Fréttablaðsins að „niðurstöður yfirstandandi rannsókna á dauðatíma langreyðar og hrefnu verða ekki gerðar opinberar er þeim lýkur.“ Það má semsagt ekki segja frá því hvað tekur langan tíma að murka lífið úr hvölum, við gætum fyllst óhugnaði. Nú vill svo til að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra bar nýlega saman hvalveiðar Íslendinga og dauðarefsingar í Bandaríkjunum (og var semsagt að skamma Bandaríkjamenn fyrir að agnúast útí hvalveiðiflísina okkar í stað þess að skoða rafmagnsstólabjálka í eigin auga). Það er auðvitað gott að íslenskur ráðherra skuli gagnrýna aftökur Bandaríkjamanna, en kannski ekki viðeigandi af þessu tilefni. Samt var það góð samlíking að tvennu leyti. A) Hvortveggja er fordæmt af siðuðum þjóðum, B) Hræðilegar fréttir um langt dauðastríð þeirra dauðadæmdu verður alltaf að hafa í huga þegar reynt er að halda því fram að það séu notaðar mannúðlegar aðferðir við að taka fólk af lífi — eða hvali.

Fyrir tæpu ári var heill Víðsjárþáttur lagður undir hvali og voru meðal annars spiluð brot úr þætti Páls Heiðars Jónssonar, „Hvalasögu“ frá 1978, þar sem farið er í bátsferð með Hval 7 en þar koma fram þeir Friðbert Elí Gíslason skipstjóri og Gísli Benjamínsson, 1. stýrimaður. Páll Heiðar fylgist með eltingarleik við búrhval sem þó komst ekki að koma skoti á (búrhvalir voru veiddir hér við land til 1983) en hlustendur heyra tvær langreyðar skotnar (hér er líklega ástæða til að vara hlustendur við, og jafnvel lesendur líka). Fyrri langreyðurin drapst ekki við fyrsta skot [það reið af á 34:45 mínútu] og „hvalurinn tók á sprett svona á að giska 500 metra og dró þungan stálvírinn á eftir sér … Þeir hlóðu byssuna á ný og voru tilbúnir að umskjóta, þ.e.a.s. skjóta lausum skutli“ [til að koma í hann sprengjunni].

PHJ spyr [37:38]: „Næsta skot á að drepa hann, semsagt?“ „Það vona ég“, svarar skipstjórinn, og segir svo:
„Þau eru örfá skotin sem ég hef orðið að tvískjóta í sumar, eða örfáir hvalir sem ég hef orðið að … Þeir hafa venjulega dáið bara við fyrsta skotið, það er helst ef maður er að taks séns á löngu færi sem að húkkast svona í þá.“
Svo segir útvarpsmaður: „Hann streitist ennþá við“. „Já, hann gerir það, það er dáldið líf í honum.“
Seinna skotið ríður svo af [38:55] og PHJ segir (það er klippt inní):
„Átökin fyrir framan skipið fóru minnkandi eftir því sem sjórinn varð blóðlitaðri. Ef grannt er hlustað má heyra blástur dýrsins … og brátt fjarar lífið út. Umskotið mun hafa hitt svo að segja beint í hjartastað og hafa sprungið þar … Og nú er þessi drottning hafsins reyrð kyrfilega föst á sporðinum upp við skipshliðina.“
[lýsingu á fyrsta skoti lýkur 39:47].

Næsti hvalur deyr í fyrsta skoti, en alls er getið um að Hvalur 7 hafi veitt þrjár langreyðar [sem þeir kalla finnhval] í þessari veiðiferð.

Erfitt er að átta sig á hvað dauðastríð hvalsins sem fyrstur var veiddur tók í raun langan tíma [fyrsta skot ríður af 34:45 og næsta 38:55] því á atburðarrásinni er gert hlé þar sem útvarpsmaðurinn lýsir því sem gerðist og er þá greinilega ekki á vettvangi. Hvort það verður til þess að dauðastríð dýrsins virðist lengra í þættinum eða það virðist mun styttra er óljóst. Það er þó borðleggjandi að hvalurinn dó ekki við fyrsta skot heldur tók á sprett en var dreginn á sárinu með vír að skipinu þar sem hann barðist um þar til seinna skotið dró hann til dauða.

