sunnudagur, júlí 20, 2014

Thelma og Louise

Danska sjónvarpið sýndi Thelmu & Louise í dag. Ég hafði ekki séð myndina lengi en það er endalaust hægt að horfa á hana. Margt hefur verið rætt og gagnrýnt og er endirinn líklega margumræddastur. En ég ætla ekki að tala um hann hér.

Líklega hefur allt áhugafólk um kvikmyndir og feminisma séð Thelmu & Louise. Fyrir þær sem eiga það eftir er samt rétt að vara við einni senu í myndinni. Aðdragandinn að henni er sá að vinkonurnar Thelma og Louise ætla í bústað yfir helgi, Thelma án leyfis stjórnsama hálfvitans sem hún er gift, en Louise vegna þess að hún var að rífast við kærastann (sem reynist svo vera alveg prýðilegur þegar á reynir síðar í myndinni). Á leiðinni stoppa þær á dansstað því Thelmu langar að njóta frelsisins. Þær eru varla komnar inn þegar á þær svífur maður sem reynir við Thelmu (hann heitir Harlan) og eftir að hafa hellt í sig áfengi fer hún á dansgólfið með honum. Louise dansar líka við einhvern mann og allir skemmta sér vel. En eftir að hafa hringsnúist í dansinum verður Thelmu illt og Harlan fylgir henni út á bílaplan þar sem hún ælir. (Grunur leikur á að hann hafi einmitt hringsnúið henni ótæpilega til þess að geta farið út með hana.) Hann ætlar svo að kyssa hana en hún vill það ekki og þegar hún neitar áleitni hans ítrekað lemur hann hana og er alveg við það að nauðga henni þegar Louise skerst í leikinn. Hún hefur byssu þannig að Harlan verður að sleppa Thelmu, sem er blóðug og grátandi, en segir að þau hafi bara verið að skemmta sér. Thelma segir honum að í framtíðinni skuli hann átta sig á því að þegar kona grætur sé hún ekki að skemmta sér en Harlan tekur ekki tali heldur segir að hann hefði átt að klára það sem hann byrjaði á og lætur ýmis fúkyrði fjúka. Við það missir Louise stjórn á sér og skýtur hann til bana.

Thelma og Louise bruna burt í áfalli yfir þessum atburðum, annarri var næstum nauðgað en hin drap mann. Thelma vill fara til lögreglunnar og segja alla söguna en Louise bendir henni höstuglega á að hundrað manns hafi séð hana í örmum mannsins allt kvöldið á dansgólfinu, og enginn muni trúa þeim. Louise klykkir út með að segja „við búum ekki í þannig veröld“.

Myndin var gerð 1991 en ennþá búum við ekki í þannig veröld að konum sé trúað að þær hafi orðið fyrir nauðgun (eða nauðgunartilraun) hafi þær sést vera hupplegar við manninn áður en hann lét til skarar skríða. Nýlega var karlmaður sýknaður af nauðgun sem hann var kærður fyrir en til hans og fórnarlambsins hafði sést þar sem þau voru að kyssast fyrir framan tjald á Þjóðhátíð og fóru svo saman inn í tjaldið.* Að stelpa fari sjálfviljug inn í tjald með strák þýðir auðvitað að eftir það er ekki hægt að nauðga henni, að mati íslenska dómsvaldsins, rétt einsog lögreglan í Arkansas hefði ekki tekið Thelmu trúanlega ef hún hefði sagt þeim hvað Harlan gerði.

Ferð Thelmu og Louise breytist í fjögurra daga ferðalag á flótta um suðvesturríki Bandaríkjanna og áhorfendur sjá fjóra kallskúnka sem þær eiga í höggi við. Áður hefur eiginmaður Thelmu verið nefndur og samskiptum hennar við nauðgarann, en hún kynnist einnig strák sem hún sefur hjá. Hún treystir enn öllum sem hún hittir en þessi stelur af þeim öllum peningunum þeirra (sparifé Louise) og sýnir þannig að honum er algerlega sama um velferð hennar. Á vegi þeirra Louise verður einnig trukkabílstjóri sem þær rekast á aftur og aftur á ferð sinni. Hann er ógeðslegur á allan hátt og sýnir þeim kynferðislega tilburði í hvert sinn sem þær sjá hann. Þær enda á að gefa honum kost á að biðjast afsökunar eftir að hafa sagt honum hvað hegðun hans sé ógeðfelld, en einsog Harlan rífur hann kjaft þó þær séu vopnaðar byssum. Þær skjóta því 18 hjóla trukkinn í tætlur og er það einhverjar ánægjulegustu málalyktir sem sést hafa á hvíta tjaldinu.

Svo ég endurtaki: við búum enn í óbreyttum heimi. Það eru enn til karlar sem vilja að konur þeirra séu þeim undirgefnar, það eru enn karlar sem nauðga, það eru enn karlar sem skeyta engu um velferð kvenna, það eru enn karlar sem áreita konur sem hafa ekkert til þess unnið annað en vera til.

Og ég sem hélt að karlmenn myndu sjá að sér eftir að hafa séð Thelmu & Louise.


___

* Ég minntist ekkert á þetta mál þegar sýknudómur féll því mér fannst þetta vera ósköp venjubundin afgreiðsla dómskerfis á nauðgunarmáli að það tæki því ekki að ræða þetta mál líka. En Ingimar Karl Helgason skrifaði um það og kom með mjög áhugaverðan punkt. Hann sagði: „Ég hef engar forsendur til þess að meta sekt eða sakleysi í þessu máli. Mér finnst hins vegar magnað að sú sem verður fyrir ofbeldi og kærir skuli í reynd verða sú sem réttað er yfir. Það er eitthvað rangt við þetta.
Það blasir við að það þarf að bæta þetta ferli. Það er ekki í lagi að setja þolendur ofbeldis á sakamannabekk.“

Efnisorð: , , ,