fimmtudagur, ágúst 21, 2014

Konur sem eru beggja blands gagnvart konum sem eru á móti konum sem eru á móti feminisma

Hér á eftir fer þýðing á pistli eftir bandarísku bloggessuna og rithöfundinn Jenny Lawson sem hún birti á bloggi sínu The Bloggess.
___

Jæja ... Núna er mikið talað um tumblr sem heitir Konurgegnfeminisma (e. WomenAgainstFeminism). Þar eru bara myndir af konum sem halda á handskrifuðum skiltum sem er skrifað á „Ég þarf ekki feminisma af því að …“ Sumar ástæðurnar sem þær gefa fyrir að þurfa ekki feminisma virðast næstum vera skopstælingar („Hvernig í fjandanum á ég að opna krukkur og lyfta þungum hlutum án eiginmanns míns?“) og sumar („Ég þarf ekki að láta líkamshárin vaxa til að sanna að ég sé jafningi karlmanna“) fá mig til að undrast hvaðan í ósköpunum þær fá þessar skilgreiningar sínar á feminisma.

Fyrst velti ég fyrir mér að byrja með mitt eigið „Ég þarf ekki ___ af því að“ tumblr þar sem fólk héldi á álíka óskiljanlegum skiltum. Skiltum á borð við:


Ég þarf ekki bækur af því að VEISTU HVER SKRIFAÐI BÆKUR? HITLER. HITLER SKRIFAÐI BÓK. NEI TAKK, NASISTAR.

Ég þarf ekki peninga ÞVÍ ÉG Á TÉKKHEFTI, FÁVITI.


Ég þarf ekki loft því HELLINGUR AF ÞVÍ ER PRUMP. ÉG ÆTLA EKKI AÐ ANDA AÐ MÉR PRUMPI. ÞIÐ GETIÐ ANDAÐ AÐ YKKUR PRUMPI.


En svo mundi ég að ég er of löt til að búa til tumblr síðu og að þetta var allt frekar fáránlegt. Málið er þetta: Finnst þér að karlar og konur eigi að hafa jafnan rétt efnahagslega, í samfélaginu og á sviði stjórnmála? Þá ertu líklega feministi. Það eru milljón hliðar á þessu máli og ég veit það. Þetta er flókið. Það er ekki bara ein gerð af feminista, ekki frekar en ein gerð af kristnum eða múslimum, eða körlum eða konum. Það er ekki einu sinn bara ein gerð af hákörlum. Sumir eru hættulausir og vinalegir. Sumir sogast upp í hvirfilbylji og hakka í sig andlit fólks þar til gaurinn úr 90210 stoppar veðrið með sprengjum. (Varúð, endinum kjaftað.) Málið er að hákarlar, rétt eins og feministar, eru frábærir og gagnlegir, og heimurinn yrði verri án þeirra. Auk þess eru þeir rosalega skemmtilegir og enda þótt manni finnist þeir stundum vera fávitar vegna þess að þeir éta krúttlega seli æpir maður samt „VÁSÉRÐETTA!“ þegar Hákarlavikan er á dagskrá. Ég held að þetta sé léleg samlíking. Reyni aftur.

Feministar eru eins og býflugur. Þær eru krúttlegar og loðnar en fólk hleypur burtu frá þeim því það skilur ekki að þær vilja gera góða hluti. Við værum í djúpum skít án býflugna. Í alvöru. Og já, sumar býflugur eru fávitar og kannski drap einhver þeirra afabróður þinn og sumar þeirra lítur maður hornauga þegar þær haga sér eins og brjálæðingar en fyrir rest áttar maður sig á að það þarf að taka góðu býflugunum með slæmu býflugunum og kannski bara gera uppá milli hvaða hunang þú vilt borða. Vel á minnst, fáðu þér óunna hunangið, það er langtum heilsusamlegra. Þetta síðasta tilheyrir ekki samlíkingunni. Það er bara heilræði frá langafa (sem var býflugnabóndi). Og feministar, rétt eins og býflugur, gefa af sér óætt vax og verða auðveldlega ringlaðar af reyk.

