laugardagur, ágúst 30, 2014

Fréttir sumarsins 2014

Um síðustu helgi gaus. Eða ekki. Eða bara smá en það sást ekki. Í vikunni gaus, það sást, en var bara smá og sást svo ekki meir. Eldgos hefur verið mál málanna í öllum fréttamiðlum sem von er en utan úr heimi eru fréttirnar öllu válegri. Tvö lítil smágos eru ekkert (a.m.k. meðan þau eru svona meinlaus) í samanburði við manngerðar hörmungar framdar af meira og minna brjáluðum mönnum víða um heim, ýmist af valdafíkn eða trúarofstæki, nema hvortveggja sé.

— Borgarastríð í Sýrlandi þar sem allir stríðandi hópar í landinu hafa gert sig seka um mannréttindabrot og grimmdarverk gagnvart almennum borgurum.
— Árásir Ísraela á Palestínu þar sem mannfall meðal almennra borgara er svívirðilega hátt.
— Ástandið í Úkraínu þar sem Rússar ógna sjálfstæði landsins.
— Boko Haram sem heldur stórum landsvæðum í Nígeríu í heljargreipum með morðum og mannránum í stórum stíl.
— Uppgangur íslamskra vígamanna úr samtökunum Íslamska ríkið (ISIS) sem herja á alla þá sem ekki eru sammála þeim í trúmálum í Írak og Sýrlandi, og beita almenning svipuðum aðferðum (mansal, mannrán, aftökur, fjöldamorð) og Boko Haram en hafa meiri liðsstyrk og hafa lagt undir sig stærra landsvæði.
— Fjöldi karlmanna sem búsettir eru í Bandaríkjunum og Evrópu leggja land undir fót til að ganga til liðs við ISIS. Það var ekki við því að búast að þeir væru allir hrifnir af vestrænu lýðræði, jafnrétti kynjanna eða trúfrelsi (það gera heldur ekki allir sem skrifa athugasemdir í íslenska vefmiðla), en hvað fór svo úrskeiðis að þeir aðhyllast íslamskt ríki þar sem allir eru drepnir sem ekki aðhyllast einhverja öfgaútgáfu af trúnni?

Og ef einhver skyldi halda að það sé bara í miðausturlöndum og Afríku sem allt er farið til fjandans:
— Kynþáttastríð á götum smábæjar í Bandaríkjunum.

Það er þungbær staðreynd að árið 2014 sé mannkynið ekki komið lengra.


Efnisorð: , , , , ,