Skipstjóri hvalveiðibátsins tekur fram að þetta gangi yfirleitt fljótar fyrir sig, en viðurkennir um leið að þetta sama sumar hafi þetta gerst oftar en einu sinni, þetta er semsagt ekki óalgengt. Einhverjum þykir það eflaust minniháttar mál hvort það þarf að skjóta þessar stóru skepnur oftar en einu sinni eða hvort það tekur þær fáeinar sekúndur eða margar mínútur (eða allt uppundir hálftíma) að deyja, en getur sá hinn sami sagt það sama um aftökur fanga í Bandaríkjunum, eða er hreinlega allt réttlætanlegt þegar kemur að hvalveiðum?

Í viðtalinu við Rannveigu í Sjónmáli kom fram að Íslendingar rugluðu gjarnan saman veiðum á hrefnu (sem m.a. fara fram á Faxaflóa rétt við nefið á ferðamönnum á hvalaskoðunarbátum og afurðirnar eru seldar innanlands) og veiðum á langreyði (sem Kristján Loftsson stendur að og sendir með miklum tilkostnaði til Japans, en í hvalaskoðunarferðum eru langreyðar ekki skoðaðar (a.m.k. ekki í Faxaflóa) og Íslendingar éta ekki langreyðarkjöt, það eru veiðar á langreyði sem alþjóðasamfélagið gagnrýnir fyrst og fremst vegna útrýmingarhættu). Ég hef líklega gerst sek um að gera ekki greinarmun á þessu tvennu þegar ég skrifa um hvalveiðar, hef aðallega beint spjótum mínum að Kristjáni í Hval og andstöðu alþjóðasamfélagsins gegn hvalveiðum hans en ekki tekið fram að ég er einnig á móti hrefnuveiðum á Faxaflóa, þá ekki síst vegna hvalaskoðunar sem mér finnst að eigi að hafa forgang. Það sem ég hafði líka litið framhjá er að hrefnuveiðar eru aðeins stundaðar af fáum fyrirtækjum og þarna er því, rétt eins og í tilviki Kristjáns í Hval, verið að láta hagsmuni einstakra manna hafa forgang framyfir hagsmuni fjöldans (ferðaþjónustunnar, ímyndar Íslands).

Ennfremur sagði Rannveig frá því að Gunnar Bergmann hrefnuveiðimaður og eigandi útgerðarfélagsins Hrafnreyður ehf. og IP dreifingar ehf. sem sér um sölu og dreifingu hrefnukjöts, er sonur Jóns Gunnarssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins og formanns atvinnuveganefndar. Jón Gunnarsson hefur því hagsmuni sonar síns í huga þegar hann berst fyrir hvalveiðum og gegn því að hvalveiðum séu sett takmörk á Faxaflóa. Þetta er auðvitað stórpólitískt mál sem sést einnig í því að Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, gerði það að síðasta embættisverki sínu að stækka verulega griðasvæði hvala í Faxaflóa en Sigurður Ingi núverandi ráðherra málaflokksins færði mörkin aftur þannig að hrefnuveiðibátar hafa aftur stærra veiðisvæði, alveg uppvið helsta hvalaskoðunarsvæðið.

En nú eru semsagt Bandaríkjamenn að beita sér gegn langreyðarveiðum Kristjáns Loftssonar og hvalaskoðunarfólk að andæfa hrefnuveiðum sonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Það má hver sem er hafa hvaða skoðun sem er á skynsemi hvala, eða skynsemina í því að friða hvali eða skjóta þá. Ferðaþjónustan hlýtur þó að leggjast á sveif með hvalveiðibanni enda alþjóðasamfélagið á móti hvalveiðum, rétt eins og fullnustu dauðadóma í Bandaríkjunum. Við dýravinirnir viljum auðvitað ekki að nokkur dýr kveljist. En ef þau kveljast, þá eigum við rétt á að vita það til að geta mótmælt öllum hvalveiðum.




Efnisorð: ,