Ég hef tapað þræðinum.

Nei, bíddu. Ég fann hann aftur.

Feminismi er í sjálfu sér góður. Hann er ekki nærri því fullkominn og þarf miklar umbætur og stundum fer allt í klessu og baklás og verður hrikalegt en það þýðir ekki að hann sé ekki þess virði að berjast fyrir. Bakkaðu og settu „mannkyn“ í stað „feminismi“. Það virkar, er það ekki? Það er vegna þess að feminismar eru gerðar úr manneskjum. Körlum og konum. Reyndar er Sir Patrick Stewart einn af mínum uppáhaldsfeministum.

[Á skiltinu sem er merkt Amnesty International stendur: Verjum rétt kvenna og stúlkna.]












[Myndatexti: Svona lítur feministi út. Patrick Stewart, feministi. Laun móður hans fyrir fjörtíu tíma vinnuviku í spunaverksmiðju voru 3 pund og 10 skildingar. Hún var einnig þolandi heimilisofbeldis og hann er talsmaður gegn heimilisofbeldi. Meira neðst.]

Ég er ekki að segja að þú getir ekki valið að vera ekki feministi en þú verður að vita hvað þú ert að velja. Ekki taka ákvörðun um hóp útfrá mestu öfgaskoðunum hópsins. Ekki fara í vörn ef þú kafar dýpra og rekst á erfiðar hugmyndir um millikyn, kynþátt, kyngervi, nýlendukerfi, feðraveldi og karlfrelsi. Hlustaðu bara. Sumt af þessu mun verða skýrara fyrir þér. Sumt ekki. Sumt gerir það seinna þegar þú ert orðin önnur manneskja. Þú átt eftir að skipta um skoðun á sumu af þessu og heimurinn mun líka breytast. Sumt af þessu er kjaftæði. Sumt af þessu er sannleikur. Það er þess virði að hlusta á það allt.

Og nú er komið að þér að taka ákvörðun. Ertu feministi? Já? Nei? Jæja, hafðu ekki áhyggjur af því vegna þess að á morgun máttu aftur taka ákvörðun. Og það á við um alla daga það sem eftir er ævinnar.

Sjálf er ég feministi (ásamt mörgu, mörgu öðru). Ég trúi á jafnrétti og mér finnst við eiga verk fyrir höndum. Ég er þakklát þeim körlum og konum sem unnu að því frelsi og réttindum sem ég hef í dag og ég er stolt af því að fylgja hreyfingu sem ég vonast til að geri heiminn betri og öruggari fyrir dóttur mína (og fyrir karlana og konurnar sem hún mun deila með þeim heimi). Ég er ánægð með hvað við höfum náð langt og ég er glöð að við erum orðin meðvitaðri um feminísk málefni sem ekki snúast bara um gagnkynhneigðar, hvítar konur, jafnvel þótt það sé stundum erfitt að horfast í augu við þau málefni. Og ég er ánægð með að Konurgegnfeminisma tumblrið er til. Því þótt ég sé ósammála þeim flestum er ég glöð yfir að þessar konur hafa vettvang til að tjá sig, og líka vegna þess að ef við vitum hverjar eru röksemdirnar eða misskilningurinn getum við betur tekist á við það. Eða verið samþykk því. Eða hunsað það. Eða rætt það við syni okkar og dætur svo þau geti sjálf tekið upplýsta ákvörðun. Þú ræður.

Við eigum öll rétt á að tjá skoðun okkar. Það er nú einu sinni það sem feminismi snýst um.*

*Eða kannski ekki. Ég varð smá ringluð eftir að hákarlasamlíkingin fór á hliðina.


___
Birt með góðfúslegu leyfi bloggessunnar.

Efnisorð: ,